Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 21:49:15 (5207)

1996-04-23 21:49:15# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[21:49]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir mikilvægt að formaður Alþfl. hefur gefur þá yfirlýsingu hér að hann sé ekki tilbúinn til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég hef skilið málflutning Alþfl. fram að þessu að þeir vildu senda inn umsókn sem fyrst og þeir hefðu í reynd viljað senda hana inn fyrir löngu. Þannig hafa þeir talað og rætt um málið eins og það væri tiltölulega lítið mál að fá þarna niðurstöðu. Það væri bara aumingjaskapur annarra stjórnmálamanna að vera ekki búnir að þessu og kippa málinu í liðinn. Ég hef skilið málflutning Alþfl. þannig. Það væri eina leiðin til þess að það kæmi í ljós hvað þarna væri í spilunum. En nú segir hann að svo sé ekki. Þetta mál þurfi mjög langan undirbúning og það þurfi að vanda hér til. Hann segir að við séum ekkert að gera sem ég segi að sé rangt. Við förum að vísu sjálfsagt ekki í málið eins og hann vildi fara í það en erum við að skilgreina það og munum halda áfram að vinna því.

Hann spyr hvaða árangur hafi náðst í hafréttarmálum. Það hefur þó náðst sá árangur að samningurinn um úthafsveiðarnar hefur verið undirritaður og við verðum að vinna á þeim grundvelli. Hann er leiðandi í þessu máli. Það hefur náðst samningur um Reykjaneshrygg og það hefur þó náðst sá árangur í hinum erfiðu málunum að samningsumleitanir eru þó enn í gangi. Það hefur ekki upp úr þeim slitnað. Ég veit að það er ekki nægilegur árangur en það er þó árangur að samningsaðilar gera sér enn vonir um að hægt sé að ná þarna niðurstöðu.