Umferðarlög

Miðvikudaginn 24. apríl 1996, kl. 16:04:23 (5280)

1996-04-24 16:04:23# 120. lþ. 126.15 fundur 271. mál: #A umferðarlög# (einkamerki) frv. 37/1996, ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[16:04]

Árni Johnsen (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna undirtektum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar varðandi sanngirnismeðferð á þessu máli og að menn eigi að sitja þar við sama borð. Sumir líta á ákveðnar sérmerkingar sem snobb. Ég hef aldrei gert það. Ég þekki ekki slíkt og hef heldur aldrei lagt í að fara í manngreinarálit. Mín reynsla er sú að það séu ekki rök fyrir því. Þegar upp er staðið munar kannski ekki einum sálminum til eða frá og því óþarfi að fara út í slíkt. En þetta er til margra hluta nytsamlegt. Eins og hv. þm. minntist t.d. á er Eggert fallegt nafn og væri falleg merking á bíl. Svo má nýta þetta á annan hátt. Ég minnist þess að einu sinni var ég á ferð með fyrrv. hv. þm. Friðjóni Þórðarsyni í bíl hans um Vesturland og hann veifaði, ekki öllum bílum en sumum. Eftir nokkurn tíma spurði ég Friðjón Þórðarson hvort hann þekkti þetta fólk sem hann hafði veifað. Nei, sagði hann, en það var P-merki á bílnum. Þetta var svona persónulegt samband og kannski er þetta bara hluti af þeirri litlu tilveru sem við fjöllum um hér. Þetta er íslenskt fyrirbæri sem hefur verið á Íslandi alla þessa öld. Þótt við höfum farið út af sporinu í einhverju Evrópusamstarfskjaftæði fyrir tveimur árum, er ástæða til að kippa sér á rétta leið aftur og taka upp gamla stílinn í þessum efnum.