Háskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 17:20:04 (5322)

1996-04-29 17:20:04# 120. lþ. 127.6 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[17:20]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Virðulegi forseti. Það er satt að segja dapurlegt að hlýða á mál hv. 7. þm. Reykn. í dag. Ég hef ekki setið á þingi í vetur enda aðeins varaþingkona, en ég man vel eftir því hvað framsóknarmenn sögðu í kosningabaráttunni sl. vor og því spyr ég: Er þetta sama fólkið? Er þetta sami flokkurinn?

Þá var svo sannarlega höfðað til yngri kjósenda á Íslandi. Menntamálin voru mál málanna og á því m.a. flutu tveir framsóknarmenn inn á hið háa Alþingi í Reykjavík. En nú hefur allt snúist á verri veg. Það væri gleðilegt ef menntamálin og framtíð þjóðarinnar fengi sama sess í stefnu Framsfl. og sauðkindin hefur lengstum haft.

Það er líka dapurlegt að horfa upp á það hvernig hvert stjfrv. á fætur öðru sem frjálshyggjupostular Sjálfstfl. --- nema þeir séu nú einnig komnir í Framsókn --- hafa soðið saman, rennur í gegn hjá Framsfl. eins og ekkert sé og það er hvorki æmt né skræmt. Því hlýt ég að spyrja: Hvar er sjálfsvirðing hv. þingmanna Framsfl. þegar kemur að menntamálunum?