Iðnþróunarsjóður

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 17:07:11 (5400)

1996-04-30 17:07:11# 120. lþ. 128.5 fundur 487. mál: #A Iðnþróunarsjóður# (gildistími o.fl.) frv. 63/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[17:07]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir greinargóð svör við þeim spurningum sem ég bar fram um frv. Ég tel að þær séu allar fullnægjandi. Ég hef engu við að bæta nema þá helst því að mér sýnist að þetta áhættumat og þessar afskriftir séu umræðu verðar. Það megi skoða í hv. iðnn. hvort menn vilja eitthvað sauma að því en ég tel þó að það þurfi að fara skikkanlega í það því það má auðvitað ekki þrengja þannig að þessum þætti í lögunum að þetta þetta ákvæði sem hér er um að ræða verði ónýtt og þetta verði ekki neinn áhættulánasjóður heldur aðeins einhver venjulegur fjárfestingarsjóður. Ég er þeirrar skoðunar að þar eigi að vera ákveðið rúm fyrir hendi.

Ég vil líka segja, hæstv. forseti, að mér finnst að með þeirri hugsun sem ég tel að við höfum mótað í sameiningu á síðasta kjörtímabili og við alþýðubandalagsmenn þróuðum í stefnuskrá okkar leið sem við kölluðum útflutningsleið, og með þeirri hugsun sem birtist í þessu frv. og líka í frv. okkar um áhættulána- og nýsköpunarsjóð séu menn að þróa sig út úr gömlu kerfi í sjóðamálum á Íslandi. Ég held að það sé fagnaðarefni og ég er hlynntur því. Sjóðirnir gáfust vel framan af. Þeir höfðu auðvitað ákveðinn tilgang og mönnum auðnaðist oft og tíðum að úthluta fé úr þessum sjóðum skikkanlega þannig að það skilaði þjóðarbúinu árangri og almenningi á landinu oft og tíðum atvinnu og betri lífskjörum. Það sem sagt hefur verið um þessa sjóði, m.a. af þingmönnum Sjálfstfl., það er oft mjög mikil vitleysa. Sérstaklega er það mikil vitleysa með hliðsjón af því að þeir stóðu að aðalúthlutun sjóða nokkru sinni í sögu Íslands, þ.e. í nýsköpunarstjórninni. (Gripið fram í: Og stofnuðu þá suma.) Já, stofnuðu þá suma þannig að þeir voru ansi athafnasamir í þessu eins og við höfum flest verið og eigum glæsilega sögu í þeim efnum.

Hins vegar hafa menn nú reynt að laga efnahagssamfélag okkar almennt að öðruvísi stjórnunaraðferðum í efnahagsmálum. Þar með eru menn farnir að segja sem svo, ja, fyrirtæki þau sem starfrækt eru þurfa að geta borið sig á þá mælikvarða sem lagðir eru. Hvort sem um er að ræða stór fyrirtæki eða smá verða menn að geta tryggt að fyrirtækin beri sig. Það þarf að vera tryggt að þau geti ekki einasta borið sig á íslenskan mælikvarða heldur þurfa þau að geta borið sig í alþjóðlegu samhengi, þ.e. í evrópsku samhengi. En í raun er verið að tala um að ný fyrirtæki hér á landi og gömul fyrirtæki geti borið sig í samkeppni við fyrirtæki á heimsvísu. Þegar opnuð er prjónastofa á Hofsósi er hún samstundis í beinni samkeppni við sams konar fyrirtæki í Djakarta eða hvar það nú er. Þannig er þessi veruleiki sem fyrirtækin búa við í dag og við þurfum að laga okkur að því. Þess vegna eru allir sammála um það núna að það eigi að losa sig út úr þessu gamla sjóðakerfi eins og það var. Sumir hafa gerst svo, mér liggur við að segja, billegir í málflutningi að telja að þeir hafi á fyrri tíð verið heilagri en aðrir í þeim efnum. Ég held að aðalatriðið sé að það er liðin tíð. Það er kominn annar tími og við þurfum að feta okkur inn í hann.

Þá held ég að við þurfum að skapa samstöðu um að taka utan um flesta þá sjóði sem til eru. Það er dálítið forn bragur yfir sumum þeirra sem eru enn þá eru starfræktir á vegum ríkisins og við þekkjum og minna um margt á hinn liðna tíma. Ég held að það sé hins vegar nauðsynlegt að lenda ekki í því fari sem mér sýnist t.d. Sjálfstfl. hafa lent í í þessu máli að ekki megi vera til neinir sjóðir. Enginn stuðningur af neinu tagi vegna þess að markaðurinn eigi að sjá um allt. (Gripið fram í: Þeir leggja sjóðina niður.) Nei, þeir leggja þá að sjálfsögðu ekki niður vegna þess að þeir eru yfirleitt í stjórn sjóðanna þannig að það mundi nú verða mikill héraðsbrestur á sumum bæjum ef þeir legðu þá niður. Þannig að veruleikinn er sá að menn hafa ekki fengist til að taka heildstætt á þessu. Mér finnst stundum að ríkisstjórnin, bæði sú sem nú er og hin síðasta, séu kannski að efna til ófriðar að óþörfu um þessi mál vegna þess að ég held að um þessi mál sé hægt að ná miklu víðtækari samstöðu meðal flokkanna sem eiga fulltrúa hér á Alþingi en nú er. En það sem við alþýðubandalagsmenn vorum að segja í útflutningsleiðinni var auðvitað líka fyrst og fremst þetta: Við þurfum að laga fyrirtæki okkar að hinu alþjóðlega samkeppnisumhverfi, heimsumhverfi. Alþjóðlegur, lesist: heims, ekki bara evrópsks. Í því skyni eigum við auðvitað að taka frá fjármuni e.t.v. úr ríkissjóði eða einhverjum öðrum opinberum sjóðum til þess að standa við bakið á nýsköpun og þróunarverkefnum í atvinnulífinu. Þar eiga menn alveg hiklaust að leggja dálitla fjármuni til hliðar í áhættustarfsemi af einhverju tagi. Það er alveg augljóst mál að ef þjóðfélagið ætlar að þróast og tryggja hér sæmileg lífskjör á komandi árum verða menn að þora að setja peninga í áhættulánastarfsemi atvinnulífsins rétt eins og í rannsóknir á vísinda- og menntasviðinu.

Þess vegna nefni ég þetta, herra forseti, að ég vil undirstrika þessa hugsun í þeirri umræðu sem fer núna fram, 1. umr. um þetta mál þar sem um leið er rætt um hugsanlegt nýtt fyrirkomulag sjóðamála og það fái afgreiðslu á komandi haustþingi. Það væri stórkostlegt ef hægt væri að taka á því máli í heild, þ.e. nýju fyrirkomulagi sjóðamála. Ég vil fyrir hönd þingflokks Alþb. og óháðra lýsa okkur reiðubúin til að ganga í það verk af fullum myndarskap.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar en vil þó aðeins nefna að það kom fram hjá hæstv. ráðherra að þrír ráðuneytisstjórar væru að skoða þetta sem kallað er heildarfyrirkomulag sjóðamála. Þrír ráðuneytisstjórar, þ.e. úr forsrn., iðnrn. og sjútvrn. Það er þá væntanlega á vegum forsrn. eða á vegum iðn.- og viðskrn. Ég held að það væri mikilvægt að halda til haga þeirri hugmynd sem ég hreyfði áðan að þar sem auk þess er farið að ræða þetta við hagsmunaaðila finnst mér nú eðlilegur hlutur að þessi mál verði eitthvað rædd við iðnn. Alþingis. Ég vil endilega fara fram á það við hæstv. ráðherra að hann íhugi það mjög alvarlega að þessar hugmyndir um nýtt fyrirkomulag sjóðamála verði lagðar fyrir iðnn.

[17:15]

Nú viðurkenni ég að iðnn. er að einu leyti ekki nægilega vel í stakk búin til að fara yfir málið vegna þess að hún er því miður bara með iðnaðinn. Vandinn er sá að það gæti orðið til að vekja upp tortryggni hjá einhverjum öðrum greinum ef menn færu að ræða þetta í iðnn. Það er eins og gengur. Hins vegar er það mál sem við þurfum kannski að taka til athugunar hér að því er varðar þingsköp Alþingis hvort það er eðlilegt að vera með iðnn., sjútvn. þar og landbn. þar. Ég er þeirrar skoðunar að það ætti að vera ein atvinnuveganefnd sem hefði öll þessi mál sem koma frá öllum þessum ráðuneytum og hætta að skipta atvinnuveganefndunum í þinginu í marga parta. Ef ég ætti að gera tillögu á þessum stað í umræðum um Iðnþróunarsjóðinn um breytingu á þingsköpunum sem er nú alveg við hæfi finnst mér vegna þess að þingsköpin eru nú hálfgerður iðnaður. (Gripið fram í: Verður þá ekki að fækka ráðherrum?) Það má svo sem fækka þeim sumum, þeir eru misjafnir. Að einhverju leyti má fækka. En svo mættu koma aðrir góðir í staðinn. En ef ég ætti í þessari umræðu að nefna það þá teldi ég að eðlilegt væri að breyta þingsköpunum þannig að atvinnuveganefndirnar eins og þær eru verði lagðar niður en það verði til ein atvinnuveganefnd í staðinn fyrir landbn., sjútvn. og iðnn. sem fengi þá mál eins og þessa sjóði sem á að fara að sameina til athugunar. Ég nefni það við hæstv. ráðherra.

Ég ítreka spurningu mína: Er hann tilbúinn til að beita sér fyrir því að hv. iðnn. fái að fylgjast með því hvernig unnið verður að endurskoðun laga um þessa sjóði?