Forræðismál Sophiu Hansen

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 13:58:08 (5350)

1996-04-30 13:58:08# 120. lþ. 128.91 fundur 276#B forræðismál Sophiu Hansen# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[13:58]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna því sem fram kom í máli utanrrh. áðan og það liggur auðvitað ljóst fyrir eins og hefur gert í þessi sex ár sem þessi barátta hefur staðið yfir að hvorki ríkisstjórn né Alþingi hafa látið sitt eftir liggja til að fá sanngjörn úrslit í baráttu Sophiu Hansen. Það er að draga til úrslita í þessu máli að það er alveg ljóst eins og hér hefur komið fram að hér er um gróf mannréttindabrot að ræða. Við getum einskis látið ófreistað á þeim tíma sem eftir er þar til málið verður tekið fyrir aftur í Tyrklandi í júnímánuði, til að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að Sophia Hansen fái dætur sínar aftur.

Mér finnst ekki nægjanlegt að það sé einungis ríkisstjórnin sem komi að málinu á lokastigi. Það er vissulega mjög nauðsynlegt að senda sendiherra okkar til Tyrklands. Mér finnst nauðsynlegt að Alþingi komi að málinu og að utanrmn. verði gert kleift að fylgjast með því þangað til það verður tekið fyrir í Tyrklandi á nýjan leik. Mér finnst fyllilega koma til álita og þá skoðunar að í utanrmn. hvort Alþingi eigi ekki að álykta í þessu máli. Mér finnst það fyllilega gefa tilefni til þess þar sem fyrir liggja þessi grófu mannréttindabrot sem hér hefur veri lýst.

Ég vil setja þetta fram við þessa umræðu og óska eftir því að á næsta fundi utanrmn. verði málið sérstaklega skoðað með það í huga að Alþingi, löggjafarvaldið og ríkisstjórn, geti tekið höndum saman um það að berjast fyrir þessu máli eins og hægt er þangað til það verður tekið fyrir aftur. Ég tek undir það sem fram kom í máli málshefjanda að það er líka mjög nauðsynlegt að stjórnvöld sendi frá sér formleg mótmæli og mér finnst það fyllilega koma til greina að það verði gert líka í formi þess að Alþingi álykti í málinu.