Evrópusamningur um forsjá barna

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 22:40:34 (5219)

1996-04-23 22:40:34# 120. lþ. 125.4 fundur 471. mál: #A Evrópusamningur um forsjá barna# þál. 9/1996, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[22:40]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda fyrir Íslands hönd annars vegar Evrópusamning um viðurkenningu á fullnustu ákvarðana varðandi forsjá barna og endurheimt forsjár barna sem gerður var í Lúxemborg 20. maí 1980 og hins vegar samning um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa sem gerður var í Haag 25. okt. 1980.

Efni samninganna tveggja er nátengt, en báðum er ætlað að veita úrræði í tilvikum þar sem barn er flutt ólöglega úr landi til annars lands og haldið þar gegn vilja forsjárforeldris. Samstaða hefur náðst á alþjóðlegum vettvangi um að nauðsynlegt sé að grípa til ráðstafana til verndar börnum í slíkri aðstöðu og hægt sé að færa þau réttum forsjáraðilum.

Samningarnir tveir eru afrakstur þessarar alþjóðlegu samvinnu. Evrópusamningurinn var gerður á vettvangi Evrópuráðsins en Haag-samningurinn á vegum Haag-ráðstefnunnar um alþjóðlegan einkamálarétt.

Með lögum nr. l60/1995 voru lögfest nauðsynleg ákvæði til þess að unnt væri að standa við skuldbindingar Íslands verði samningarnir fullgiltir af Íslands hálfu þannig að mál þetta hefur í reynd nú þegar komið til umfjöllunar á Alþingi. Ég tel því ekki ástæðu til þess að fjalla í framsögu frekar um samninginn og legg til, herra forseti, að tillögu þessari verði vísað til hv. utanrmn. að lokinni umræðunni.