Afgreiðsla stjórnarfrumvarpa fyrir þingfrestun

Miðvikudaginn 24. apríl 1996, kl. 13:46:48 (5256)

1996-04-24 13:46:48# 120. lþ. 126.92 fundur 269#B afgreiðsla stjórnarfrumvarpa fyrir þingfrestun# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[13:46]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka bæði forseta og forsrh. fyrir svörin. Ég er sammála hæstv. forsrh. um að það kemur ekki til mála að unnt sé að lengja þinghaldið að neinu ráði eins og nú stendur á sökum forsetakosninga. Það getur ósköp einfaldlega ekki gengið að Alþingi sé við störf og harðar deilur séu uppi um mál á þeim vettvangi þegar nær dregur forsetakosningum.

Hins vegar er staðan í þinghaldinu mjög óvenjuleg. Ég veit ekki hvort menn hafa áttað sig á því og auðvitað er ekki von að þeir sem hafa ekki séð væntanlegan bandorm átti sig á hvers eðlis það eintak er. Við sem starfað höfum um árabil á þingi erum orðin ýmsu vön en mér er til efs að annað eins hafi nokkurn tíma birst í einu frv. eins og þar er í vændum. Þar er verið að breyta stórum hluta lagasafnsins. Flest ráðuneytanna eiga þarna inni 6--10 lagafrumvörp í jafnmörgum eða fleiri greinum og öllu er slengt saman í einn bandorm. Þetta frv. er sem sagt ekki komið fram enn. Því verður dreift í fyrsta lagi eftir næstu helgi. Það er þó óaðskiljanlegur hluti af breytingunni á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Þó svo að það sé rétt hjá hæstv. forsrh. að samkomulag ætti að geta tekist um ýmis mál þá bitnar þessi staða sem orðin er uppi í þinginu á öllum málum. Forgangur hæstv. ríkisstjórnar á skerðingarfrumvörpin gagnvart vinnumarkaðnum er farinn að valda því að önnur mál hafa ekki eðlilegan framgang. Það hófst þá þegar að öllum málum var rutt út af dagskrá til þess að koma þeim málum til nefndar í fyrri viku þannig að það er alveg ljóst að þinghaldið allt verður meira og minna í uppnámi ef hæstv. ríkisstjórn heldur við áform sín um að keyra þessi frumvörp í gegn í andstöðu við allt og alla. Ég hvet því hæstv. forsrh. og hæstv. forseta eindregið til þess að menn fari að ræða saman um þessa stöðu og bjarga því sem bjargað verður af þinghaldinu á þessu vori.