Háskóli Íslands

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 16:12:48 (5389)

1996-04-30 16:12:48# 120. lþ. 128.1 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[16:12]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ekki skal ég fara að deila um stærðfræðivísindi við hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, hv. 18. þm. Reykv. Hins vegar ber að skoða stefnuskrár. Ef hv. þm., fyrrv. fulltrúi í menntmn. Framsfl., núv. hv. þm. Þjóðvaka, hefði skoðað stefnuskrá Framsfl. sem ef ég man rétt þingmaðurinn núverandi og þáv. fulltrúi í menntmn. og varaþingmaður Framsfl. átti þátt í að móta, þar kemur skýrt fram, eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hefur lesið nú þegar upp, að er ekki um neina kúvendingu að ræða. En það kemur líka fram að á stefnuskrá Framsfl. er að ná tökum á ríkisfjármálum. Ég minni á það, hv. þm., að á síðasta ári voru greiddir 16 milljarðar úr ríkiskassanum í vexti af erlendum og innlendum lánum. Fyrir þá upphæð mætti reka með myndarskap nokkra háskóla og það er markmið sem þessi ríkisstjórn hefur sett sér að ná böndum á ríkishallanum til þess að geta m.a. byggt upp og rekið af myndarskap háskóla, ekki bara Háskóla Íslands heldur og aðra háskóla. Ég viðurkenni fúslega að þau gjöld sem hér er um að ræða eru í hámarki og það er markmið þessarar ríkisstjórnar að lækka þau gjöld og það er sú sýn sem ég hef í lok þessa kjörtímabils, virðulegi forseti.