Skaðabótalög

Miðvikudaginn 24. apríl 1996, kl. 15:15:41 (5268)

1996-04-24 15:15:41# 120. lþ. 126.14 fundur 399. mál: #A skaðabótalög# (margföldunarstuðull o.fl.) frv. 42/1996, BH
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[15:15]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Árna R. Árnasonar segir í nefndaráliti frá allshn., sem allir nefndarmenn skrifa undir án fyrirvara, þar á meðal fulltrúi Alþb. og óháðra í nefndinni, hv. þm. Ögmundur Jónasson, er lagt til að gerðar verði tilteknar breytingar á fyrirliggjandi frv. til breytinga á skaðabótalögum. Þessar breytingar eru að mestu leyti í samræmi við brtt. sem þrír hv. þingmenn lögðu fram við 1. umr., þeir Svavar Gestsson, Kristín Ástgeirsdóttir og sú sem hér stendur.

Efnislega felur brtt. okkar í sér að gerðar eru breytingar á ákvæði til bráðabirgða en þær miða að því að leggja minni hömlur á þá nefnd sem samkvæmt ákvæðinu er falið að endurskoða skaðabótalögin. Eins og ákvæðið liggur fyrir er nefndinni nánast uppálagt að komast að tiltekinni niðurstöðu eða eins og það er orðað í ákvæðinu: ,,með hliðsjón af þeim tillögum sem allshn. lét vinna fyrir sig á 120. löggjafarþingi og þeim athugasemdum sem fram hafa komið í hv. allshn.`` Slíkar hömlur eru að mati þeirra sem lögðu fram brtt. við 1. umr. óeðlilegar. Einkum er óeðlilegt að leggja fyrir sérstaklega skipaða nefnd að taka tillit til athugasemda sem e.t.v. voru aðeins munnlegar og komu fram á fundum hv. allshn.

Hv. allshn. hefur tekið tillit til þessara tveggja athugasemda af þremur og lagt til að frv. verði breytt í þá veru og fagna ég því. Þriðja efnislega tillagan í brtt. okkar þremenninganna snýst um gildistökuákvæði lagabreytinganna sem samkvæmt frv. er miðað við 1. júlí 1996. Í brtt. okkar þremenninganna er lagt til að lögin öðlist þegar gildi og er sú tillaga rökstudd með því að þarna sé verið að leiðrétta viðurkennda skekkju í núgildandi lögum og slíka leiðréttingu eigi að gera strax.

Við 1. umr. er fram fór um miðjan mars gagnrýndi ég ásamt fleirum gildistökuákvæðið harðlega. Nú er svo komið að nokkur tími hefur liðið og óðum styttist í 1. júlí og með tilliti til jákvæðra viðbragða við öðrum efnisatriðum í brtt. okkar og þess sem hér hefur verið rakið munum við þremenningarnir draga breytingartillögur okkar til baka. Ég vil þó fyrir mig árétta þá afstöðu sem ég gerði grein fyrir í 1. umr. málsins að ég tel það miður að ekki skuli hafa verið gengið lengra í endurskoðun skaðabótalaganna að sinni en hér er gert eftir svo viðamiklar úttektir færustu sérfræðinga okkar á sviðinu sem fyrir liggja. Málinu er enn einu sinni skotið á frest í stað þess að hið háa Alþingi taki af myndugleik á því ófremdarástandi sem ríkt hefur á sviði skaðabótaréttarins. Þar hefur verið háð styrjöld um innihald reglna um skaðabætur og eins og rakið var í 1. umr. er sú saga löng og á rætur að rekja allt til þess tíma er tryggingafélögin settu sér verklagsreglur árið 1991, reglur sem voru í andstöðu við þágildandi óskráðar reglur um skaðabætur. Tryggingafélögin sýndu fádæma ósvífni með þessu framferði sínu. Tjón voru aðeins gerð upp við þá sem vildu una verklagsreglunum en þeir sem kröfðust hins lagalega réttar síns að fullu þurftu að sækja mál sín fyrir dómstólum.

Það vita allir sem þekkja til slíkra mála að þau eru óvenjutímafrek, ekki aðeins vegna hugsanlegra tafa í dómskerfinu heldur ekki síður vegna eðlis málanna. Það tekur oft langan tíma að sannreyna tjónið og sönnun er oft erfið. Hverjir fóru illa út úr þessu stríðsástandi sem tryggingafélögin stofnuðu til? Það voru tjónþolarnir, þeir sem höfðu orðið fyrir slysum og höfðu misst starfsorku sína.

Ég minni á þessa forsögu málsins hér og reyndar hafa tryggingafélögin komið að málum síðar í tengslum við lagasetningu. Árið 1993 voru sett skaðabótalög og margir telja að þar sé hallað á tjónþola í þágu tryggingafélaganna og sú breyting sem verið er að gera hér er í raun og veru viðurkenning á slíkri skekkju.

Við undirbúning að breytingum á lögunum hafa tryggingafélögin haft sig mikið í frammi og nánast hótað því að þau munu hækka iðgjöldin ef þessi eða hin breytingin verði gerð. Ég ítreka að slík framkoma er ólíðandi af þjónustustofnunum á borð við tryggingafélögin. Þeirra hlutverk er að þjónusta fólk á grundvelli landslaga, óskráðra eða skráðra og ef sú verður raunin að þau þurfi að hækka iðgjöld í kjölfar breytinganna gera þau það og eiga það síðan við viðskiptavini sína. Það er ekki hlutverk löggjafarsamkundunnar að haga lögum í samræmi við slíkar hótanir því að hlutverk hennar er fyrst og fremst það að uppfylla meginmarkmið reglna um skaðabætur. Og hvert er það? Meginmarkmið skaðabótaréttar er að bæta fólki það tjón sem því ber að fá bætt samkvæmt lögum þar um. Fyrir hvaða prís tryggingafélögin selja þessa þjónustu verða þau að eiga við sína viðskiptavini.

Að lokum, herra forseti. Frv. með þeim breytingum sem nú liggja fyrir frá hv. allshn. er til bóta fyrir tjónþola þótt það gangi skemur en ég hefði óskað. Það er í rétta átt og því mun ég styðja það en ég vil jafnframt ítreka nauðsyn þess að heildarendurskoðun á skaðabótalögunum fari fram hið fyrsta. Það er ekkert að vanbúnaði að móta nýjar tillögur. Það er hægt að gera það á grundvelli þeirrar vinnu sem þegar hefur verið unnin og frekari skoðunar tel ég ekki vera þörf á því sviði. Ég vil einungis ítreka það í lokin að slík endurskoðun má ekki taka of langan tíma. Tjónþolar hafa þurft að bíða nógu lengi eftir að fá leiðréttingu mála sinna sem eru viðurkenndar að hluta til með þeim breytingum sem hér er verið að gera og eru því til bóta en það hefði mátt ganga mun lengra nú þegar.