Samningar við Færeyjar um fiskveiðimál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 22:22:03 (5214)

1996-04-23 22:22:03# 120. lþ. 125.3 fundur 470. mál: #A samningar við Færeyjar um fiskveiðimál# þál. 14/1996, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[22:22]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á tveimur samningum milli Íslands og Færeyja um fiskveiðimál fyrir árið 1996, annars vegar um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum og hins vegar um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu. Gengið var frá samningnum með orðsendingaskiptum í Reykjavík og Þórshöfn 2. febrúar 1996.

Samkvæmt fyrrnefnda samningnum verður hámarksafli íslenskra skipa úr norsk-íslenskri síld á þessu ári 244 þús. lestir en hámarksafli færeyskra skipa 86 þús. lestir. Samningurinn gerir ráð fyrir gagnkvæmum aðgangi skipa hvors aðila að lögsögu hins.

Ekki er ætlunin með þessum samningi að útiloka frekari viðræður við Noreg og Rússland í því skyni að ná samkomulagi strandríkjanna fjögurra um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Það er ekki síður ástæða til að ítreka það nú þegar Evrópusambandið hefur gefið út einhliða kvóta í síldveiðunum.

Samkvæmt síðarnefnda samningnum sem hér er líka tekinn fyrir, er færeyskum nótaskipum veitt heimild til að veiða allt að 30 þús. lestir af loðnu innan íslenskrar lögsögu á þessu ári sem skiptist þannig að veiða má allt að 10 þús. lestir á tímabilinu febrúar--maí og allt að 20 þús. lestir á tímabilinu júlí--desember.

Samningurinn gerir enn fremur ráð fyrir gagnkvæmri heimild skipa hvors aðila til kolmunnaveiða innan lögsögu hins á þessu ári. Vonir standa til að slík gagnkvæm heimild muni hvetja til veiða á kolmunna en hans varð vart í íslenskri lögsögu síðasta haust.

Loks er í samningnum staðfest heimild íslenskra skipa til veiða allt að 1.000 lestum af makríl og 2.000 lestum af síld annarri en norsk-íslenskri innan færeyskrar lögsögu á árinu 1996.

Samningarnir tóku gildi til bráðabirgða 2. febrúar 1996 og munu öðlast endanlegt gildi þegar tilkynnt hefur verið um að stjórnskipulegum skilyrðum hvors lands um sig hafi verið fullnægt.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.