Háskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 15:54:42 (5307)

1996-04-29 15:54:42# 120. lþ. 127.6 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:54]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hæstv. menntmrh. hafi einmitt komið að kjarna málsins í lokaorðum ræðu sinnar rétt áðan, varðandi það hvort þetta væri óbærilegt gjald, óbærileg gjaldtaka. Þó að upphæðina, 24 þús. kr., eigi nú að lögfesta þá vil ég benda á að háskólalögum er hægt að breyta. Mig rennir í grun að hæstv. ríkisstjórn muni ekki reynast það erfitt að hækka þetta gjald telji hún þörf krefja vegna þess að hér er verið að stíga fyrsta skrefið í átt til lögtöku skólagjalda á Íslandi. Gera hv. þm. sér grein fyrir því? Það er bara stigsmunur á því hversu langt skuli fara en ekki eðlis. Hvenær verður svo komið að skólagjöld í Háskóla Íslands verði 100 þús. kr., verði 150 þús. kr.? Hverjir hafa þá, hæstv. menntmrh., efni á því að fara í háskólanám á Íslandi? Það verður ekki alþýða manna eins og verið hefur á undanförnum áratugum og er líklega aðal íslenska menntakerfisins. En því skal nú breytt af hæstv. ríkisstjórn.

Hér hefur verið vitnað í orð sem hv. þingkona Kvennalistans, Guðný Guðbjörnsdóttir, lét falla í 1. umr. um þetta mál, og það er rétt hjá hæstv. ráðherra að hún fagnaði fram komnu frv. en um leið, og í þau orð hefur hæstv. menntmrh. ekki vitnað, dró hún í efa að skráningin kostaði þetta mikið fé. Það kemur skýrt fram í nefndaráliti frá hv. þingkonu að hér sé verið að lögleiða skólagjöld, dulbúin skólagjöld, og því mun þingflokkur Kvennalistans greiða atkvæði gegn þessum frv.