Háskóli Íslands

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 23:04:30 (5227)

1996-04-23 23:04:30# 120. lþ. 125.13 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, Frsm. meiri hluta SAÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[23:04]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta menntmn. um frv. til laga um breyting á lögum um Háskóla Íslands og um frv. til laga um breyting á lögum um Háskólann á Akureyri.

Menntmn. hefur fjallað um frumvörpin og fengið á sinn fund fulltrúa frá Háskóla Íslands og stúdentaráði Háskóla Íslands.

Frumvörpunum er ætlað að treysta lagagrundvöll skrásetningargjalds sem innheimt er af stúdentum við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Þykja slíkar lagabreytingar nauðsynlegar í ljósi álits umboðsmanns Alþingis frá því sl. vor. Að áliti umboðsmanns er skrásetningargjald þjónustugjald. Hann telur að hvorki sé kveðið nægilega skýrt á um í lögum hvað fella megi undir gjaldið né hvernig megi ráðstafa því. Þá kemur fram í álitinu að sértekjur þær sem skólarnir afla með skrásetningargjöldum þurfi að hafa skýra lagastoð og einnig að nauðsynlegt sé að skýrar reglur gildi um ráðstöfun hluta þeirra tekna til annarra aðila en skólanna sjálfra, svo sem til nemendafélaga og félagsstofnana.

Vert er að rifja það upp við þessa umræðu að skrásetningargjald við Háskóla Íslands er ekki ný bóla. Það hefur verið innheimt þar frá upphafi, sbr. lög nr. 35/1909. Heiti gjaldsins var ekki breytt þótt það hafi verið tilgangur 1. tölul. 4. gr. laga nr. 33/1968, um Félagsstofnun stúdenta, að í orðinu skrásetningargjald fælist einnig sjálfstætt gjald til Félagsstofnunar. Háskóli Íslands hefur alltaf litið svo á að undir skrásetningargjald falli þeir gjaldaliðir sem samkvæmt hefð og venju hafa verið innheimtir í áratugi við háskólann. Þetta má enn fremur ráða af gildandi 7. mgr. 21. gr. laga um háskólann sem kom inn í lög nr. 77/1979, um Háskóla Íslands, en þar segir að skrásetningargjöld skuli háð samþykki háskólaráðs og menntmrh.

Árið 1992 var skrásetningargjald við Háskóla Íslands hækkað verulega. Leiða má að því líkur að hækkun gjaldsins hafi leitt til þess að skrásetning stúdenta varð nákvæmari en hún hafði áður verið þar eð sama ár fækkaði mjög þeim stúdentum sem voru í mjög litlu námi eða höfðu skrásett sig og mættu síðan af einhverjum ástæðum ekki til náms. Með öðrum orðum, virðist hækkun skrásetningargjalds hafa haft í för með sér meiri aga innan skólans í skráningu stúdenta. Það tel ég að sé bæði jákvætt og eftirsóknarvert jafnvel þótt menn geti síðan deilt um hversu há upphæðin eigi að vera.