Háskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 15:39:04 (5305)

1996-04-29 15:39:04# 120. lþ. 127.6 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:39]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er fjalla þessi mál um sérstaka nemendaskatta sem hæstv. menntmrh. ætlar að leggja á nemendur í háskólum. Eins og fram hefur komið er þetta fyrsta menntamálið sem er keyrt í gegnum þingið og er komið mjög nálægt því að verða að lögum ef frv. verður samþykkt nú við 3. umr.

Við 2. umr. urðu talsverðar umræður um þetta mál og það er alveg augljóst að málið er ekki að fullu útrætt.

Við 2. umr. kom fram að frv. sjálft er mjög gallað. Þetta eru tvö frumvörp og það er aðallega mjög gallað að einu leyti. Í frv. stendur að upphæð skólagjalda eða nemendaskatta skuli koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga eins og það er orðað. Það er ekki tekið fram með hvaða hætti við afgreiðslu fjárlaga endurskoðunin á að fara fram. Á hún að birtast í fjárlögunum, í hinni endanlegu gerð þeirra eða á hún að birtast með einhverjum öðrum hætti? Við 2. umr. sagði hæstv. menntmrh. að þessir nemendaskattar ættu að koma til endurskoðunar með sérstökum lögum sem flutt yrðu sem frv. til laga um breytingu á þessum lögum um Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri sem við erum að ræða. Ég hefði þess vegna talið eðlilegra að hæstv. menntmrh. hefði við 3. umr. flutt breytingartillögur þar sem það væri tekið fram að breytingar á nemendaskattinum yrðu aðeins ákveðnar að lögum þessum yrði breytt. Þess vegna inni ég hæstv. menntmrh. eftir því hvort hann ætlar ekki að flytja frv. við 3. umr. eða brtt. við frv. við 3. umr. þannig að Alþingi geti tekið afstöðu til þess hvað sem líður afstöðu manna til nemendaskattsins sem slíks hvernig þessum sköttum á að breyta. En það er mjög mikilvægt að það liggi fyrir þannig að þar gildi engar geðþóttaákvarðanir og hvergi sé opið svigrúm fyrir þær að einu eða neinu leyti. Þetta atriði vildi ég spyrja hæstv. menntmrh. um því að það er óhjákvæmilegt að fá við því nokkur svör.

Í öðru lagi tel ég að frv. eins og það lítur út sé gallað að því leytinu til að ég tel óhjákvæmilegt að skilgreina til hvaða verkefna má verja fjármunum sem aflast með þessum nemendaskatti. Hvaða verkefni eru það sem má verja fjármunum til af þessum sérstöku tekjum sem renna til Háskóla Íslands og hvaða verkefni eru það sem verða skilyrðislaust alltaf kostuð með fjármunum beint úr ríkissjóði? Hér er ég að vitna m.a. til fordæma úr öðrum lögum, m.a. lögum um framhaldsskóla. Þar stendur að heimilt sé að innheimta tiltekin gjöld til að standa undir ákveðnum kostnaði, t.d. pappírskostnaði, kostnaði við rekstur nemendafélaga og þess háttar. Það er alveg skýrt í framhaldsskólalögum. En jafnframt segir í framhaldsskólalögum að ríkissjóður standi undir launakostnaði framhaldsskóla og öðrum rekstrarkostnaði framhaldsskóla.``

Ég hefði talið eðlilegt að hér væri kveðið skýrt á um að þessi gjöld, ef þau verða lögð á, verði að hámarki notuð í þessi tilteknu verkefni en jafnframt verði tekið fram að ríkið greiði launakostnað og annan rekstrarkostnað Háskóla Íslands þannig að það sé algerlega skýrt að hér er ekki verið að innheimta gjöld af nemendum til að borga venjulegan rekstur háskólans. Ég verð að segja það eins og er, hæstv. forseti, ef stjórnarmeirihlutinn er ekki tilbúinn til þess að taka af skarið í þessu efni ýtir það undir grunsemdir um að hér eigi að leggja á skólagjöld til þess að standa undir hinum venjulega rekstri háskólans.

Nú hefur það út af fyrir sig verið þannig að Sjálfstfl. hefur mjög lengi verið með þau sjónarmið að það gæti komið til greina að leggja á gjöld af þessu tagi til að standa undir rekstri. Á síðasta kjörtímabili barðist Framsfl. mjög ákveðið gegn því að svona gjöld yrðu lögð á til að standa undir rekstri. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir átti þá sæti í menntmn. og tók þátt í því ásamt mér og fleiri stjórnarandstæðingum á því kjörtímabili að ráðast gegn skólagjöldum í framhaldsskólum. Hún viðurkenndi það á dögunum að þannig hefði það verið að Framsfl. hefði verið á móti skólagjöldum, sérstaklega í framhaldsskólum, og það er út af fyrir sig mál sem við skulum ræða þegar framhaldsskólafrv. kemur til meðferðar hvernig Framsfl. hefur haldið á þeim málum. En Framsfl. lagðist líka gegn skólagjöldum í háskólanum og hv. þm. Finnur Ingólfsson, nú hæstv. iðnrh. og viðskrh., beitti sér mjög í því máli að berjast á móti skólagjöldum á öllu háskólastiginu hvort sem það var Háskóli Íslands, Kennaraháskólinn eða aðrir skólar. Hann flutti um það langar og miklar ræður hér. Á sama tíma man ég eftir að það kom fram í ræðum hv. þm., núv. hæstv. ráðherra, að ef lögð yrðu á skólagjöld í þessum skólum, þá þýddi það að hækka yrði framlög til Lánasjóðs íslenskra námsmanna og hann taldi það ekki mikla speki að halda þannig á málum. Nú sýnist mér að hann liggi sjálfur alveg flatur í þessum forarpytti, að það sé verið að leggja á gjöld á nemendur og á sama tíma verði að auka útgjöld Lánasjóðs íslenskra námsmanna til að standa undir því.

[15:45]

Þá spyr ég í framhaldi af þessu, hæstv. forseti, sem við ræddum lauslega á síðasta fundi: Hvað með Lánasjóð íslenskra námsmanna? Hvar er það mál statt? Hvar er það mikla áhugamál Framsfl. statt? Framsfl. sem þóttist fyrir síðustu kosningar hafa áhuga á menntamálum. Svo kemur í ljós eftir kosningarnar að hann er jafndjúpt í vasanum á íhaldinu í þeim efnum og sumir voru á síðasta kjörtímabili. Það er enginn munur á Framsókn og þeim sem lengst gengu í þjónustunni við íhaldið á síðasta kjörtímabili. Hefði maður þó talið að ýmsir menn sem hafa unnið við skólamál á vegum hins opinbera á undanförnum árum og sitja ekki langt frá mér sýndu a.m.k. vott af samvisku í þá átt að stöðva yfirgang Sjálfstfl. eins og hann birtist í þessu frv. Það hefur ekki heyrst tíst í hv. þm. Hjálmari Árnasyni um þetta hrikalega mál sem hér er uppi og Framsókn barðist á móti á síðasta kjörtímabili með kjafti og klóm. Nú heyrist ekki neitt. Nú er þagnaður hinn mikli réttlætissöngur Framsfl. og þurfti ekki nema fimm ráðherrastóla undir þá til að þeir væru til friðs hér í þessari stofnun.

Nei, virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að fara aðeins yfir þetta með Lánasjóð íslenskra námsmanna. Hvar er það mál á vegi statt? Hæstv. menntmrh. sagði að það yrði lagt fyrir þingið í haust. Hann sagði að hann væri á móti því að taka upp samtímagreiðslur. Ég veit ekki betur en hv. þm. Hjálmar Árnason sé í nefnd að endurskoða lögin um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ég vil spyrja hann af því að hann er hér: Er það tilfellið að Framsfl. hafi þegar fallist á það að falla frá aðalkosningamáli sínu í þessu máli, að taka upp á ný samtímagreiðslur námslána? Hæstv. menntmrh. sagði á dögunum að hann væri á móti því að taka upp samtímagreiðslur. Hver er skoðun Framsfl. í því efni? Er hún kannski engin? Er búið að þurrka hana út eins og fleira gott sem Framsfl. hafði með í för fyrir síðustu kosningar?

Lögin um Lánasjóð íslenskra námsmanna og þær breytingar sem voru gerðar á þeim og við börðumst gegn á síðasta kjörtímabili hér í þessum ræðustól og víðar í þjóðfélaginu, höfðu það í för með sér að námsmönnum hefur fækkað. Námsmönnum hefur fækkað mjög verulega, aðallega námsmönnum sem búa við minni efni. Einstæðum foreldrum í námi hefur fækkað. Það er alveg ljóst. Og það er líka ljóst að úr tilteknum byggðarlögum hefur orðið meiri fækkun á námsmönnum en annars staðar. T.d. er hlutfall fækkunarinnar á Vestfjörðum og Austfjörðum mikið meira en nemur fækkuninni t.d. hér á þessu svæði sem segir auðvitað sína sögu.

Hæstv. núv. menntmrh. hefur alltaf haldið því fram að það væri vitleysa að lögin um lánasjóðinn hafi breytt nokkru í þeim efnum. Hann hefur talið að lánasjóðslögin væru þannig að þau hafi engu breytt og engin áhrif haft til fækkunar. En hann hefur fundið annað sem fækkaði námsmönnum í Háskóla Íslands. Og hvað ætli það sé? Það eru skrásetningargjöldin, því að á síðasta hausti þegar hv. varaþm. Þjóðvaka, Mörður Árnason, kvaddi sér hér hljóðs út af Lánasjóði íslenskra námsmanna og spurði: Hvað á að gera í því máli? Verður lögunum breytt? Verða þau löguð? Og hv. þm. sagði: Breytingin hefur þýtt fækkun námsmanna. Þá sagði ráðherrann: Nei, það er ekki rétt. Fleira hefur komið til en breyting á lögunum um LÍN, t.d. hækkun skrásetningargjalda. Í því svari hæstv. menntmrh. við spurningu hv. þm. Marðar Árnasonar kom því fram að hækkun skrásetningargjalda, sú sem á að lögfesta, hefði þýtt fækkun námsmanna. Og ég held að það sé mjög mikilvægt að halda því til haga að hæstv. menntmrh. hefur viðurkennt að þau lög sem á að fara að afgreiða hafa þegar haft það í för með sér eða þessi framkvæmd, að námsmönnum hefur fækkað en ekki hitt, a.m.k. miðað við það sem hæstv. menntmrh. sagði þann 6. des. sl.

Ég vil, hæstv. forseti, leggja fyrir hæstv. menntmrh. þrjár spurningar:

Í fyrsta lagi hvort hann vilji ekki breyta, einfaldlega til að gera hlutina skýrari, greininni sem fjallar um hugsanlegar breytingar á þessari upphæð, þessum nemendaskatti, sem hér á að leggja á.

Í öðru lagi hvort hann telji ekki eðlilegt og skynsamlegt að skilgreina þakið, þ.e. til hvaða verkefna í háskólanum fara þessi gjöld og hvaða verkefna ekki.

Í þriðja lagi vil ég svo spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki enn þá þeirrar skoðunar sem hann var í haust að skrásetningargjöldin hafi þýtt fækkun nemenda í háskólanum. Það sagði hann í haust. Er hann enn þá þeirrar skoðunar eða hvað?

Jafnframt vil ég að lokum, hæstv. forseti, lýsa fullri andstöðu míns þingflokks við þessi frv. bæði og við munum greiða atkvæði gegn þeim.