Háskóli Íslands

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 23:17:04 (5233)

1996-04-23 23:17:04# 120. lþ. 125.13 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, Frsm. 2. minni hluta LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[23:17]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 2. minni hluta á þskj. 834 og breytingartillögum á þskj. 856 og 857.

Á síðustu árum hafa ákvarðanir stjórnvalda valdið því að almenningi er nú í ríkari mæli gert að greiða fyrir opinbera þjónustu sem áður var veitt endurgjaldslaust. Vegna þeirrar meginreglu að stjórnsýslan er lögbundin þarf skýra lagaheimild til slíkrar gjaldtöku. Þegar um er að ræða einfalda lagaheimild til töku þjónustugjalds, eins og gert er ráð fyrir í frv. til laga um breyting á lögum um Háskóla Íslands, á gjaldið almennt ekki að vera hærra en sá kostnaður sem hlýst af því að veita umrædda þjónustu. Með öðrum orðum er einungis heimilt að taka gjald til að standa straum af þeim kostnaði sem heimildin kveður á um, í þessu tilviki skrásetningu. Kostnaðurinn verður að vera í nánum og efnislegum tengslum við þá þjónustu sem gjaldandinn er að greiða fyrir.

Skólaárið 1992--1993 knúðu stjórnvöld háskólann til að innheimta mun hærri skráningargjöld af stúdentum en áður hafði þekkst og það án þess að gera að fullu grein fyrir hvaða kostnaði þessi gjöld áttu að standa undir. Síðar var reynt að flokka þá útgjaldaliði háskólans sem hægt var að flokka sem kostnað við skráningu. Samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis nr. 836/1993 og með hliðsjón af upplýsingum frá Háskóla Íslands er kostnaðurinn við skrásetningu hvers nemanda sem nemur um það bil 3 þús. kr.

Hins vegar kemur í ljós að ýmislegt annað fær að fljóta með í útreikninginn sem á engan hátt er hægt að fella undir kostnað við skrásetningu, svo sem kostnaður af námsráðgjöf og námskynningu, prófgæslu og prófdómurum, aðgangi nemenda að tölvum, útprentun hjá Reiknistofnun o.s.frv.

Með því að samþykkja þessa fjárhæð, 24.000 kr., sem tilgreind er í frv. sem kostnaður við skrásetningu, er löggjafinn að fallast á að þeir kostnaðarliðir, sem gefur að líta í fylgiskjali sem rökstuðning við fjárhæð skrásetningargjaldsins, séu raunverulegur kostnaður við skrásetningu. Má því í raun segja að þetta háa gjald, sem stúdentar við Háskóla Íslands þurfa að greiða, geti verið lognið á undan storminum því að ávallt verður hægt að vísa til þess að Alþingi hafi lögfest þessa kostnaðarliði sem raunverulegan kostnað við skrásetningu.

Grundvallarspurning, sem Alþingi verður að svara, er hvort um raunverulegan kostnað við skrásetningu sé að ræða eða hvort verið sé að fara bakdyraleiðina að því að koma á skólagjöldum á Íslandi. Um það verða greidd atkvæði.

Í ljósi þessa leggur 2. minni hluti fram breytingartillögur við frumvörpin á sérstökum þingskjölum.

Á þskj. 856 er brtt. við frv. til laga um breyting á lögum nr. 131/1990, um Háskóla Íslands, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,1. gr. orðist svo:

Í stað 6. og 7. mgr. 21. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar er orðast svo:

Við skrásetningu til náms greiðir stúdent skrásetningargjald, 9.000 kr. Af þeirri fjárhæð er háskólaráði heimilt að ráðstafa allt að 2.800 kr. til Félagsstofnunar stúdenta og allt að 2.200 kr. til stúdentaráðs Háskóla Íslands til sérstakra verkefna samkvæmt samningi milli háskólans og stúdentaráðs sem háskólaráð staðfestir.

Þeir einir teljast stúdentar við Háskóla Íslands sem skrásettir hafa verið til náms. Í reglugerð má kveða nánar á um árlega skrásetningu stúdenta.

Heimilt er að hækka fjárhæðir þær sem tilgreindar eru í 6. mgr. til samræmis við þær breytingar sem verða á vísitölu neysluverðs, sbr. lög nr. 12/1995.``

Á þskj. 857 er svohljóðandi brtt. frá 2. minni hluta, með leyfi forseta:

,,Eftirfarandi breytingar verði á 1. gr.:

a. 1. efnismgr. orðist svo:

Hver sá sem staðist hefur stúdentspróf frá íslenskum skóla sem heimild hefur til að brautskrá stúdenta getur sótt um að skrá sig til náms við háskólann gegn því að greiða skrásetningargjald, 9.000 kr. Af þeirri fjárhæð er háskólanefnd heimilt með samningi að ráðstafa allt að 2.800 kr. til Félagsstofnunar stúdenta á Akureyri og allt að 2.200 kr. til sérstakra verkefna samkvæmt samningi milli Háskólans á Akureyri og Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri sem háskólanefnd staðfestir.

b. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Heimilt er að hækka fjárhæðir þær sem tilgreindar eru í 1. mgr. til samræmis við þær breytingar sem verða á vísitölu neysluverðs, sbr. lög nr. 12/1995.``

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá formanni menntmn. áðan, þá eru krónurnar 24 þúsund aðeins einhvers konar slump út í loftið. Að baki þeim liggja engir útreikningar. Umboðsmaður Alþingis hefur komist að því í áliti að það sem hefur staðið að baki skrásetningargjaldi sé á engan hátt hægt að flokka undir kostnað við skrásetningu og því sé sú fjárhæð sem hefur verið ákveðin sem skrásetningargjald allt of há. Virðulegi forseti. Hér er ekki verið að gera neitt annað en leggja á skólagjöld eða skatta undir dulnefninu skrásetningargjöld.