Iðnaðarmálagjald

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 16:21:02 (5395)

1996-04-30 16:21:02# 120. lþ. 128.4 fundur 483. mál: #A iðnaðarmálagjald# (atvinnugreinaflokkun) frv. 81/1996, iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[16:21]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald, sem er á þskj. 835. Tilefni þess að þetta frv. er flutt er einvörðungu það að orðið hefur breyting á þeirri atvinnugreinaflokkun sem álagning iðnaðarmálagjalds miðast við. Samkvæmt gildandi lögum um gjaldið er vísað til atvinnugreinaflokkunar Hafstofu Íslands á árinu 1970 varðandi skilgreiningu á iðngreinum.

Nú hefur fyrir nokkru tekið gildi ný atvinnugreinaflokkun, íslensk atvinnugreinaflokkun 1995. Með hliðsjón af þessu þykir rétt að breyta lögum um iðnaðarmálagjald þannig að vísað verði til hinnar nýju flokkunar í stað hinnar gömlu. Það er ekki ætlunin að gera breytingar á gjaldskyldu einstakra aðila en þó er nauðsynlegt að fella niður gjaldskyldu í nokkrum flokkum, í afmörkuðum tilvikum þar sem vafi hefur leikið á túlkun með tilliti til eldri flokkunar. Er þessi niðurfelling gerð í góðu samstarfi við Samtök iðnaðarins en þau fara með ráðstöfun gjaldsins. Frv. þetta er algerlega tæknilegs eðlis og ég vænti þess að það fái góða og skjóta afgreiðslu á Alþingi og legg til að því verði vísað til iðnn. að lokinni þessari umræðu.