Afgreiðsla stjórnarfrumvarpa fyrir þingfrestun

Miðvikudaginn 24. apríl 1996, kl. 13:33:03 (5249)

1996-04-24 13:33:03# 120. lþ. 126.92 fundur 269#B afgreiðsla stjórnarfrumvarpa fyrir þingfrestun# (aths. um störf þingsins), SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[13:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég leyfi mér að kveðja mér hljóðs um störf þingsins og spyrja bæði hæstv. forseta og eins hæstv. forsrh. um vissa þætti í því sambandi. Nú háttar svo til að frídagur er á morgun og ekki verður fundað á föstudag. Í næstu viku er 1. maí og þá er einnig götótt vinnuvika og líður á þann tíma sem þingið hefur til að ljúka störfum miðað við það sem starfsáætlun gerir ráð fyrir. Eftir stendur að til meðferðar í þinginu eru stór mál og þar á meðal ágreiningsmál eins og löggjöf eða frumvörp sem varða vinnumarkaðinn. Í efh.- og viðskn. er verið að vinna með frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Því á að tengjast mikið frv., svonefndur bandormur, sem þó er ekki komið fram á þingi. Okkur nefndarmönnum hefur verið kynnt að slíkt frv. sé í smíðum en það bólar ekki á því enn þá og ljóst auðvitað að það verður of seint fram komið og þarf afbrigða við o.s.frv.

Ég leyfi mér einnig að fullyrða að eftir yfirferð efh.- og viðskn. á þessu nefnda frv., frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þá er það enn ljósar en áður að það frv. er á engan hátt þannig unnið eða komið í þann búning að það sé tækt til afgreiðslu hvað sem líður ágreiningi um innihald þess. Ég vil því leyfa mér að beina spurningum bæði til hæstv. forseta og hæstv. forsrh. um það hvenær þessi bandormur kemur fram, ef enn er ætlunin að afgreiða þessi mál á vorþinginu. Hvenær kemur forgangslisti frá hæstv. ríkisstjórn um þau mál sem hæstv. ríkisstjórn telur nauðsynlegt að afgreiða fyrir þinglok? Hvað er áformað nú um þinghaldið og hvenær er stefnt að þinglausnum miðað við það sem nú blasir við?