Forræðismál Sophiu Hansen

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 13:39:47 (5344)

1996-04-30 13:39:47# 120. lþ. 128.91 fundur 276#B forræðismál Sophiu Hansen# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[13:39]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Allt frá upphafi hafa íslensk stjórnvöld stutt aðgerðir Sophiu Hansen til að tryggja forræði yfir dætrum hennar og umgengnisrétt í samræmi við forræðisúrskurð íslenska dómsmrn. og ítrekaða tyrkneska úrskurði. Þetta hefur verið gert með margvíslegum hætti. Málið hefur verið tekið upp við forseta Tyrklands, tyrkneska ráðherra og ráðuneyti, ýmist munnlega eða skriflega. Þannig hefur verið séð til þess að jafnan væri fyrir hendi hjá tyrkneskum ráðamönnum og embættismönnum full vitneskja um þróun málsins og staðfesting á að málinu væri fyllsti gaumur gefinn af íslenskri hálfu.

Tyrknesk stjórnvöld hafa lagt höfuðáherslu á að þar sem um sé að ræða mál sem dómstólar hafi til umfjöllunar geti þau ekki gripið inn í meðferð þess. Þetta er í samræmi við eigin skilning okkar á sjálfstæði er dómstólum beri og eðlilegum aðskilnaði framkvæmdarvaldsins og dómsvalds. Hefur því ekki verið hægt um vik að hnekkja þessari afstöðu meðan málið hefur þokast áfram í tyrkneska dómskerfinu.

Um gang málsins upp á síðkastið, stöðu þess og ákvarðanir í því sambandi vil ég taka fram eftirfarandi:

Eftir úrskurð hæstaréttar Tyrklands 28. nóv. sl., sem þótti að ýmsu leyti hagstæður, m.a. þar sem hann lýsti ógilda frávísun málsins frá undirrétti er átti sér stað 20. apríl 1995 og lagði fyrir undirréttinn að kveða upp efnislegan dóm í málinu, hefur utanrrn. verið með í ráðum og átt frumkvæði að framlagningu nýrra gagna sem hinn tyrkneski lögfræðingur telur styrkja stöðu Sophiu Hansen. Samhliða þessu hefur verið unnið áfram að lögfræðilegri könnun málsins með tilliti til alþjóðasamninga er það gæti snert og alveg sérstaklega er snertir ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Í ljósi þess hve málið, þrátt fyrir það hve viðkvæmt það er í eðli sínu, hefur tekið langan tíma fyrir tyrkneskum dómstólum kemur sérstaklega til álita 6. gr. mannréttindasáttmálans. Samkvæmt henni á einstaklingur kröfu á réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma. Ekki er hægt að halda því fram að þetta ákvæði hafi verið virt meðan málið heldur áfram að hrekjast milli tyrkneskra dómstóla. Einnig á hér við 8. gr. mannréttindasáttmálans sem kveður á um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu en undir þá grein fellur einnig réttur foreldra og barna til samneytis við hvort annað. Synjun forræðis og umgengnisréttar Sophiu við dætur sínar nú í fjögur ár samræmist ekki ákvæðum þessarar greinar. Fara því tvímælalaust að verða áhöld um svo að ekki sé fastar að orði kveðið hvort ekki séu brotnar af Tyrklands hálfu þær skuldbindingar sem ríkið gekkst undir gagnvart öðrum aðildarríkjum sáttmálans og þegnum þeirra. Það er skylda ríkjanna að standa vörð um þau réttindi sem njóta verndar samkvæmt milliríkjasamningi þessum og tryggja slíkt bæði með lögum og réttarframkvæmd í löndum sínum.

Eins og kunnugt er verða mál ekki tekið upp samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu fyrr en tæmd hafa verið úrræði samkvæmt lögum viðkomandi lands en ég mun beita mér fyrir því að þessum möguleika verði haldið opnum eftir því sem ræðst í málinu fyrir tyrkneskum dómstólum. Hinn nýi úrskurður undirréttarins í Istanbul, sem kveðinn var upp sl. fimmtudag, kom á óvart fyrir það að dómarinn skuli nú fyrst eftir að málaferlin hafa staðið í fjögur og hálft ár ætla að kanna hug dætra Sophiu til spurningarinnar um forræði yfir þeim. En með þessum úrskurði sem nýlega hefur fallið má með vissum hætti segja að málsmeðferðin sem hefur ekki verið hafin yfir gagnrýni hingað til hafi tekið nýja stefnu.

Ekki er ágreiningur um að í slíkum málum beri fremur að horfa til velferðar barnanna sem eiga í hlut. Það viðhorf er viðurkennt í íslenskum rétti en slíkt verður að meta á eðlilegum og sanngjörnum forsendum. Strax eftir að mér var skýrt frá framangreindum úrskurði ákvað ég að senda sendiherra okkar í Tyrklandi til Ankara til þess að gera æðstu ráðamönnum grein fyrir hve alvarlegum augum við litum þróun mála. Ég hafði hugsað mér að hann færi nú strax í vikubyrjun en að höfðu samráði við þá sem nánast hafa unnið með Sophiu Hansen að málinu er nú stefnt að því að lagt verði upp í þessa ferð 11. maí nk. Í ljósi árangurs af ferðinni munu síðan verða teknar ákvarðanir um frekari skref en þar er ekkert útilokað af því sem ráðlegt þykir þeim sem kunnugastir eru aðstæðum.

Eins og fram hefur komið í máli mínu skortir ekkert á að máli þessu hafi ekki verið af ríkisstjórnarinnar hálfu gefinn fyllsti gaumur og hjá henni ríki einlægur vilji til þess að stuðla að farsælum málarekstri svo fljótt sem verða má. Umræðuna í dag á hv. Alþingi og atbeina þingmanna, sem notað hafa tækifærið til að ræða málið við tyrkneska starfsbræður, tek ég sem vott um að þingið vilji fyrir sitt leyti styðja aðgerðir í málinu.

Ég vænti þess að þetta svari þeim spurningum sem hér hafa verið fram lagðar. Fyrsta liðnum tel ég mig hafa þegar svarað. Að því er varðar mótmæli þá verða borin fram mótmæli í þeirri ferð sem ég hef nefnt. Að því er varðar aðstoð við Sophiu Hansen á næstunni, þá mun hún m.a. felast í þessari aðstoð. Hún hefur fengið nokkra fjárhagsaðstoð frá ríkinu í gegnum tíðina. Það mun verða haldið áfram á þeirri braut, en ég geri mér ljóst að það er ekki nægilegt og hún þarf á frekari aðstoð þjóðarinnar að halda.