Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 22:07:41 (5213)

1996-04-23 22:07:41# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[22:07]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Eitt finnst mér standa eftir þessa umræðu nú þegar dregur að lokum hennar. Velflestir sem hafa tekið þátt í henni hafa rætt um nauðsyn þess að með einhverjum hætti verði komið meiri reglu á það hvernig við ræðum um utanríkismál í þingsölum og hvernig þingið fer að því að móta sína stefnu er að þeim lýtur.

Hv. þm. Svavar Gestsson nefndi sérstaklega hvernig við þingmennirnir ættum að reyna að vinna okkur fram að stefnu sem lýtur að hinum ýmsu samtökum og ráðum sem þingmenn sækja sem fulltrúar Alþingis Íslendinga. En það er nákvæmlega þetta sem við ræddum fyrir jól þegar við vorum að ræða skýrslur ýmissa nefnda og ráða sem þingmenn sækja fyrir hönd okkar sem hér erum og (HG: Í febrúarlok.) febrúarlok, segir hv. þm. Hjörleifur Guttormsson eftir að hafa konsúlterað skjalasafn sitt en það var einmitt hæstv. utanrrh. sem tók undir nauðsyn þessa. Þá voru því gerðir skórnir að það væri við umræður um ræðu og skýrslu utanrrh. sem þingið mundi leggja saman höfuð sín til að móta stefnu í þessum málum. Það er einmitt það sem mér hefur fundist skorta á í kvöld að við höfum tóm til þess að gera. Kannski er rétt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að það ætti að vera utanrmn. sem yrði kjarninn í slíkri vinnu og legði með einhverjum hætti fram vísi að því hvernig stefnan á að vera í hinum ýmsu ráðum sem við sækjum.

Herra forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson flutti hér snjallt mál eins og hans var von og vísa um hina breyttu heimsmynd og að þingið þyrfti að móta stefnu sem hæfði henni. Hann nefndi ýmis þau samtök sem þingmenn eiga aðild að og hann nefndi t.d. þingmannasamtök NATO. Ég velti því fyrir mér: Er það hluti af hinni breyttu heimsmynd Alþb. að velta fyrir sér hvernig Íslendingar geti notað þingmannasamtök NATO til þess að vinna að hagsmunum Íslendinga? Hvaða vettvang er hann að bjóða fram undir það? Ég vænti þess að hann sé ekki að bjóða þingflokk Alþb. undir það en ég saknaði þess þegar hv. þm. Svavar Gestsson ræddi um nauðsyn þess að við reyndum að staðsetja okkur í nýrri pólitískri veröld að þá ræddi hann einmitt burðarásinn í utanríkisstefnu Íslendinga í gegnum áratugina. Það er auðvitað Atlantshafsbandalagið. Hvar sér hann og Alþb. Atlantshafsbandalagið og hlutverk þess í hinni nýju heimsmynd sem hv. þm. Svavar Gestsson kallar eftir? (HG: Tímaskekkja.) Tímaskekkja, segir hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og er bersýnilega talsmaður þeirrar framtíðar sem núv. Alþb. er að berjast fyrir. En tímarnir voru öðruvísi, herra forseti.

Við vorum fyrir nokkrum árum að ræða framtíð Atlantshafsbandalagsins við svipaðar kringumstæður og núna, þ.e. undir skýrslu hæstv. utanrrh. sem góðu heilli var þá annar ráðherra en nú situr. Þá gerðist það að menn veltu því upp að Atlantshafsbandalagið hefði ekki sömu viðspyrnu og áður vegna þess að Berlínarmúrinn væri hruninn og þar af leiðandi væri enginn óvinur og þess vegna þyrfti ekkert Atlantshafsbandalag. Það er raunar hið efnislega inntak í frammíköllum hv. þingmanna Alþb. í kvöld.

Hvað gerðist þá á þeim sögulega degi? Þá reis upp spámaður, kastaði yfir sig kufli sjáandans og spáði fyrir um hvernig hlutverk Atlantshafsbandalagsins mundi þróast. Þessi maður er því miður ekki á meðal vor í dag, hann hefur öðrum hnöppum að hneppa. Það var hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sem þá var formaður Alþb. Hann spáði því þá og hafði ekkert að standa á nema skýrslu aðalritara Sameinuðu þjóðanna frá 1992 að NATO mundi í hinni nýju, breyttu veröld hafa tilgang og tilgangurinn yrði sá að gæta friðarins m.a. í Evrópu. Ég er viss um það að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur setið undir þeirri ræðu og hrist sitt fallega, silfursprengda höfuð.

En hvor hafði rétt fyrir sér, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson eða forsetaframbjóðandinn Ólafur Ragnar Grímsson? Það var auðvitað hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sem spáði fyrir um hlutina eins og þeir urðu því að staðreyndin er í dag, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, ... (HG: Ég verð að þola margt.) Hv. þm. segir: Ég verð að þola margt og ég veit ekki hvort hann á við forsetaframbjóðandann, en hann verður a.m.k. að þola það að hann hafði rangt fyrir sér en hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafði rétt fyrir sér vegna þess að í dag er einfaldlega staðreynd að friðurinn í Mið-Evrópu er tryggður af Atlantshafsbandalaginu. Það hefur gerst, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, að kolleginn hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafði rétt fyrir sér um það að NATO mundi í framtíðinni vera eins konar friðargæslusveitir. Hann sagði að vísu undir yfirstjórn Sameinuðu þjóðanna. Það er hið eina sem ekki hefur gengið eftir en hver veit hvað gerist á allra næstu mánuðum.

Herra forseti. Mér hefur þótt merkilegt að hlýða á umræður um Evrópumálin. Mér hefur ekkert þótt merkilegt að hlýða á það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur um það að segja vegna þess að allt sem hann sagði í dag hafði ég heyrt áður. En það voru nýir tónar í dag. Hæstv. utanrrh. hefur komið upp í kvöld og sagt: Það er alrangt að það sé hægt að túlka mál mitt þannig að það sé um einhverja stefnubreytingu að ræða af hálfu Framsfl. gagnvart Evrópusambandinu. En má ég rifja það upp, herra forseti, að það eru ekki nema nokkrar klukkustundir liðnar síðan hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kom upp og snupraði hæstv. forsrh. fyrir það að hafa ekki sama frjálslyndi og víðsýni gagnvart Evrópusambandinu og hæstv. utanrrh. Þó að ég vilji ekki fara að halda því fram að einhver ágreiningur sé innan ríkisstjórnarinnar eru a.m.k. misstemningar og ég vísa líka til þess að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir talaði af umhyggju og hlýju um Evrópusambandið og ekki var hægt að skilja orð hennar í andsvörum öðruvísi en svo, herra forseti, að hún sæi þá tíð nálgast að Framsfl. eða a.m.k. hinum frjálslynda hluta hans mundi vel hugnast að finna sér lítil ból innan vébanda þess.

[22:15]

Ég ætlaði, herra forseti, að ræða það sem hæstv. utanrrh. sagði í febrúarlok þegar við ræddum skýrslur alþjóðanefnda að ætti að ræða hér, þ.e. stefnu Íslendinga og íslensku ríkisstjórnarinnar varðandi stækkun NATO. Ég hef farið örfáum orðum um það fyrr í dag en tíminn var ekki nægur þá og ég ætla að halda þeirri ræðu áfram. (HG: Og VES.) Það er vesen á hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni en það er ekkert nýtt fyrir þingheim.

Hæstv. utanrrh. afgreiðir stækkun NATO sem er sennilega mikilvægasta verkefni sem blasir nú við á alþjóðavettvangi á eftirfarandi hátt, með leyfi herra forseta:

,,Stækkun NATO verður að fara fram með markvissum en umfram allt vel ígrunduðum hætti. Hún má hvorki verða til þess að draga úr sameiginlegum varnarmætti bandalagsins né valda nýrri skiptingu Evrópu. Það verður að taka tillit til öryggishagsmuna margra ríkja, bæði þeirra sem geta gerst aðilar fljótlega og hinna sem þurfa lengri aðlögunartíma eða óska alls ekki eftir aðild.``

Herra forseti. Þetta er stefna íslensku ríkisstjórnarinnar varðandi stækkun NATO. (JBH: Sjö línur.) Sex og hálf, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, sex og hálf lína. Ég beið eftir þessari umræðu í allan vetur. Ég beið eftir því að hæstv. utanrrh. kæmi hérna og ljómaði mín skilningarvit með nýrri sýn á þessi mál. En hann hefur ekkert fram að færa. Ég segi það, herra forseti, að við skuldum okkar örsmáu bandamönnum við Eystrasaltið skýringu á því hvernig stendur á því að hæstv. utanrrh., utanrmn. og hver einasti Íslendingur sem a.m.k. sem fulltrúi stjórnvalda hefur talað við þessar þjóðir --- þá hafa þeir lofað því að tala máli þeirra. Ég vil fá yfirlýsingu frá hæstv. utanrrh. um það að hann muni beita sér fyrir málstað þessara þjóða á vettvangi NATO. Sú yfirlýsing hefur ekki komið. Það eina sem hæstv. utanrrh. hefur að segja er það sem er að sjá í þessari sex og hálfu línu.

Núna, herra forseti, er mjög erfitt fyrir ný ríki að komast inn í Atlantshafsbandalagið. Það kann vel að vera að ýmsum þingmönnum og þá sérstaklega hv. þm. Alþb. hugnist þetta ekki. Ég veit það ekki. En staðreyndin er sú að við eigum að virða sjálfsákvörðunarrétt þjóðanna og þessar þrjár þjóðir telja að framtíð þeirra sé í húfi, þær þurfi að fá öryggið sem NATO getur búið þeim. Það er auðvelt að skilja það, herra forseti. Ég hef fyrr í dag vitnað í nýlega tímaritsgrein og ég ætla að vitna í annað úr þeirri grein. Þetta er í grein úr rússneska tímaritinu Nesjavisímaja gaséta sem birtist 11. apríl. Þar eru hámenntaðir herforingjar, Valerí Dementjev og Anton Súríkov frá rússnesku varnarfræðistofnuninni, að velta því fyrir sér hvar rússneski herinn kunni að lenda í átökum. Það er alveg klárt hvar það er að þeirra mati. Þar segir, með leyfi herra forseta:

,,Á landsvæðum hinna fyrrverandi Sovétríkja er helsti óvinur Rússlands öfl herskárrar þjóðernishyggju sem starfa með aðstoð erlendis frá og sem hafa yfir að ráða vopnuðum liðsafla, her, lögreglu og öðrum gæslusveitum í Eystrasaltslöndunum.`` Síðan er að vísu hnýtt við: ,,Hinum ólögmætu hersveitum Dúdajevs og tadsjikisku andstöðunni.``

Með öðrum orðum, þarna eru það rússneskir herforingjar sem eru að segja að það sé líklegast að ef það blossa upp átök sem rússneski herinn þurfi að taka þátt í, þá verði þau í Eystrasaltslöndunum. Og þeir ganga lengra, herra forseti, þeir segja líka: ,,Eystrasaltssvæðið er sprengifimasta svæðið þegar menn íhuga möguleikana á þróun sem gæti leitt til nýrra átaka með þátttöku hersveita rússneska sambandsríkisins.`` Þegar maður horfir til þessa, sem sagt er fyrir örfáum dögum og til þess sem fyrrv. utanríkisráðherra Rússlands sagði fyrir tæpum tveimur árum, að nauðsynlegt kynni að verða að fara með rússneska herinn inn í þessi ríki til þess að vernda rússneska minni hlutann, þá sjá menn auðvitað hvað til friðar þessara ríkja heyrir. Menn hljóta að sjá ógnina sem þeir búa við. Við megum heldur ekki gleyma því að við eigum þeim sögulega skuld að gjalda. 1940 þegar sovéski björninn slæmdi hrammi sínum á þessar þjóðir, þá stóð enginn upp og stappaði niður fæti þeim til varnar. Og núna þegar þessar þjóðir telja að sér sé ógnað, hvað gera þær? Þær vilja njóta sama skjóls og við höfum notið áratugum saman. Og hvert leita þær um stuðning? Þær leita til smáþjóðarinnar Íslands vegna þess að þær vita það af reynslunni að þær eiga hauka í horni þar. Þær koma til þjóða eins og okkar og þá gengur það ekki, herra forseti, að hæstv. utanrrh. lýsi því yfir í prívatsamtölum við Solana, framkvæmdastjóra NATO, að hann styðji umsókn þeirra. Hann verður að ganga fram fyrir skjöldu og rödd Íslands verður að heyrast á alþjóðavettvangi. Það er einungis þannig, með samstilltu átaki okkar og annarra bandamanna þeirra, sem þeim auðnast að ná þessu öryggisneti sem þessar þrjár þjóðir telja að eitt geti bjargað þeirra framtíð. Það er þetta, herra forseti, sem mér finnst að íslenski utanrrh. eigi að beita sér fyrir á alþjóðavettvangi, en það dugar ekki að koma hingað á Alþingi Íslendinga með sex og hálfa línu sem segja bókstaflega ekki neitt.