Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 21:55:27 (5210)

1996-04-23 21:55:27# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SvG
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[21:55]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel að að mörgu leyti hafi farið fram hér mjög góð og merkileg umræða um utanríkismál og þar hafi menn farið yfir málin með málefnalegum og vönduðum hætti og umræðan hafi að mörgu leyti verið betri en oft áður þegar fjallað hefur verið um þessi mál á undanförnum árum. Og ég tel ástæðu til að vekja athygli á því. Ég tel að það sé ekki því að þakka að hæstv. ráðherra kýs að reiða fram sín mál eins og hann gerði. Ég tel að hér eigi allir þingmenn hlut að máli og hæstv. ráðherra auðvitað líka. Ég vil draga það fram sem mikilvægt atriði. Ég tel að það sé mikil spurning í framhaldi af þessum umræðum og það segi ég kannski sérstaklega í framhaldi af orðum hv. 9. þm. Reykv. áðan, hvort þessi kerfisbundna vinna sem hv. þm. er að lýsa eftir og má auðvitað gjarnan fara fram varðandi Evrópumál og fleiri mál, á ekki einmitt að fara fram hér í þessari virðulegi stofnun. Er það alltaf þannig að það eigi að bíða eftir því sem ríkisstjórnin segir, gerir og vill? Þarf Alþingi alltaf að setja sig í þá stöðu að það geti aldrei haft frumkvæði í neinum stórum málum eins og þeim sem hér eru uppi og verði að bíða eftir því sem frá ríkisstjórninni kemur? Ég vil í framhaldi af þessari umræðu hvetja til þess, hæstv. forseti, að Alþingi íhugi vinnubrögð sín mjög alvarlega í þessu efni vegna þess að staðan í nálgun utanríkismálanna er allt önnur núna en hún var fyrir allmörgum áratugum. Mér liggur við að segja að það sé þannig að menn eru frjálsir. Það er hægt að taka á hlutunum öðruvísi vegna þess að það hafa gengið yfir heiminn stórkostlegar breytingar og við erum öll sammála því að menn standa frammi fyrir nýjum, stórum, heillandi verkefnum. Ég held að það sé hættulegt ef t.d. utanrrn. reynir að hneppa þessi nýju verkefni, þessa nýju framtíðarsýn sem getur blasað við þjóðinni inn í gömul kerfi, þ.e. þau að allt eigi að vera í utanrrn. og sendiráðunum. Svo eigum við að bíða eftir skýrslunum og spyrja ráðherrann um þá hluti sem eru að koma upp á hverjum tíma. (JBH: Við skulum bara notast við ... í þetta.) Það var ekki mín tillaga, þó að það hafi nú oft verið gripið til þess og gefist vel eins og hv. þm. þekkir. Ég held að það sé komið að þeirri stundu og mér finnst að það eigi við um fleiri mál reyndar en utanríkismál, að Alþingi eigi að sýna ákveðna reisn, ákveðna forustu og ákveðið frumkvæði. En því miður er það enn þá þannig að menn setja sig í gömlu stellingarnar og spyrja og bíða eftir ríkisstjórninni. Og hvaða mál eru það t.d. sem ætti að taka fyrir að frumkvæði utanrmn., vegna þess að hún hefur til þess rétt samkvæmt þingsköpum að hafa frumkvæði? Hún hefur til þess rétt. Hvaða mál eru það sem á að byrja að ræða þar og leggja síðan fyrir þessa virðulegu stofnun? Það eru í fyrsta lagi, svo ég nefni dæmi, Evrópumálefnin. Það á að fara yfir þau mjög rækilega á vettvangi utanrmn., lið fyrir lið og gefa skýrslu til umræðu hér þar sem Alþingi talar sjálft saman um hlutina. Í öðru lagi eru það t.d. mál eins hafréttarmálin sem hér hafa verið rædd en verður auðvitað að ræða mikið betur í þessari stofnun en gefist hefur kostur á. Ég gerði ráð fyrir því að þau mál kæmu hér inn í vor, jafnvel í frumvarpsformi. Ég veit ekki hvernig það mál stendur varðandi úthafsveiðarnar. En að minnsta kosti finnst mér að hafréttarmálin í heild séu partur af því sem ætti að ræða að frumkvæði Alþingis, að frumkvæði utanrmn. en ekki alltaf að bíða eftir því sem kemur ofan úr Stjórnarráði í þessum efnum.

Einn þátturinn enn sem mér finnst að eigi að ræða í utanrmn. og kannski alveg sérstaklega, og hann hefði ég átt að nefna fyrst, eru öryggis- og friðarmálin. Þar standa menn frammi fyrir nýjum verkefnum og nýjum möguleikum. Ég held að menn eigi að horfast í augu við þá staðreynd að það er sennilega hægt núna á Íslandi að byggja upp víðtækari samstöðu um stefnuna í öryggis- og friðarmálum en nokkru sinni síðan í lokum stríðsins síðasta. Ætla menn að láta það tækifæri sem ný heimsmynd býður upp á fram hjá sér fara? Ætla menn að læsa sig fasta í gömlu kaldastríðsgröfunum eins og mér hefur fundist aðeins örla á þegar það kemur fram að hæstv. utanrrh. segir það vera á móti öllu að flytja frv. um friðlýsingu af því að það er tilræði við NATO í stað þess að reyna að horfa á þessi mál með sveigjanlegum, opnum og dínamískum hætti í samræmi við þau almennu nýju viðhorf sem eru að þróast í utanríkismálum, ekki bara hér á landi heldur einnig í öðrum löndum.

[22:00]

Þá kem ég að því, hæstv. forseti, sem mér finnst hafa líka vantað dálítið á í þessari umræðu án þess að það sé gagnrýni á neinn. Mér finnst umhugsunarvert eftir alla þessa löngu umræðu og ágætu ræður sem hér hafa verið fluttar að menn hafi velt því fyrir sér hver á að vera framtíðarsýn þjóðarinnar. Hverja viljum við hafa stöðu hennar í samfélagi þjóðanna til næstu áratuga? Hvernig drögum við þá mynd upp? Hver er staða Íslands í þessari þróun inn í nýja öld sem er skammt undan? Um þessi mál finnst mér að við eigum að fjalla t.d. á vettvangi utanrmn. og þar getur farið fram hin kerfisbundna vinna að einhverju leyti. Vandinn er sá að það gera menn ekki. Menn bíða eftir því sem kemur úr ráðuneytunum. Ég veit alveg að ráðuneytin upplifa tal eins og þessa ræðu þannig að verið sé að vantreysta þeim. Það eru venjuleg viðbrögð í ráðuneytunum. Það á ekkert við núv. hæstv. utanrrh., ég veit ekkert hvað hann segir um þetta mál. En ég hef heyrt slík viðbrögð hjá eiginlega öllum utanríkisráðherrum undanfarin ár eða áratugi að þegar talað hefur verið um frumkvæði Alþingis hafa menn alltaf brugðist við eins og særðir fuglar af því að það væri verið að taka eitthvert metnaðarmál frá þeim uppi í Stjórnarráðinu. Þannig eiga menn ekki að nálgast þessa hluti.

Ég held að menn eigi líka að gera sér grein fyrir því að Alþingi er í verulegum alþjóðlegum samskiptum. Hvernig tengjast þau alþjóðlegu samskipti við það sem við erum að tala um hér? Hvaða vinna er í gangi við að tengja það saman, annars vegar hina almennu utanríkisstefnu og hins vegar þátttöku Íslendinga í Evrópuráðinu, í þingmannasambandi NATO, í þingmannasambandi VES, í Norðurlandaráði, í Alþjóðaþingmannasambandinu? Hvar er heildarvinnan sem tengir þessa hluti saman? Við skulum játa það, hæstv. forseti, að hún er hvergi. Það er engin tilraun í gangi til þess að finna heildarsamnefnara í málinu. Og hvar liggur sú skylda? Sú skylda liggur ekki númer eitt á utanrrh. Á honum er mikil skylda. Sú skylda liggur á okkur öllum og ekki síst hv. forsætisnefnd og utanrmn. Alþingis. Þess vegna kvaddi ég mér hljóðs, hæstv. forseti, til þess að skora á utanrmn. að taka á þessum hlutum öðruvísi en gert hefur verið til þessa með hliðsjón af þeim miklu möguleikum sem ný heimsmynd hefur m.a. skapað Íslendingum eins og öðrum þjóðum.