Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 21:44:27 (5420)

1996-04-30 21:44:27# 120. lþ. 128.7 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, Frsm. 2. minni hluta HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[21:44]

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Hjálmar Jónsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er sannarlega álitamál og er staðfest í þessari umræðu að álitamál er uppi. Það væri líka meiri háttar stærilæti ef einhver hér teldi sig hafa allan sannleikann í sínum höndum.

Formaður allshn., hv. þm. Sólveig Pétursdóttir, nefndi það áðan að þversögn væri í brtt. 2. minni hluta. Það sýnir enn að við þurfum að fara betur yfir málið því að hún hefur hreinlega misskilið brtt. 2. minni hluta. Það sem átt er við er það að óski gjafi eftir nafnleynd er heilbrigðisstarfsfólki skylt að tryggja að hún verði virt, sbr. þó 5. mgr., þ.e. það á að tryggja gagnvart öllum öðrum en þeim sem verður til fyrir kynfrumugjöf, nafnleyndina, og hún verði virt. Sem sagt kynfrumugjafi er orð sem á við hvorn tveggja, eggfrumugjafa og sæðisfrumugjafa. Eins og fram kom í hennar máli mundu konur sjálfsagt vera fúsari að gefa en karlar ófúsari þannig að hlutföllin mundu eitthvað breytast en þarna er einfaldlega átt við þetta og í nál. 2. minni hluta segir orðrétt: ,,Sé þess óskað er sjálfsagt og eðlilegt að tryggð sé nafnleynd gagnvart öllum öðrum en þeim einstaklingi sem þannig er til kominn.``