Umferðarlög

Miðvikudaginn 24. apríl 1996, kl. 15:33:37 (5272)

1996-04-24 15:33:37# 120. lþ. 126.15 fundur 271. mál: #A umferðarlög# (einkamerki) frv. 37/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[15:33]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. talsmanni allshn. fyrir greinargóð svör við spurningum mínum. Hann brást vel við og á þakkir skildar. En ég vildi spyrja hv. talsmann allshn. að því hver hafi spáð því að tekjurnar yrðu litlar ef þetta yrði 50.000 kr. Hvaða spámaður var það sem spáði því? Var það Þjóðhagsstofnun eða var það Umferðarráð eða hver? Hver lagði þennan kvarða á borð allshn. sem sýndi nákvæmlega hver væri, eins og það heitir á hagfræðimáli, teygni eftirspurnarinnar eftir númerum á þessu sviði? Hver lagði fram þennan teygnikvarða eftirspurnar varðandi einkanúmer á bílum? Mér þætti vænt um ef hv. þm. gæti svarað mér því vegna þess að ég tel að þetta hljóti að vera meira og minna skot út í loftið eins og einu sinni var sagt um ákveðið hús í bænum þegar talið var það hefði farið fram úr áætlun vegna þess að menn skutu út í loftið til að byrja með.

Hv. þm. nefndi að hann teldi að málið hefði alveg sérstakt skemmtigildi. Það fannst mér athyglisvert. Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að mér þykir vænt um að þingmenn skuli hugsa um skemmtigildi þingmála. Það er ekki algengt. Oft eru þetta alveg ótrúlega leiðinlegir doðrantar sem við erum með fyrir framan okkur. En hérna er flutt mál sem er eingöngu flutt með þeim rökum samkvæmt hv. þm. að málið er brandari, frv. til laga um fyndni. Það er fínt og veitir ekki af þessa dagana að segja eitt og annað skemmtilegt í þessari stofnun. Ég sé fyrir mér þegar farið verður að framkvæma þau skemmtiatriði úti á þjóðvegunum sem hv. þm. vill beita sér fyrir, þar sem menn eru með þau merki á bílum sínum sem þeim sýnist. Þannig yrði þetta miklu fjölbreytilegra, frelsið mikið meira og annað eftir því. Skráningin sæist hvergi utan á bílunum, hin opinbera skráning, hún væri kannski bara mótormerki undir vélarhlífinni og enginn þyrfti að sjá hana. Ég vil því þakka hv. þm. fyrir að flytja þetta fyrst og fremst af því að það er brandari. En ég verð að segja alveg eins og er að það nægir mér ekki til stuðnings við málið.