Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 21:42:19 (5418)

1996-04-30 21:42:19# 120. lþ. 128.7 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, Frsm. 1. minni hluta GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[21:42]

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Guðný Guðbjörnsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þó að hv. formaður allshn. finni að hún er talsmaður úreltra viðhorfa í þessu máli er einum of langt gengið að fara út í málfarslegar hártoganir og segja að þær breytingartillögur sem 1. minni hluti flytur á þskj. 826 nái ekki tilgangi sínum, nefnilega þær að opna fyrir möguleika á tæknifrjóvgun fyrir einhleypar konur og samkynhneigðar, heldur opni það bara fyrir pör af félagslegum ástæðum. Rök hennar eru þau að foreldrar þýði faðir og móðir. Það er alveg rétt en hvað þýðir foreldri? Foreldri þýðir væntanlega móðir eða faðir þannig að það orðalag sem þarna er gengur alveg fullkomlega og ef þessi málskilningur er ekki hennar spyr ég hana hvort við hérna inni erum ekki foreldrar eða hvort hún telji að börn einstæðra mæðra séu öll munaðarlaus eða foreldralaus.

Varðandi hitt atriðið í 5. og 6. gr. nefni ég félagslegar ástæður og því bæti ég við vegna þess að það er ekki alveg ljóst hvort kynhneigð er af líffræðilegum eða félagslegum toga þannig að ég mótmæli því eindregið að þessar brtt. sem 1. meiri hlutinn flytur standist ekki.