Háskóli Íslands

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 23:08:38 (5229)

1996-04-23 23:08:38# 120. lþ. 125.13 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, Frsm. meiri hluta SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[23:08]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vísa í 1. gr. frv. þar sem fram kemur að 13% af gjaldinu á að fara til Félagsstofnunar stúdenta og allt að 10% til sérstakra verkefna samkvæmt samningi milli háskólans og stúdentaráðs Háskóla Íslands. Það er tekið til í greinargerð með 1. gr. frv. hvað það er sem skuli felast í skrásetningargjaldinu og þar segir, með leyfi forseta:

,,Þar má sem dæmi nefna margvíslega þjónustu sem stúdentum er veitt á námstímanum utan formlegra kennslustunda, svo sem skráningu stúdenta í námskeið og próf, varðveislu upplýsinga um námsferil stúdenta, upplýsingar um námsferil sem sendar eru stúdentum þrisvar á hverju háskólaári, auglýsingu og miðlun upplýsinga vegna skráningar, skipulag kennslu og prófa, kennsluskrá, stúdentaskírteini og aðgang að þjónustu nemendaskrár, skrifstofu kennslusviðs, deildaskrifstofum, alþjóðaskrifstofu, upplýsingastofu um nám erlendis, námsráðgjöf, bókasafni og tölvum og prenturum háskólans.``