Háskóli Íslands

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 16:05:53 (5385)

1996-04-30 16:05:53# 120. lþ. 128.1 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[16:05]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það væri fróðlegt að fara yfir það því að það voru oft mjög háleitar og málefnalegar umræður. Það er ekki tími til þess í stuttu andsvari að fara yfir það enda tæki það langan tíma. En eins og ég sagði var þessi tónn ekki í framsóknarmönnum í þeirri ágætu nefnd sem starfaði á síðasta kjörtímabili. (Gripið fram í.) Það var sem betur fer og ég hefði viljað óska þess að menn hefðu staðið við þau orð sem þeir sögðu í því starfi á síðasta kjörtímabili því að það kveður heldur betur við annan tón. Þar var ekki verið að tala um hækkun skólagjalda, enda var það ekki heldur tónninn í framsóknarmönnum alveg fram að síðustu kosningum. Þá átti að lækka skólagjöldin og innritunargjöldin, samanber ummæli hæstv. utanrrh. í DV. (VS: Hann hefur bara ekki kunnað stefnuskrána.) Það er náttúrlega aumt fyrir formann stjórnmálaflokks að þekkja ekki eigin stefnuskrá. Ég vil nefna það hérna vegna þess að það komu til tals framboðsfundir í skólum á Reykjavíkursvæðinu að þar voru heldur betur loforðin uppi og þau voru heldur rækilegri en þetta litla loforð hæstv. ráðherra í DV. Þar voru yfirboðin slík að margir námsmenn biðu í ofvæni eftir að Framsfl. kæmist í ríkisstjórn því að allt mundi lagast í málefnum námsmanna hvort sem það voru innritunargjöld eða lánasjóðsmálin. Mikil var trú þeirra.