Iðnþróunarsjóður

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 17:34:03 (5403)

1996-04-30 17:34:03# 120. lþ. 128.5 fundur 487. mál: #A Iðnþróunarsjóður# (gildistími o.fl.) frv. 63/1996, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[17:34]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Margt af því sem hv. þm. sagði um uppstokkun í sjóðakerfinu get ég algerlega tekið undir og er full ástæða til. Þær lýsingar sem hv. þm. var með um hvernig viðkomandi sjóðir störfuðu eru auðvitað sögur sem maður heyrir. Ég ætla ekkert mat að leggja á það hvort þær eru réttar eða rangar og hvernig aðstaðan hefur verið á þeim tíma þegar slíkar ákvarðanir voru teknar eins og hv. þm. var að lýsa.

Það er hins vegar alveg nauðsynlegt að skilja þarna á milli hinnar hefðbundnu lánastarfsemi fyrir atvinnulífið þar sem verið er að fjármagna tiltekna hluti til ákveðins tíma við svokallaðar markaðsaðstæður og svo hins sem markaðurinn sér alls ekki um, þ.e. áhættulánin. Menn hafa oft og tíðum verið að rugla þessu saman á undanförnum árum og ætlast til mikils meira af þeim sjóðum sem starfandi eru og hafa átt að starfa í hefðbundinni langtímalánastarfsemi, þ.e. að þeir kæmu líka inn í áhættufjármögnunina sem þeir hafa ekki haft lagalegar heimildir til að gera en hafa þó verið með tilburði til þess í gegnum styrki og annað slíkt.

Ég tók mjög fljótlega eftir því þegar ég byrjaði í mínu starfi að það var nauðsynlegt --- það er ekki bara að menn taki eftir slíku fyrir kosningar. Þeir sem þekkja til í atvinnulífinu vita að það er full þörf fyrir stuðning við nýjar hugmyndir í vöruþróun, í markaðssetningu, í tækniyfirfærslu og þar fram eftir götunum sem atvinnulífið hefur lengi þráð að geta fengið aðstoð við að koma á fót. Þess vegna, meðan menn hafa verið að bíða eftir, ég segi bíða eftir þessari heildaruppstokkun á sjóðakerfinu, þá fór iðnrn. í samvinnu við Iðnlánasjóð, Iðnþróunarsjóð og Iðntæknistofnun út í svokallað átaksverkefni til atvinnusköpunar þar sem stuðningsaðgerðir þessara lánasjóða, ráðuneytisins og Iðntæknistofnunar í gegnum tíðina voru samræmdar, settar í einn farveg. Fulltrúum þessara sjóða og Iðntæknistofnun var fengið það hlutverk að sjá um framkvæmdina fyrir hönd allra þessara aðila. Einstaklingar sem leita til þessara sjóða verða því ekki sendir frá einum stað til annars og sagt: Þú getur hugsanlega leitað fyrir þér hér eða farið eitthvert annað og kannað hvort þú getir ekki fengið þessa fyrirgreiðslu þar.

Nú eru einar dyr að öllum þessum stuðningsaðgerðum. Það er einn einstaklingur sem tekur á móti öllum sem þarna koma, veitir aðstoð og veitir mönnum leiðbeiningar um hvert þeir skuli snúa sér. Síðan er það Iðntæknistofnun sem leggur mat á þær hugmyndir sem þarna eru á ferðinni. Þetta er tímabundin ráðstöfun. Hún er tímabundin vegna þess að það eru uppi áform um að breyta því fyrirkomulagi sem við höfum búið við í mjög langan tíma, fjárfestingarlánasjóðakerfinu og skipta því upp þannig að annars vegar sé um hefðbundna lánastarfsemi á markaðskjörum að ræða og svo hins vegar svokallaða áhættulánastarfsemi þar sem nýsköpun í atvinnulífinu er veittur forgangur.

Hv. þm. Svavar Gestsson kom inn á og það gerði einnig hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, hvernig væri staðið að þessu áhættumati. Eins og ég gat um eða reyndi a.m.k. að skýra í mínu svari áðan, þá er það umdeilanlegt og ég tek undir það með hv. þm., að það er útilokað að segja til um það hvað menn þurfa að leggja til hliðar í hugsanlega áhættu af því að lána út á mismunandi góð verkefni. Það sem mönnum sýnist í upphafi að sé kannski alveg vonlaust getur þegar betur er að gáð bara skilað býsna góðri útkomu, en það sem mönnum sýnist hins vegar vera gott getur hins vegar reynst vonlaust þegar á reynir. Þarna mun því reynslan ein skera úr um hvað skynsamlegt sé að leggja til hliðar til þess að mæta hugsanlegum áföllum og töpum sem af þessari starfsemi geta hlotist. Hins vegar reyna menn a.m.k. að nota reynsluna sem fengin er í starfsemi Byggðastofnunar í þessum efnum. Ég ætla ekki að fullyrða að hún sé hinn algildi sannleikur, síður en svo. Það er aðeins verið að styðjast við það sem menn hafa örlitla reynslu af.

Af því að ég hef nú svar við einni þeirra spurninga sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði, þ.e. hverjir sætu í þessari ráðgjafarnefnd, þá er hún skipuð Halldóri J. Kristjánssyni, skrifstofustjóra í iðn.- og viðskrn., sem er formaður, Gunnari Svavarssyni forstjóra Hampiðjunnar, Öldu Möller, Gylfa Arnbjörnssyni og Snorra Péturssyni. Þarna hefur verið reynt að fá til starfs fólk með mismunandi bakgrunn úr atvinnulífinu og úr verkalýðshreyfingunni, en fyrst og fremst hefur verið miðað við það að fá þá einstaklinga sem menn telja að hafi yfir þekkingu að búa og reynslu á þessu sviði.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði hvað liði þeim áformum sem hér var talað um þegar verið var að staðfesta samninginn um stækkun álversins í Straumsvík, hvað liði undirbúningi að því að hefja frekari úrvinnslu á áli. Í álverinu eru framleidd um 100 þús. tonn af áli. Til skamms tíma hefur eitt tonn af þessum 100 þúsund tonnum verið notað innan lands. Það dapurt hversu lítill hluti er í raun og veru af þessu notaður.

Hins vegar kom mér dálítið á óvart þegar ég var staddur úti í Þýskalandi ... (Forseti hringir.) --- Virðulegi forseti, ég skal mjög fljótt ljúka máli mínu ef ég má taka kannski hálfa mínútu til að ljúka svari mínu. --- Ég var staddur úti í Þýskalandi og heimsótti þar stærstu álvölsunarverksmiðju í heimi þar sem flugu í loftunum 30 þúsund tonna álklumpar. Verksmiðjan var á 150 hekturum þannig að ég velti því mjög fyrir mér, eftir að hafa heimsótt hana og farið í gegnum það sem þar var að gerast, hvort við ættum einhverja möguleika á því að taka upp ámóta starfsemi hér. En það var fullyrt að þessi stærð, þessi tækni sem þarna var viðhöfð, þessi mikla fjárfesting sem þarna var komin saman, væri forsenda fyrir því að menn hefðu einhvern möguleika á úrvinnslu á áli. Nú er ég ekki að afskrifa það, síður en svo. Það verður sett í gang starf á vegum iðnrn. að kanna hvaða möguleika við eigum þarna.