Fullgilding samnings gegn pyndingum

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 22:44:24 (5221)

1996-04-23 22:44:24# 120. lþ. 125.5 fundur 475. mál: #A fullgilding samnings gegn pyndingum# þál. 10/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[22:44]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það eru ekki efnislegir þættir þessa máls sem ég ætla aðeins að ræða heldur koma á framfæri lítilli athugasemd varðandi málfar sem ég tók eftir þegar ég leit yfir þetta þingmál.

Í fyrirsögn er talað um fullgildingu samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Mér er ekki tamt orðið ,,ómannlegur`` sem á að vera þýðing á inhuman á enskunni og hlýtur að vera ómannúðlegur. Orðið ,,ómannlegur`` gengur hins vegar hvarvetna eftir í greinargerð. Hugsanlega hefur tölvan verið látin vinna verkið nema þetta sé þeim tamt sem þýddi en ég hef litið í orðabækur og ekki séð þetta, annaðhvort að nota ómannúðlegur eða harðneskjulegur sem líka kemur til greina.

Þá fór ég að líta aðeins frekar í málið og ég bið utanrrh. að líta á bls. 5 með mér, 1. gr. sem er satt að segja á afskaplega sérkennilegri íslensku. Mér gekk mun betur að skilja enska textann en þann íslenska. Ég vil leyfa mér að lesa íslenskuna, með leyfi forseta:

,,Í samningi þessum merkir hugtakið ,,pyndingar`` hvern þann verknað sem manni er vísvitandi valdið alvarlegum líkamlegum eða andlegum sársauka eða þjáningu með í því skyni t.d. að fá hjá honum eða þriðja manni upplýsingar eða játningu, refsa honum fyrir verk sem hann eða þriðji maður hefur framið eða er grunaður um að hafa framið, eða til að hræða eða neyða hann eða þriðja mann, eða af ástæðum sem byggjast á mismunun af einhverju tagi, þegar þeim sársauka eða þjáningu er valdið af eða fyrir frumkvæði eða með samþykki eða umlíðun opinbers starfsmanns eða annars manns sem er handhafi opinbers valds. Hugtakið tekur ekki til sársauka eða þjáningar sem rekja má að öllu leyti til eða tilheyrir eða leiðir af lögmætum viðurlögum.``

Eins og fram kemur er tæpast skiljanlegt mál á þessum íslenska texta. Vissulega er enski textinn býsna snúinn, mjög löng málsgrein, en þó skiljanlegur þegar hann er lesinn. En hitt er óskiljanlegt með öllu og ég bið hæstv. utanrrh. að láta aðeins líta á þetta eða utanrmn., sem fer fyrir þetta efni sem er kannski eðlilegt, til þess að vanda betur til málfars á þessu.

Ég leit á fleiri greinar og mér sýnist þetta ekki ganga eftir, ekki svona hraklega eins og þetta dæmi sem ég rakti. Við þurfum að gæta þess í sambandi við þessi efni sem verið er að þýða og lögleiða eða blessa á Alþingi að þetta sé svona á sæmilega skiljanlegu máli, hinn íslenski texti einnig.