Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 21:13:32 (5413)

1996-04-30 21:13:32# 120. lþ. 128.7 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, Frsm. meiri hluta SP
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[21:13]

Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa átt sér stað um þetta mikilvæga mál. Það er búið að gera grein fyrir tveimur minnihlutaálitum allshn., þ.e. frá 1. minni hluta og 2. minni hluta og mun ég koma að því á eftir að ræða þau álit. Fyrst varðandi ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, vil ég, virðulegi forseti, benda sérstaklega á umsögn heilbr.- og trn. sem er birt sem fskj. með þessu nefndaráliti. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Í 4. gr. frumvarpsins kemur fram sú regla að heilbrigðisstarfsfólki sé skylt að tryggja kynfrumugjafa nafnleynd. Nokkur umræða spannst um þetta ákvæði í nefndinni og voru skoðanir nefndarmanna skiptar. Ljóst er að taka þarf mið af mörgum atriðum þegar metið er hvort gjafa skuli tryggð nafnleynd eða ekki. Ber þar fyrst að nefna hagsmuni barnsins, en skv. 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem Ísland er aðili að, á hvert barn rétt til að þekkja foreldra sína eftir því sem unnt er. Einnig má benda á hættuna á skyldleikatengslum í svo litlu samfélagi ef annað foreldri er ekki þekkt. Mismunandi skoðanir hafa verið uppi um það hvort og hvernig nafnleynd hefur áhrif á fjölda kynfrumugjafa. Hjá viðmælendum nefndarinnar kom fram að það að létta af nafnleynd hefði líklega í för með sér fjölgun eggfrumugjafa en aftur á móti færri sæðisgjafa. Í ljósi þessa mælir heilbrigðis- og trygginganefnd með því að í stað þeirrar eindregnu nafnleyndar sem frumvarpið mælir fyrir um fái kynfrumugjafi að ráða því hvort nafni hans er haldið leyndu eða ekki.``

[21:15]

Þetta er sú tillaga sem allshn. gerir að sinni og ég held að það sé rétt hjá mér að upplýsa það hér að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir skrifar undir þessa umsögn og hún er jafnframt varaformaður heilbr.- og trn.

Þá er líka rétt að draga það fram að í þessari umsögn frá heilbr.- og trn. er bent á nauðsyn þess að komið verði á fót fjölskylduráðgjöf þar sem fólk geti m.a. leitað upplýsinga um rétt sinn og pör fengið hjálp við að vinna úr þeim andlegu vandamálum sem meðferðin getur haft í för með sér eins og segir í umsögninni. Allshn. fór líka sérstaklega að þessum tilmælum heilbr.- og trn.

Að öðrum ummælum hv. síðasta ræðumanns mun ég koma í sambandi við það minnihlutaálit sem hún vitnaði til.

Ef við lítum fyrst á brtt. frá 1. minni hluta allshn., hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur, þá lúta þær að tveimur atriðum. Annars vegar að breyta frv. þannig að einhleypum og samkynhneigðum konum verði opnaður aðgangur að tæknifrjóvgunarmeðferð og er því haldið fram að um brot á jafnræðisreglu geti verið að ræða ef aðgangur að þessari meðferð verði takmarkaður við par, karl og konu í hjúskap eða sambúð. Hins vegar að orðalagi sé breytt til að undirstrika að það sé val kynfrumuþega sem ráði úrslitum um það hvort nafnleynd ríki eða ekki en ekki kynfrumugjafa.

Ég hef áður er ég mælti fyrir nefndaráliti meiri hluta allshn. komið að þessu máli en vildi þó benda sérstaklega á að þeim breytingum sem lagðar eru til við 3. gr. er ætlað að tryggja aðgang einhleypra kvenna og samkynhneigðra kvenna í sambúð við tæknifrjóvgun. Þess vegna er lagt til að í a-, b- og c-lið greinarinnar komi orðin væntanlegir foreldrar í stað orðsins ,,par``. En samkvæmt íslenskri orðabók Menningarsjóðs er merking orðsins ,,foreldrar`` faðir og móðir. Með því að setja orðin væntanlegir foreldrar í stað orðsins ,,par`` er því í raun ekki verið að leggja til neina efnislega breytingu á 3. gr. frv. því að væntanlegir foreldrar geta samkvæmt eðlilegum málsskilningi aldrei verið aðrir en faðir og móðir. Samkynhneigðar konur sem eru í sambúð gætu þannig aldrei fallið undir þetta orðalag ákvæðisins og því síður einhleyp kona. Af brtt. leiðir á hinn bóginn að engin skilyrði eru gerð um lengd sambúðar parins eða foreldranna.

Þá er lögð til breyting á d-lið 3. gr. þannig að í stað þess að ófrjósemi sé skilyrði aðgangs að tæknifrjóvgunarmeðferð skuli læknisfræðileg eða félagsleg rök fyrir aðgerðinni vera fullnægjandi að mati faglegra ráðgjafa og læknis. Sömuleiðis eru lagðar til breytingar á 5. og 6. gr. þess efnis að orðinu ,,félagslegur`` verði skotið inn sem réttlætingu tæknifrjóvgunar. Væntanlega er talið að þetta orðalag opni fyrir tæknifrjóvgunarmeðferð samkynhneigðra og einhleypra kvenna en það er erfitt að sjá þessi rök.

Þessar brtt. ná varla tilgangi flutningsmanns. Það sem þær fela í sér eru í fyrsta lagi að skilyrði um tiltekna lengd sambúðar eða hjúskapar konu og karls sem óska eftir tæknifrjóvgunarmeðferð eru felld niður og í öðru lagi að opnað er fyrir aðgang konu og karls að tæknifrjóvgunarmeðferð af félagslegum ástæðum.

Um tillögur um breytingar á 4. gr. er í rauninni ekki ástæða til að fjalla sérstaklega um þar sem sú tillaga er hin sama og brtt. meiri hluta allshn. en hún byggir m.a. á þeirri trú að framboð og eftirspurn eftir gjafakynfrumum sé ótakmarkað og að kynfrumuþegi eigi óhindrað val á kynfrumum frá gjöfum sem óska ekki eftir nafnleynd. En raunveruleikinn er því miður annar ef menn vilja horfast í augu við hann.

Þá kem ég að breytingartillögum frá 2. minni hluta allshn. Breytingartillögurnar lúta að einu atriði. Það er að veita einstaklingi sem verður til við tæknifrjóvgun með gjafakynfrumum óheftan aðgang að upplýsingum um uppruna sinn. Í nefndaráliti er þó sagt að kynfrumugjafi geti óskað eftir nafnleynd en hún skuli samt aldrei koma í veg fyrir þennan rétt barnsins. Einhvern veginn gengur þetta ekki upp. Ef kynfrumugjafi óskar eftir nafnleynd og hefur heimild til þess samkvæmt lögum hlýtur sá réttur hans að víkja til hliðar rétti barnsins til óhefts aðgangs að upplýsingum um uppruna sinn. Heimild til að óska eftir nafnleynd og óheftur aðgangur að upplýsingum um uppruna eru því tvö ósamrýmanleg atriði.

Í þessu minnihlutaáliti eru tilgreind tvenns konar rök, aðallega gegn nafnleynd kynfrumugjafa. Annars vegar mannréttindarök og hins vegar erfðalækningarök. Við skulum líta á þessi atriði. Í nefndaráliti er fullyrt að réttarþróun í Evrópu sé tvímælalaust sú að nafnleynd gagnvart þeim sem verður til við kynfrumugjöf verði aflétt. Ég veit ekki til hvaða réttarþróunar er verið að vísa hér. Einu löndin í Evrópu sem vitað er með vissu að banni nafnleynd eru Svíþjóð og Sviss. Lögin í Svíþjóð eru frá árinu 1987 og svissnesk lög sem útfæra stjórnarskrárákvæði sem túlka má sem bann við nafnleynd hafa ekki verið sett en munu nú vera til meðferðar í svissneska þinginu. Réttarþróun í Evrópu er þessi eftir þeim upplýsingum sem ég veit bestar:

Árið 1990 voru sett lög í Bretlandi. Þar gildir nafnleynd þótt heimilt sé að framkvæma tæknifrjóvgun með kynfrumum frá þekktum gjafa. Um svipað leyti voru lög í Hollandi á þessu sviði endurskoðuð. Þau banna eggfrumugjöf en sæðisgjöf er heimil og engar takmarkanir settar varðandi þá meðferð sem væntanlega þýðir m.a. að nafnleynd er heimil en meðferð með sæði frá þekktum gjafa einnig heimil. Þarna er um ákveðinn valmöguleika að ræða.

Árið 1991 gengu í gildi ný lög í sameinuðu Þýskalandi um þetta efni. Þau banna eggfrumugjöf og eru að ýmsu leyti þau ströngustu sem þekkjast á þessu sviði. Af þeim upplýsingum sem ég fékk í hendur er ekki hægt að sjá hvort sæðisgjöf sé bönnuð nema frá þekktum gjöfum en allar upplýsingar sem ég hef fengið um löggjöf í Evrópu nefna ekki Þýskaland sem dæmi um land þar sem nafnleynd er bönnuð.

Norðmenn endurskoðuðu lög sín á þessu sviði árið 1994. Þar voru óbreytt ákvæði sem tryggðu sæðisgjafa nafnleynd en eggfrumugjöf er bönnuð. Finnar hafa undirbúið lagasetningu á þessu sviði án þess þó að lög hafi enn verið sett. Í þeim tillögum sem gerðar hafa verið er gert ráð fyrir nafnleynd kynfrumugjafa. Þessa dagana er til meðferðar í Danmörku frv. til laga um tæknifrjóvgun. Þar var því sérstaklega hafnað að aflétta nafnleynd.

Þetta eru þær upplýsingar sem ég hef fengið og koma þær greinilega ekki heim og saman við ræðu hv. þm. Hjálmars Jónssonar áðan um það hvernig tekið er pólitískt á því máli í danska þinginu. Í stuttu máli er það þá þannig að ef hægt er að segja eitthvað um réttarþróun í Evrópu þá er hún ekki í þá veru að aflétta nafnleynd samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið, heldur þvert á móti að viðhalda nafnleynd og í einhverjum tilvikum að heimila bæði meðferð með kynfrumum frá þekktum og óþekktum gjöfum. Málamiðlunartillaga allshn. virðist því vera í einna bestu samræmi við réttarþróunina í Evrópu.

Í þessu sambandi vil ég líka vitna til umsagnar frá laganefnd Lögmannafélags Íslands sem hv. þm. Hjálmar Jónsson vitnaði til. Ég hef áður nefnt það að réttarþróun í Evrópu er einmitt að opna valmöguleika fyrir nafnleynd, ekki síst með tilliti til eggfrumugjafar. Þess vegna er þetta orðalag í umsögn Lögmannafélagsins eða laganefndar LMFÍ um að tillaga um valmöguleika sé ótæk afar sérstakt. Ekki síst þegar litið er til þess að umsögnin berst til nefndarinnar löngu eftir að málið er afgreitt út úr allshn. Það vekur að sjálfsögðu nokkra furðu því að laganefnd Lögmannafélagsins sendir alloft umsagnir til allshn. og yfirleitt eru það mjög vandaðar umsagnir sem mikið tillit er tekið til. En það er sem sé rétt að hafa í huga að það getur í raun og veru enginn annar ákveðið þetta val en kynfrumugjafi sjálfur. Hann tekur að sjálfsögðu sjálfur þá ákvörðun hvort hann gefur kynfrumu. Það er enginn annar sem getur tekið þá ákvörðun fyrir hann.

Það hefur líka verið fullyrt að nafnleyndarákvæði séu ekki í lögum um tæknifrjóvgun í Svíþjóð, Sviss, Spáni, Hollandi og Þýskalandi eins og ég hef áður vikið að. Varðandi Sviss er rétt að ítreka að það er ekki búið að setja lög um útfærslu banns við nafnleynd sem sett voru inn í stjórnarskrána fyrir nokkrum missirum. En fyrir liggur að stjórnarskrárákvæðið var orðað með þeim hætti að bann við nafnleynd gæti orðið erfitt í framkvæmd samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið.

Varðandi spænsk lög um þessi efni er sérstaklega tekið fram að um kynfrumugjöf skuli gilda nafnleynd. Börn sem verða til með þessum hætti eiga á hinn bóginn rétt á almennum upplýsingum með gjafann en þó aldrei um það hver hann sé. Virðast þessar reglur því sambærilegar þeim sem gilda hjá Bretum. Ég nefndi áðan Þýskaland og Holland og tel ákaflega ólíklegt að þar sé í lögum fortakslaust bann við nafnleynd.

Því hefur líka verið haldið fram í umræðunni að það séu mannréttindi að eiga þess kost að þekkja uppruna sinn og það má að sjálfsögðu til sanns vegar færa. En hvers vegna á að gera ríkari kröfur í þessu sambandi vegna barna sem getin eru með tæknifrjóvgun? Vitað er að faðerni barna er ekki einhlítt. Faðernisregla barnalaga hefur það í för með sér að eiginmaður móður telst sjálfkrafa faðir barns sem hún fæðir. Í flestum tilvikum er sá maður jafnframt líffræðilegur faðir barnsins en þó ekki öllum. Gerðar hafa verið rannsóknir erlendis sem benda til að allt að 10% barna séu rangt feðruð. Engar kvaðir eru lagðar á mæður að gera börnum sínum, hvað þá heldur eiginmanni, grein fyrir réttu faðerni barnanna. Engin lagaákvæði skylda ógifta konu sem elur barn til að gefa upp nafn föður. Hver eru mannréttindi þessara barna til að vita um uppruna sinn? Eiga ekki röksemdir um nauðsyn upplýsinga vegna sjúkdóma og erfða jafnt við um þessi börn og börn sem getin eru með gjafakynfrumum?

Það hefur einnig verið minnst á börn sem hafa verið ættleidd og fósturbörn. Það er ekki hægt að bera saman börn sem eru í þeim sporum og börn sem getin eru á þann hátt sem frv. fjallar um. Þar að auki er alveg ljóst að það hafa fengist allar upplýsingar um uppruna barna og foreldra í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu um langan tíma, a.m.k. rúm 10 ár. Þar eru því ekki nein leyndarmál á ferðinni.

Það er líka vikið að því í áliti 2. minni hluta að erfðalækningar séu önnur meginrökin fyrir afléttingu nafnleyndar. Það hefur áður verið vikið að því að erfðalækningar og rétt faðerni geta verið vandamál hjá fleirum en þeim sem getnir eru með gjafakynfrumum. Það er rétt á eftir, virðulegi forseti, að víkja aðeins frekar að röksemdum meiri hluta norska þingsins er það hafði til meðferðar frv. til laga um tæknifrjóvgun fyrir tveimur árum. Þar höfðu menn einnig áhyggjur af erfðalækningum en töldu að rækilegar rannsóknir á gjöfum fyrir kynfrumugjöf mundu tryggja að slíkar áhyggjur ættu að verða óþarfar.

[21:30]

Í þessu sama áliti er líka réttilega bent á að ófrjósemi sé vaxandi vandamál. Framkvæmd tæknifrjóvgunar hefur á hinn bóginn stuðlað að örum framförum í skilingi manna á ófrjósemi og bættar aðferðir til að nota kynfrumur parsins. Þetta er mjög mikilvægt atriði. Nefna má smásjárfrjóvgun sem dæmi í þessu sambandi. Sú aðferð hefur þróast vegna vaxandi ásóknar í tæknifrjóvgun. Fái þessi tækni að vaxa og dafna bendir allt til þess að sú aukna vitneskja um orsakir ófrjósemi sem aflast vegna framkvæmdarmeðferðarinnar muni leiða til að í síauknum mæli verði hægt að nota kynfrumur parsins og það er að sjálfsögðu mjög ákjósanlegt. En til þess að svo verði er nauðsynlegt að tæknifrjóvgunarmeðferð sé framkvæmd. Ef nafnleynd verður aflétt er hætt við að tæknifrjóvgun dragist verulega saman og legðist jafnvel af, a.m.k. hjá þeim pörum sem þurfa á gjafakynfrumum að halda. Jafnframt er hætt við að barnlaus pör sem þurfa á gjafakynfrumum að halda vegna ófrjósemi sinnar muni á ný sækja þessa meðferð til þeirra landa þar sem nafnleynd er viðhöfð og framboð á gjafakynfrumum því nægilegt. Þetta var reynsla Svía þegar þeir breyttu reglum sínum.

Því er haldið fram að fjöldi aðgerða með gjafasæði í Svíþjóð hafi orðið aðeins einn fimmti sem áður var strax eftir breytinguna á lögunum. Hætt er við að fljótt myndaðist þrýstingur á stjórnvöld frá þessum pörum um að sjúkratryggingar tækju þátt í kostnaði við meðferð erlendis. Sömuleiðis yrði kostnaður þessara para talsvert meiri en við sambærilega meðferð hér á landi því að meðferð af þessu tagi kallar á allt að sex vikna dvöl erlendis með tilheyrandi tekjutapi vegna fjarveru frá vinnu. Eftir því sem ég best veit er fjarvera frá vinnu vegna tæknifrjóvgunarmeðferðar er almennt ekki talin til veikinda þó að samið hafi verið um slíkt í nokkrum kjarasamningum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta nefndarálit 2. minni hluta né heldur brtt. en vísa til þess sem ég hef sagt á undan að í henni er þversögn sem gengur ekki upp, þ.e. að gjafi geti óskað eftir nafnleynd sem heilbrigðisstarfsfólki sé skylt að tryggja en samt geti barnið fengið upplýsingar um hver gjafinn sé.

Virðulegi forseti. Ég held að það væri rétt svona í lokin að rifja aðeins upp umfjöllun í norska þinginu við meðferð tæknifrjóvgunarfrv. þar veturinn 1993--1994 þar sem þar er um nýsett lög að ræða. Meiri hluti þingmanna taldi nauðsynlegt að áfram yrði hægt að bjóða upp á tæknifrjóvgun með gjafasæði en að nauðsynleg forsenda þess að unnt yrði að bjóða áfram slíka meðferð væri að viðhalda nafnleynd sæðisgjafa. Bent er á að nafnleynd sæðisgjafa hafi tíðkast í Noregi í 50 ár og að megnið af því sæði sem notað sé komi frá Danmörku. Meiri hlutinn taldi að ef fallið yrði frá nafnleynd mundi framboð á sæðisgjöfum minnka verulega. Það mundi hafa í för með sér að konur færu til útlanda til þess að leita sér þessarar meðferðar sem þýddi að konur leituðu í meðferð sem heilbrigðisyfirvöld hefðu ekkert um að segja, m.a. og ekki síst með tilliti til möguleika á smitsjúkdómum. Þá er einnig talið að hin langa reynsla af sæðisgjöfum með nafnleynd hefði sýnt að nafnleyndinni fylgdu ekki vandamál hjá þeim einstaklingum sem fæðst hefðu í kjölfar slíkrar sæðisgjafar. Jafnframt benti meiri hlutinn á að skilnaður meðal hjóna sem færu í tæknisæðingu væru fátíðir.

Þá var einnig bent á það að hagsmuna barnsins væri best gætt með því að viðhalda nafnleynd. Ef nafnleynd væri aflétt gæti það haft í för með sér breytingar á sambandi barns og félagslegs föður með afleiðingu sem ekki væri hægt að sjá fyrir endann á. Félagslegur faðir barnsins bæri allar skyldur og ætti réttindi gagnvart barninu. Gjafinn hefði aldrei átt neina ósk um að eignast barn heldur ósk um að aðstoða hið barnlausa par. Það væri þá óeðlilegt að líkja saman nafnlausum sæðisgjafa og líffræðilegu foreldri sem af einhverjum sérstökum ástæðum sem oft væri af erfiðum félagslegum toga hefði gefið barn frá sér til ættleiðingar.

Þá var einnig bent á af meiri hluta nefndarinnar að hann hefði orðið var við að ýmsir ættu bágt með að sætta sig við það að með því að tryggja gjafa nafnleynd væri yfirvöldum jafnframt gert ókleift að upplýsa um ýmsa heilsufarsþætti gjafans. Meiri hlutinn taldi að í einhverjum algerum undantekningartilvikum gæti verið æskilegt að geta aflað heilsufarsupplýsinga um gjafann en benti á að draga mætti verulega úr slíkri þörf með því að láta hugsanlega sæðisgjafa undirgangast ýmis heilsufarspróf áður en að sæðisgjöf kæmi. Röksemdir minni hlutans byggðu á mannréttindarökum, þ.e. að barnið ætti rétt á því að vita um uppruna sinn. Það er því ljóst að slík umræða sem þessi sem hér hefur átt sér stað í dag og í kvöld um þetta frv. hefur átt sér stað í fleiri löggjafarþingum og er það mjög eðlilegt að mínu mati.

Eins og ég sagði áðan þegar ég mælti fyrir nefndaráliti meiri hluta allshn. lagði ég áherslu á að meiri hluti nefndarinnar taldi rétt að fara varlega af stað en hún vildi þó koma til móts við þau sjónarmið sem vitað var að ýmsir hv. þingmenn höfðu á hinu háa Alþingi og líka sjónarmið sem kæmu fram í umsögnum og lögðu því til þennan valmöguleika sem nokkurs konar málamiðlun þannig að þar væri stigið skref í rétta átt. Hv. þm. Hjálmar Jónsson vék að því fyrr í ræðu sinni að hann teldi það hugsanlegt að rétt væri að skoða þetta mál betur og allshn. mundi e.t.v. leggja til endurskoðunarákvæðin í frv. Ég tel að það megi alveg skoða það mál og vísa til þess að ég tók það sérstaklega fram í framsögu minni fyrr í dag og þessi ábending kemur einnig fram í bréfi lækna kvennadeildarinnar sem ég gerði líka grein fyrir í dag.

Virðulegi forseti. Ég veit að þetta er orðið allnokkuð langt mál. Það er ljóst að það eru skiptar skoðanir. Ég taldi þó rétt að koma fram með fróðleik í þessu máli þar sem allshn. hefur eytt mjög löngum tíma til þess að fara mjög vandlega yfir það og ég hygg að þegar menn skoða málið ofan í kjölinn sé það kannski ekki eins einfalt og sumum virðist að taka afstöðu til þess hvort ríkja skuli nafnleynd eða ekki. Ég vona svo sannarlega að málinu verði vel tekið og þingmenn sýni skilning á því sem hér er um að ræða og við getum náð samkomulagi um að afgreiða það þannig að vel sé.