Flugskóli Íslands hf.

Miðvikudaginn 24. apríl 1996, kl. 15:12:36 (5266)

1996-04-24 15:12:36# 120. lþ. 126.13 fundur 461. mál: #A Flugskóli Íslands hf.# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[15:12]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég dáist að bjartsýni hæstv. ráðherra. Hann lítur alltaf vonglöðum augum til framtíðarinnar. Nú sér hann allt í einu hilla undir framtíð þar sem verður ekki bara Flugskóli Íslands hf. þar sem hann skipar meiri hluta stjórnar, heldur verður auðug flóra annarra flugskóla í samkeppni við Flugskóla Íslands og jafnvel verða þeir kvaddir til samráðs um hitt og þetta eins og segir í frv. Hann gleymir bara einu. Hann gleymir því að hæstv. ráðherra hefur ekki jafngott vit á þessu og ýmsir aðrir úr kjördæmi hans. Þá er ég að tala sérstaklega um forsvarsmenn Flugfélags Norðurlands. Hvað sögðu þeir, hæstv. ráðherra, í svari sínu við fyrirspurn ráðuneytisins? Þeir sögðu að íslenski markaðurinn bæri ekki nema einn flugskóla. Ég hygg því að þrátt fyrir að hinn vonglaði og vorglaði hæstv. ráðherra sjái hilla undir marga flugskóla, muni eigi að síður þegar upp verður staðið staðreyndin verða sú að sveitungar hans að norðan höfðu rétt fyrir sér en hann ekki. Það verður enginn flugskóli annar en Flugskóli Íslands vegna þess að talsmaður samkeppninnar og einkaframtaksins, hæstv. samgrh. Halldór Blöndal, verður búinn að drepa hina af sér. Og hefur þá afrekað það sem maður taldi að forustumaður í Sjálfstfl. mundi hvorki leggja sig eftir né takast og aldrei líðast af sínum eigin flokksmönnum.