Iðnþróunarsjóður

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 17:43:22 (5405)

1996-04-30 17:43:22# 120. lþ. 128.5 fundur 487. mál: #A Iðnþróunarsjóður# (gildistími o.fl.) frv. 63/1996, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[17:43]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem hér kom fram hjá hv. þm. að þær fréttir sem hann hafði af því að verið væri að kanna möguleika á því hvort hægt væri að nýta stálverksmiðjuna með einhverjum hætti eiga við rök að styðjast. Erlendir aðilar í tengslum við viðskrn. og fleiri aðila hafa hagsmuna að gæta af því að það sé hægt að koma þessu fyrirtæki aftur í rekstur og það er verið að skoða það akkúrat um þessar mundir mjög alvarlega hvort þau tækifæri séu til staðar.

Það er hins vegar svo með það mál eins og svo mörg önnur að þau eru auðvitað ekki í hendi fyrr en um þau hafa verið gerðir samningar. Ótal fyrirspurnir berast um marga góða hluti. Við þekkjum það og af því hafa flestir reynslu, að ekkert af þessu er raunverulega í hendi fyrr en undir hefur verið skrifað.

Ég vonast til þess að þarna sé tækifæri og það muni ganga eftir en framtíðin muni skera úr um hvort svo verður.