Framtíð Kvikmyndasjóðs

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 15:23:29 (5297)

1996-04-29 15:23:29# 120. lþ. 127.1 fundur 273#B framtíð Kvikmyndasjóðs# (óundirbúin fsp.), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:23]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þessi svör. Mér fannst mjög athyglisvert sem fram kom hjá honum undir lokin að það þurfi að leita annarra leiða til þess að fjármagna kvikmyndagerð. Ég vil taka undir það því að það er rétt sem fram kom hjá honum að kvikmyndagerð er orðin mikilvæg atvinnugrein sem skapar mörg störf og því á þessi grein skilið allan þann stuðning sem hægt er að veita henni. Við urðum einmitt vitni að því í morgun að það var verið að kvikmynda við Alþingishúsið. En það breytir ekki því að það eru í gildi lög um Kvikmyndasjóð og sú gagnrýni sem hefur verið sett fram á sjóðinn og starfsemi hans er þetta hvernig umbúnaðurinn í kringum sjóðinn hefur farið stöðugt vaxandi og að fjárveitingarnar fari í annað en sjálfa kvikmyndagerðina, kvikmyndasafnið og fleira slíkt. Því er svo komið að jafnvel þeir sem notið hafa styrkja úr sjóðnum eru farnir að leggja það til að hann verði hreinlega lagður niður með því umfangi sem nú er á sjóðnum og að peningunum verði varið beint til kvikmyndagerðar. En þetta er mál sem kallar á skoðun hér á Alþingi.