Flugskóli Íslands hf.

Miðvikudaginn 24. apríl 1996, kl. 15:10:37 (5265)

1996-04-24 15:10:37# 120. lþ. 126.13 fundur 461. mál: #A Flugskóli Íslands hf.# frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[15:10]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir vænt um þann mikla metnað sem hv. þm. hefur fyrir mína hönd og ég skal reyna að valda honum ekki vonbrigðum að því leyti til. Ég vil aðeins leggja áherslu á tvö atriði. Annað er að ég sagði að flugnám eins og það er skilgreint, atvinnuflugnám, fellur ekki að framhaldsskólum vegna þess að þar eru kröfur meiri en almennt eru þar gerðar. Eins og við vitum, ég og hv. þm., eru laun og annað auðvitað með öðrum hætti í framhaldsskólum en ef farið er einu stigi ofar eða í háskóla.

Í öðru lagi vil ég taka fram, ef ég hef ekki gert það í fyrri ræðum, að gert er ráð fyrir því að skilgreina betur og nákvæmar hvaða kröfur skuli gera í atvinnuflugmannsnámi og er unnið að því af Samtökum loftferðaeftirlita í Evrópu að ná samkomulagi um slíkt. Við Íslendingar höfum ekki verið eftirbátar neinna í sambandi við öryggismál og menntunarkröfur og munum að sjálfsögðu ganga þar feti framar öðrum. Þessi staðreynd víkur líka að því að auðvelt verður fyrir einkaskóla að taka upp kennslu á þessu sviði ef þeir svo kjósa þar sem kröfurnar munu liggja fyrir. Ef einkaaðilar sýna því áhuga að stofna slíkan skóla, Flugskóla Íslands eða jafningja hans, verður það mál auðvitað metið í samgrn.