Samningar við Færeyjar um fiskveiðimál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 22:33:28 (5217)

1996-04-23 22:33:28# 120. lþ. 125.3 fundur 470. mál: #A samningar við Færeyjar um fiskveiðimál# þál. 14/1996, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[22:33]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég þakka undirtektir hv. þingmanna við þessu máli. Aðeins örstutt um spurningu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Það hefur verið talið af flestum að hægt sé að ganga frá samningi sem þessum án þess að hann sé lagður fyrir Alþingi. Það hefur hins vegar verið mat ríkisstjórnarinnar nú og oft áður ef ég man rétt að réttara væri að leggja slíka samninga fyrir Alþingi þannig að það væri fjallað um þá þar og þeir staðfestir. Ég tel að þetta sé rétt hefð því að hér er að sjálfsögðu um svo mikil hagsmunamál að ræða að það hlýtur að vera eðlilegt að þeir komi til umfjöllunar á Alþingi.

Hins vegar er rétt að til þess að hægt sé að stýra þessum veiðum þarf að vera um að ræða milliríkjasamning og það hefur verið talið að milliríkjasamningurinn sem slíkur, þ.e. sá sem nú hefur verið gerður, gefi sjútvrn. nauðsynlegt svigrúm og heimildir til þess að stýra veiðunum á grundvelli laga. Það hefur ráðuneytið gert. Það er hins vegar alveg ljóst ef milliríkjasamningur liggur ekki fyrir um mál eins og þetta, þ.e. milli Íslendinga og Færeyinga eins og í þessu sambandi eða þá Íslendinga og Norðmanna, hefur ríkisvaldið ekki heimildir til að takmarka veiðar íslenskra skipa í úthafinu þannig að án þessa samnings væru íslensk fiskiskip frjáls að því að veiða á alþjóðlegu hafsvæði. Sama á við í Barentshafi. Vegna þess að það liggur ekki fyrir neinn milliríkjasamningur milli Norðmanna og Íslendinga um veiðar í svokallaðri Smugu hafa íslensk stjórnvöld enga heimild til að takmarka veiðar íslenskra skipa á þessu svæði. Við getum hins vegar sett reglur um búnað þeirra og annað slíkt en getum ekki takmarkað veiðarnar nema til komi samningur um málið milli Norðmanna og Íslendinga.