Afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um ríkisstarfsmenn

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 14:05:26 (5353)

1996-04-30 14:05:26# 120. lþ. 128.92 fundur 277#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um ríkisstarfsmenn# (um fundarstjórn), SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[14:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna atburða sem urðu á fundi efh.- og viðskn. nú í hádeginu en þar gerðist það að frv. um breytingu á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna var tekið út úr nefndinni í mjög harðri andstöðu okkar fulltrúa stjórnarandstöðunnar og gegn samanlagðri kröfu verkalýðshreyfingarinnar um að þessi frumvörp verði tekin af dagskrá Alþingis. Þessi atburður varð þeim mun ámælisverðari sem það gerðist einnig að hæstv. fjmrh., sem óskað hafði verið eftir að kæmi til fundar við nefndina á lokastigi umfjöllunar um málið, neitaði að mæta og er hann þó yfirmaður ríkisfjármála og ber ábyrgð á starfsmannahaldi ríkisins.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að um þessi frumvörp, þetta og önnur sem því eru skyld, hafa verið mikil átök, herra forseti, og því miður er það niðurstaðan að vinna að þessum málum í efh.- og viðskn. hefur ekki skilað þeim árangri að um þau hafi tekist einhver samstaða, hvorki hvað innihald snertir né málsmeðferð. Það lítur því út fyrir að það eigi að verða kveðja hæstv. ríkisstjórnar til verkalýðshreyfingarinnar á hátíðsdegi á morgun 1. maí að halda við þau áform að knýja þessi frumvörp fram í fullri andstöðu við jafnt stjórnarandstöðu sem verkalýðshreyfinguna.

Herra forseti. Ég hlýt að harma þessi málalok í efh.- og viðskn. og mótmæla þeim, bæði þessum vinnubrögðum og eins framkomu hæstv. fjmrh. Það er okkar skoðun í minni hlutanum að frumvörpin séu á engan hátt þannig unnin að réttlætanlegt sé að afgreiða þau út úr nefndinni, það vanti mikið á að nægjanlegur tími hafi gefist til að fara efnislega ofan í saumana á þeim svo viðkvæm og vandasöm sem þau eru. Það er einnig rétt að láta það koma hér fram að það er mat allra þeirra forsvarsmanna og forustumanna verkalýðshreyfingarinnar sem til nefndarinnar hafa komið að þessi framgangsmáti muni stórspilla andrúmsloftinu í komandi kjarasamningum og sé ekkert annað en ávísun á ófrið og átök og ljóst að það er ríkisstjórnin sem ríður á vaðið og slítur í sundur friðinn.

Ég vil því í þessu sambandi, herra forseti, hvetja hæstv. ríkisstjórn enn á ný til þess að hugsa sinn gang. Í öðru lagi hvet ég hæstv. forseta og forustu þingsins til þess að fara yfir stöðu mála sem hér er komin upp í þinghaldinu. Það er ljóst ef eitthvað er þá hefur harðnað sá ágreiningur sem hér er um meðferð mála. Ég spyr hæstv. forseta hvenær ætlunin sé að taka þessi ágreiningsmál á dagskrá og reyndar hvetja til þess að það verði ekki gert á næstu dögum þannig að mönnum gefist nokkur tími til að hugsa ráð sitt auk þess sem það liggur í hlutarins eðli að menn þurfa tíma til að ganga frá viðamiklum nefndarálitum o.s.frv. Ég harma þessi vinnubrögð og mótmæli því að þessi mál skuli hafa verið tekin út úr efh.- og viðskn. með offorsi.