Framtíð Kvikmyndasjóðs

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 15:19:40 (5295)

1996-04-29 15:19:40# 120. lþ. 127.1 fundur 273#B framtíð Kvikmyndasjóðs# (óundirbúin fsp.), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:19]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Síðastliðinn fimmtudag birtist grein í Morgunblaðinu eftir Guðnýju Halldórsdóttur kvikmyndaleikstjóra þar sem hún leggur til að Kvikmyndasjóður verði hreinlega lagður niður. Á sama tíma hefur það gerst að framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs hefur sagt upp störfum og skýrt það þannig að sér finnist hún ekki ná neinum úrbótum fram hjá sjóðnum heldur búi hann við stöðugan niðurskurð. Það er því ljóst að mínum dómi að það ríkir nokkur óánægja varðandi stöðu Kvikmyndasjóðs og því vil ég beina spurningu til hæstv. menntmrh.: Hefur hann í hyggju að gera breytingar á starfsemi Kvikmyndasjóðs og ef svo er, hverjar þær munu vera? Það er ljóst að auknum verkefnum hefur verið bætt á Kvikmyndasjóð sem hefur auðvitað rýrt það fé sem hann hefur haft til kvikmyndagerðar og það er megingagnrýnin sem fram hefur komið að sífellt minna fé fáist til kvikmyndagerðar á meðan umfangið og ýmislegt sem fylgir rekstri sjóðsins fari vaxandi. En hyggst menntmrh. breyta þessu?