Afgreiðsla stjórnarfrumvarpa fyrir þingfrestun

Miðvikudaginn 24. apríl 1996, kl. 13:37:32 (5251)

1996-04-24 13:37:32# 120. lþ. 126.92 fundur 269#B afgreiðsla stjórnarfrumvarpa fyrir þingfrestun# (aths. um störf þingsins), JBH
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[13:37]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þau mál sem fyrir liggja eru mörg og stór og sum afar umdeild. Það er ástæða til þess að nota þetta tækifæri og spyrjast sérstaklega fyrir um áform hæstv. ríkisstjórnar varðandi framgang eins máls, þ.e. stjfrv. sem fram hefur verið lagt um fjármagnstekjuskatt. Um það hafa orðið miklar umræður. Formenn stjórnarandstöðuflokka þriggja hafa lagt fram annað frv. En í umræðum um stjfrv. kom það fram að ýmsir hv. þm. Sjálfstfl. drógu til baka stuðning sinn við málið. Af því tilefni er ástæða til þess að spyrja hæstv. forsrh.: Eru áform ríkisstjórnarinnar óbreytt um að fá það mál afgreitt fyrir þinglok? Bæði er að það skiptir miklu máli varðandi málið sjálft og eins hitt að ef áform ríkisstjórnarinnar eru breytt í því efni, þá hefur það sín áhrif á störf þingsins sem fram undan eru.