Háskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 16:16:46 (5313)

1996-04-29 16:16:46# 120. lþ. 127.6 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[16:16]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. menntmrh. fyrir þau svör sem hann gaf við spurningum mínum áðan varðandi þrjú atriði. Þó að ég harmi að sjálfsögðu hvernig hann svaraði þykir mér gott að hann lét koma fram hvaða skoðun hann hefur á málinu.

Það er þá í fyrsta lagi það atriði sem hann vék að en ég lét það koma fram í ræðu minni að ég teldi að ef þetta yrði að lögum væri nauðsynlegt að láta koma fram í lagatextanum að upphæðinni verði því aðeins breytt að lögum verði breytt, þ.e. þessum lögum en ekki bara við afgreiðslu fjárlaga. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt atriði og þetta er ekkert smámál og þetta er ekkert lagatæknilegt mál. Þetta er stórmál fyrir menntmrn. að mínu mati. Ef þessi formúlering er inni eins og hún stendur í frv. núna er frumkvæðisrétturinn í málinu miklu frekar í höndum fjmrn. en góðu hófi gegnir. Við vitum alveg nákvæmlega hvernig það gengur fyrir sig þegar gerðar eru tillögur til fjárlaga á hverju ári. Það gengur þannig fyrir sig að viðkomandi fagráðuneyti gerir tillögur og síðan svarar fjmrn. með gagntillögum eða breytingum og stundum gengur þetta þannig fyrir sig í seinni tíð að það er samþykkt í upphafi í ríkisstjórninni ákveðinn rammi fyrir hvert ráðuneyti. Það er auðvitað alveg augljóst mál að það er freistandi að ekki sé meira sagt fyrir viðkomandi ráðherra að leysa hnúta á einum stað í útgjöldum sínum eða fjárhagsramma með því að benda á leið eins og þá sem felst í þessum texta, þ.e. að skólagjöldunum verði breytt við afgreiðslu fjárlaga.

Þetta er auðvitað þeim mun brýnna, hæstv. forseti, sem það hefur komið fram í þessari umræðu í svari við fyrirspurn frá hv. 19. þm. Reykv. að ráðherrann útilokar það ekki neitt að miða við þennan ramma sem hér er, þá geti þessi upphæð ekki bara verið 25 þús. heldur 50 þús., 100 þús. eða 150 þús. Ég held að það sé mjög alvarlegur hlutur sem hér hefur komið fram að þessu leytinu til að hæstv. menntmrh. opnar fyrir þann möguleika að fjmrh. eða aðrir taki það upp að þetta gjald megi hækka og ekkert í lögunum takmarki það til hvaða verkefna þetta gjald verður notað. Þess vegna er grafalvarlegt mál í hvaða samhengi hæstv. menntmrh. svarar fyrirspurn minni í þessu sambandi vegna þess að hann hefur opnað fyrir það, já, þessu verði breytt með lögum en það geti út af fyrir sig miðað við skilgreiningatakmörkin hér orðið 50 þús., 100 þús. eða 150 þús. Það eru býsna mikil tíðindi.

Það er líka annað en það sem menntmrh. sagði við 1. umr. um þetta mál þegar hann sagði að það kæmi ekki til greina miðað við óbreytta kostnaðarsamsetningu háskólans að fara í þessar upphæðir. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. miðað við stöðu málsins eins og það er núna, kostnaðarsamsetningu háskólans eins og hún er í dag, hvort það séu einhverjir fleiri liðir sem hann telur hugsanlegt að leggja á skólagjöld fyrir samkvæmt þeim formúlum sem liggja fyrir í þessu frv. Væri svigrúm að hans mati til þess miðað við anda laganna ef þetta verður samþykkt og annað, að fara miklu hærra með þessa tölu? Hversu hátt þá? Það er óhjákvæmilegt að hæstv. ráðherra svari því. Erum við að opna fyrir þann almenna lagaskilning að menn geti verið að fara í 50 þús., 100 þús. eða 150 þús. eða 10 þús. á mánuði eða hvað það nú er?

Í öðru lagi þakka ég hæstv. menntmrh. fyrir það svar sem hann gaf varðandi það að skilgreina ætti til hvaða verkefna þessir fjármunir færu um leið og ég harma það að hann skuli ekki vilja fallast á að þetta verði skilgreint takmarkaðar, m.a. út af því sem ég nefndi áðan. Ég bendi á það, hæstv. forseti, að eins og greinargerð stjfrv. lítur út er hægt að borga allt með skólagjöldum. Þar er í raun allt talið upp sem nöfnum tjáir að nefna í rekstri háskólans þannig að það er hlutur sem er ekki auðveldur fyrir Alþingi að taka á með þeim hætti sem ætlast er til að hér verði gert að ráðherrann segir: Þetta má hækka upp úr öllu valdi og hins vegar liggur fyrir að í greinargerð frv. er allt talið upp sem nöfnum tjáir að nefna í rekstri háskólans nema hörðustu kennaralaun í allra þrengsta skilningi. Allt annað má borga með þessum skólagjöldum. Er það það sem menn ætlast til? Er það það? Hér eru þingmenn úr stjórnarflokkunum sem eru í menntmn., hv. formaður menntmn. og hv. þm. Hjálmar Árnason. Eru þau sammála því að það sé hægt að kýla þetta upp úr öllu valdi miðað við þá skilgreiningu sem þarna liggur fyrir í frumvarpsgreinargerðinni? Eins og hún er þá er það þannig og er stórhættulegt.

Síðan vildi ég aðeins víkja að því sem kom fram í umræðunum hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að auðvitað er þetta grundvallaratriði sem menn eru að takast á um. Vilja menn skólagjöld eða vilja menn ekki skólagjöld? Það er alveg rétt sem hér var sagt áðan að verið er að stíga skref í þá áttina að leggja almennt á skólagjöld í landinu og heimila það. Því miður hafa menn farið út í það að það hefur verið heimilað að leggja á skólagjöld til framhaldsskóla og það er heimilað að leggja á skólagjöld til grunnskóla. Einkaskólar á grunnskólastigi leggja á skólagjöld. Ég sé ekki betur en með þessu sé verið að lögfesta tiltekna vegferð sem er stórhættuleg gagnvart þeim lífskjarajöfnunargrundvelli sem skólinn þarf að standa á í þjóðfélaginu. Ég tek alveg undir það með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að það var varasamt fyrir Alþfl. á síðasta kjörtímabili að leggja inn á þessa braut, það var varasamt. Það var alveg rétt sem hún sagði að hún óttaðist þá og það hefur komið í ljós að er rétt að það yrði haldið áfram á þessari braut. Því miður er það þannig að vinir mínir framsóknarmennirnir halda áfram á þessari braut þó að þeir hafi sagt annað fyrir síðustu kosningar. Þetta fór þannig með Alþfl. að hann klofnaði. Hann var í tvennu lagi í síðustu kosningum vegna þess að stjórnarsamstarfið við íhaldið reyndi svo á hann að hann sprakk. Ég er ekki að spá Framsfl. einu eða neinu í þessum efnum en ég sé að það er heldur að ganga af honum og það er nokkurt umhugsunarefni að sá sem ber alla ábyrgð á þessu, sem er íhaldið, fitnar og tútnar út meðan heldur gengur á þá flokka sem eru til fylgilags með íhaldinu, fyrst kratarnir og svo Framsókn. Það er nokkurt umhugsunarefni og auðvitað staðfestir það sem við höfum sum verið að segja að það borgar sig ekki mikið að efna til félagsskapar með íhaldinu um stjórn landsins. Það er ekki mjög skynsamlegt vegna þess að flokkar sem þykjast vera vinstri flokkar í stjórnarandstöðu, missa auðvitað allan trúverðugleika þegar þeir lenda í flatsænginni með íhaldinu með þeim hætti sem menn þekkja.

Þess vegna held ég, hæstv. forseti, að það sé alveg rétt sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir benti á áðan og hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir að hér er um að ræða pólitísk grundvallaratriði. Þetta er ekki bara eitthvert gjald, einhver tala, eitthvert frv., eitthvert hundrað sem hér fer í gegn. Hér er um að ræða pólitísk grundvallaratriði. Hverjir eiga að stunda nám? Á fólk að geta stundað nám eftir vilja sínum, áhuga og getu eða á fyrst að spyrja: Geturðu borgað? Á fólk að fá lækningu eftir þörfum á heilsugæslustofnunum eða á fyrst að spyrja: Geturðu borgað? Um þetta snýst öll pólitík nú til dags. Eða vilja menn kosta skólana eða sjúkrahúsin með því að leggja á skatt eftir efnum og ástæðum eins og við höfum lagt áherslu á og vinstri flokkar og jafnaðarmannaflokkar um heim allan hafa sameinast um? Hér er komið að þessum skurðpunkti og það er dapurlegt að flokkur Jónasar frá Hriflu og félaga skuli lenda í þessu með Sjálfstfl. Að sama skapi er gleðilegt að Alþfl. skuli vera að rífa sig upp úr þessu svelli, það er ánægjulegt, en sorglegt að horfa á eftir Framsfl. ofan í þetta forardíki. En það breytir ekki því að það er óhjákvæmilegt að á þessu máli sé tekið í umræðunni og að það sé undirstrikað við lok hennar að hæstv. menntmrh. fæst ekki til þess að taka á aðalatriðum þessa frv. og það er opið ef þetta verður afgreitt svona að næsta haust komi fjmrh. og segi við þingið: Skólagjöld verður að leggja á. Þau verða að vera 30 þús., 50 þús., 70 þús., 100 þús., 150 þús. ef það á að vera hægt að reka skólana. Vilja menn þetta? Er það þetta sem hæstv. menntmrh. á við þegar hann segir: Það fer allt eftir þingmeirihluta hvaða upphæð þetta gjald verður.