Fullgilding samnings gegn pyndingum

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 22:42:28 (5220)

1996-04-23 22:42:28# 120. lþ. 125.5 fundur 475. mál: #A fullgilding samnings gegn pyndingum# þál. 10/1996, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[22:42]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þáltill. þessari er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda samning gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu sem gerður var í New York 10. des. 1984 og staðfesta breytingu á samningnum sem gerður var á sama stað 9. sept. 1992.

Á undanförnum áratugum hefur margvísleg alþjóðleg samvinna átt sér stað, bæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins, um bann við pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu og um varnir gegn pyndingum. Ísland er þegar aðili að ýmsum alþjóðasamningum sem fela í sér skuldbindingu um að menn skuli verndaðir gegn pyndingum og annarri slíkri meðferð. Samningurinn sem hér um ræðir er meðal mikilvægustu alþjóðasamninga um mannréttindi sem gerðir hafa verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Þessi samningur leggur þær skyldur á aðildarríki að þau grípi annars vegar til ráðstafana til þess að framfylgja fortakslausu banni við pyndingum og hins vegar til ráðstafana til að koma í veg fyrir að pyndingar eigi sér stað. Ekki eru bein efnisákvæði í samningnum um bann við pyndingum heldur er vísað í formála hans til mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna frá 1948 og alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966 þar sem slíkt fortakslaust bann kemur fram. Í 1. gr. samningsins kemur fram ítarleg skilgreining á því hvað felst í hugtakinu pyndingar og er hér um afar mikilvæg ákvæði að ræða.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni umræðunni verði tillögu þessari vísað til hv. utanrmn.