Afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um ríkisstarfsmenn

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 14:08:46 (5354)

1996-04-30 14:08:46# 120. lþ. 128.92 fundur 277#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um ríkisstarfsmenn# (um fundarstjórn), JBH
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[14:08]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Af hálfu hæstv. ríkisstjórnar hefur það verið látið í veðri vaka að þetta frv. og önnur sem varða samskipti aðila á vinnumarkaði og þá sérstaklega þetta frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna markaði upphaf nýrrar starfsmannastefnu af hálfu ríkisvaldsins. Markmiðin væru að færa þar mál til nútímalegra horfs. Það vekur athygli þegar rætt er um starfsmannastefnu að á fundi efh.- og viðskn. í hádeginu dró til þeirra tíðinda að þar var því endanlega yfirlýst að samningaleið um þetta mál væri hafnað. Með öðrum orðum, það er nú staðfest einum sólarhring fyrir 1. maí að ríkisstjórnin hefur tekið þá ákvörðun að sitja ekki lengur að þessu máli og að keyra það fram í krafti atkvæða án þess að taka nokkurt tillit til þeirrar allsherjarkröfu samtaka starfsmanna ríkisins að efna til samningaviðræðna um málið. Þetta er stórpólitísk ákvörðun og yfirlýsing af hálfu stjórnarmeirihlutans sem er nauðsynlegt að berist öllum landslýð og þá ekki síst þeim sem við eiga að búa áður en 1. maí er haldinn vegna þess að þetta eru skilaboð ríkisstjórnarinnar til þessa fólks.

Af hálfu okkar nefndarmanna í stjórnarandstöðu hefur allt verið reynt til þess að fá efnislega umræðu um málið og að fá stjórnarmeirihlutann til þess að falla frá stefnu um árekstur og að taka þess í stað upp samningaviðræður á þeim efnislegu forsendum að kjör opinberra starfsmanna eru annars vegar samningsbundin eða lögbundin réttindi en hins vegar hefur fyrr í samningaviðræðum um laun launum þeirra verið haldið niðri vegna þess að þeir væru taldir hafa rétt umfram almenna vinnumarkaðinn. Þessi niðurstaða stjórnarmeirihlutans mun setja mjög svip sinn á störf þingsins næstu daga og vikur vegna þess að þetta mál er fyrsta mál af mörgum sem búast má við að eins hátti til um.

Þess vegna, virðulegi forseti, er ástæða til þess að vekja athygli á þessu um leið og ég tek undir þau tilmæli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að þinginu gefist rúmur tími til þess að fara ofan í saumana á þessu máli.