Samningar við Færeyjar um fiskveiðimál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 22:30:34 (5216)

1996-04-23 22:30:34# 120. lþ. 125.3 fundur 470. mál: #A samningar við Færeyjar um fiskveiðimál# þál. 14/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[22:30]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þó að ég hafi kosið að fara örfáum orðum um þetta mál get ég ekki sagt að það verði jafnmikill heiður af þeirri ræðu og þessari óskaplega fínu ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem talaði áðan.

Það sem ég vildi aðallega ræða um undir þessum lið er sá þessara tveggja samninga sem lýtur að veiðum á norsk-íslenska síldarstofninum. Ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þegar hann segir að við eigum Færeyingum skuld að gjalda vegna þess að obbinn af því sem við veiddum í fyrra var tekinn innan þeirra efnahagslögsögu. Það er líka rétt að rifja það upp að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var einn af þeim sem fyrir nokkrum árum varaði við þegar menn vildu gerast fullharðir við ívilnanir Færeyinga innan íslensku efnahagslögsögunnar. Ég veit að vísu að honum gekk það eitt til að gera frændum í erfiðri og þröngri stöðu gott en þeir hafa launað það margfalt eins og sést hefur. Ég velti því reyndar upp, herra forseti, fyrst ég er farinn að tala um framsýni þessa ágæta þingmanns að hann hefur líka rætt um nauðsyn þess að ná góðum samskiptum við Grænlendinga og jafnframt að veita þeim ákveðnar ívilnanir um loðnuveiðar og benti á að sá tími kann að vera innan skamms að við þurfum að róa fyrir þeirra víkur til þess að eiga við þá gott samstarf um ýmsar aðrar veiðar.

Herra forseti. Mig langar að varpa fram spurningu til hæstv. sjútvrh. Hún lýtur að því hvers vegna er nauðsynlegt, þetta stafar af fullkominni fáfræði, hvers vegna er nauðsynlegt fyrir ...

(Forseti (StB): Utanrrh.)

Já, hvað sagði ég?

(Forseti (StB): Sjútvrh.)

Fyrir mér, herra forseti, eru þeir nánast ein og sama persónan þannig að það skiptir kannski ekki miklu máli en ég bið þó hæstv. utanrrh. afsökunar. Spurningin sem ég vildi varpa fram er þessi: Hvers vegna er nauðsynlegt fyrir íslenska þingið að staðfesta samninginn um veiðistjórnun á norsk-íslenska síldveiðistofninum? Er það vegna þess að það er forsenda þess að ríkisstjórnin geti stjórnað veiðunum með kvótasetningu? Ég hef stundum velt þessu fyrir mér. Þessi umræða kom upp í tengslum við samninginn í fyrra og ég verð að viðurkenna að það er sennilega vegna þess að ég er bara með slaka meðalgreind eins og oft er rifjað upp í þessum sal að mér tókst aldrei að skilja það til fullnustu.