Háskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 16:11:29 (5312)

1996-04-29 16:11:29# 120. lþ. 127.6 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[16:11]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Virðulegi forseti. Ég er ein af þeim sem með Svanfríði Jónasdóttur og Lúðvík Bergvinssyni stóð að 2. minnihlutaáliti frá menntmn. varðandi þetta gjald. Það var alveg ljóst að við lögðum þar fram brtt. Í þeirri brtt. föllumst við í sjálfu sér á innritunargjald eins og hæstv. menntmrh. sagði, þ.e. við föllumst á þann kostnaðarlið sem rennur beint til hagsmunagæslu stúdenta og við föllumst á þann hluta sem sannanlega telst kostnaður við innritun. Þetta voru 9 þús. kr. Þessi brtt. var felld og það var mjög eftir því tekið í salnum að framsóknarmenn stóðu að því að fella þessa tillögu vegna þess að ég hélt, eftir að hafa fylgst með þeim svolítið á síðasta kjörtímabili, að þeir væru sérstakir baráttumenn gegn töku skólagjalda. En það kom heldur betur annað í ljós. Þetta var akkúrat þeirra hjartans mál.

Það má segja að orsökin fyrir því að þessi frv. eru fram komin sé auðvitað þetta álit umboðsmanns Alþingis vegna skólagjalda sem háskólinn setti á í nauðvörn veturinn 1991--1992 þegar stórlega höfðu verið skorin niður á fjárlögum framlög til Háskóla Íslands. Ég vil minna á að þessi aðstaða getur komið upp aftur. Í lagafrv. segir:

,,Upphæð gjaldsins kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.`` Það er eins og manni finnist að ýmsum kunni að finnast að sér kreppt við afgreiðslu fjárlaga og það kunni að vera litið á það sem færa leið að fara inn í þessa grein frv. og hækka skólagjöld til Háskóla Íslands svo að minna þurfi að greiða þangað. Ég lít þannig á að þessi 24 þús. kr. séu að stærstum hluta rekstrargjöld. Ég tel okkur í minni hluta menntmn. hafa farið mjög nákvæmlega ofan í hvað sá hluti var stór sem fer til innritunar og hagsmunagæslu stúdenta þannig að munurinn er orðinn þarna að mér sýnist 17 þús. kr.

Í kosningum sl. vor voru allir flokkar sammála um að menntun væri besta fjárfestingin. Nú bregður svo við að þetta fyrsta frv. sem hæstv. menntmrh. virðist ætla að koma í gegnum þingið gerir ráð fyrir að lögfesta skólagjöld í háskólum og þar með auka hættuna á mismunun. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að í háskólum á Norðurlöndum eru engin skólagjöld. Ég hefði óskað þess að við Íslendingar hefðum tekið okkur það til fyrirmyndar og reynt að reka skólakerfi okkar þannig að ekki væri gert ráð fyrir fjárframlögum frá nemendum til rekstrar.

[16:15]

Að lokum vil ég vekja athygli á alveg sérstökum galla sem er á þessu frv. Það eru margir hópar, einkum þeir sem ekki eru kannski fjársterkir en eru samt að reyna að brjótast í að ná sér í ákveðin réttindi með háskólanámi eða viðbótarnámi og vil ég þar til nefna kennara sem eru í svokölluðu réttindanámi og það eru auðvitað margir fleiri hópar. Það er ekki gefinn kostur á því að þeir sem eru í hlutanámi í háskólanum fái leyfi til að borga ákveðinn hluta af þessu gjaldi. Það verður að borga alveg fullt gjald allan þann tíma sem námið stendur yfir þó menn séu að taka einn og tvo kúrsa. Þetta tel ég alvarlegan ágalla á frv. hljóti að vera öllum augljós, meira að segja þeim sem vilja fara þessa hættulegu braut að leggja á skólagjöld.