Háskóli Íslands

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 15:29:03 (5379)

1996-04-30 15:29:03# 120. lþ. 128.1 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, Frsm. 2. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[15:29]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá held ég að hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur greini á við fleiri en þann sem hér stendur því að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir lýsti því yfir hér áðan að hluti þessa gjalds mundi renna til almenns rekstrarkostnaðar Háskóla Íslands. Það sem meira er, umboðsmaður Alþingis tók sérstaklega fram sem dæmi að prentarakostnaður hjá Reiknistofnun o.s.frv. heyrði ekki undir skrásetningargjald þannig að hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir er að lýsa því yfir að hún sé a.m.k. ósammála okkur þremur og sennilega stjórnarandstöðunni í heild sinni og allflestum sem velta því fyrir sér af einhverri alvöru að hér er verið að lögleiða skólagjöld. Það er nákvæmlega kjarni málsins. En því miður hefur ríkisstjórnin ekki komið með málið inn í þingið undir réttum formerkjum. Það er út af fyrir sig mat þingmannsins að kalla þetta aum rök. Ég ætla ekki að gefa þeim rökum nafn sem hv. þm. hefur borið fram hér við umræðuna.