Háskóli Íslands

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 15:25:41 (5376)

1996-04-30 15:25:41# 120. lþ. 128.1 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, Frsm. meiri hluta SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[15:25]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hreint ótrúlegt að hlusta á málflutning stjórnarandstöðunnar og þá einkanlega þingmanna Alþfl. Hér er látið líta út fyrir að eitthvað nýtt sé á ferðinni sem er alls ekki. Það er hreinn útúrsnúningur. Sannleikurinn er sá að ekki er verið að breyta neinu frá því sem hefur verið síðustu fjögur ár. Það er engin pólitísk stefnubreyting á ferðinni. Það var tekin um það ákvörðun í tíð síðustu ríkisstjórnar, stjórnar Alþfl. og Sjálfstfl., að hækka skrásetningargjaldið sem innheimt hefur verið við Háskóla Íslands frá upphafi. Umboðsmaður Alþingis gerði athugasemd við að það væri ekki nægilega skýrt í gildandi lögum hvaða kostnaðarliði megi fella undir skrásetningargjaldið og hvernig megi ráðstafa því. Frv. sem hér er til umræðu er flutt til þess að styrkja lagastoð skrásetningargjalds og bregðast þannig við gagnrýni umboðsmanns Alþingis.