Háskóli Íslands

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 14:52:30 (5369)

1996-04-30 14:52:30# 120. lþ. 128.1 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[14:52]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er margt fólk að störfum í Háskóla Íslands. Hann er stærsti vinnustaður landsins, þannig að það hefur ekki verið komið í veg fyrir það enn þá að fólk sækti í háskólann og margir dóla þar árum saman og við fáum reyndar líka þar út margt glæsilegt fólk sem stendur sig vel í þjóðfélaginu. En stjórnarandstaðan hefur svo sem ekki --- mig minnir að í fjárlögum hafi það aðallega verið útgjaldatillögur upp á milljarða og ég sé ekki betur með fjármagnstekjuskattinn að á örlagastundu hlupu þeir og hurfu frá málinu. Það var búið að ná saman um það mál. Þeir yfirgáfu það, brutu samkomulagið, fluttu önnur frv. til þess að koma í veg fyrir að það næði í gegnum þingið.

Ég vil segja það sem mín lokaorð við hv. þm. að ég stend frammi fyrir því sem stjórnmálamaður hverja á að skatta. Ég sé að einstæða móðirin sem borgar 20--30 þús. kr. fyrir barnið sitt á leikskóla eða hjá dagmömmu getur ekki borið meira. Ég sé að er ekki hægt að leggja meira á fólkið sem er á lága kaupinu í þjóðfélaginu. Ég tek undir það. Ég tel að það sé hægt að ná meiri tekjum af hátekjufólki og eignamönnum. Í það er ríkisstjórnin að fara. Ég get líka tekið undir það að ég tel að á ýmsum sviðum geti atvinnulífið komið meira inn í ýmis mál í þjóðfélaginu og eigi að gera þannig að það vil ég horfa á. En í þessu efni er ég óhræddur við 24 þús. kr. sem innritun í Háskóla Íslands. Það mun ekki draga úr aðsókn að háskólanum. Og sannarlega er það svo að íslenska þjóðin býr allvel að langskólafólki sem betur fer, það er mikilvægt. Ég hef í dag miklu meiri áhyggjur af hinu vinnandi fólki sem er á mjög lágu kaupi og tel að við getum ekki farið nýja skattaleið gagnvart því.