Háskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 17:53:57 (5327)

1996-04-29 17:53:57# 120. lþ. 127.6 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[17:53]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hér varð ég vitni að því sem ég hélt að ég myndi ekki sjá á þessu þingi þegar sá bognaði sem ég hélt að aldrei mundi svigna. Það hefur aldrei gerst áður að hv. þm. Guðni Ágústsson bókstaflega biðji sjálfum sér og Framsfl. vægðar en það gerði hann áðan. Hvað var það sem hrærði hjarta hans svo aumlega? Það var smáræði. Nokkur þúsund krónur. Allt í lagi þó að námsmenn væru látnir borga 24.000 kr. enda hefði Framsfl. séð til þess að það skín sól fyrir utan þinghúsið og þeir geta þá bara andskotast út í sólina ef þeir hafa ekki efni á að borga sig inn í háskólann. En hvað er það sem menn eru að ræða um hérna, herra forseti? Það eru ekki krónur og aurar. Það sem hv. þm. kveinkaði sér undan var að menn gengu eftir efndum kosningaloforða Framsfl. Það hefur komið fram fyrr í dag að einn hv. þm. flokksins sagði: Hvenær byrja menn að mæla kosningaloforð? Er það í upphafi eða undir lok kjörtímabilsins? Á yfir höfuð nokkuð að mæla kosningaloforðin?

Herra forseti. Menn deila á Framsfl. vegna þess að Halldór Ásgrímsson, hæstv. utanrrh. og formaður flokksins sagði í DV 28. mars 1995 þegar hann var spurður um skólagjöld á háskólastigi: ,,Framsókn stefnir að því að lækka skólagjöld háskólanema.`` Þetta er þverbrotið. Þetta er spurning um prinispp, herra forseti. Eiga orð að standa eða ekki? Hv. þm. Guðni Ágústsson hefur svarað fyrir sitt leyti: Það á að brjóta þau, það er í lagi af því sólin skín.