Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 21:54:50 (5428)

1996-04-30 21:54:50# 120. lþ. 128.9 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 308. mál: #A réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands# (erlend eignaraðild að skipum) frv. 53/1996, JBH
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[21:54]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Virðulegi forseti. Við tökum hér umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Þetta mál hefur verið rætt ítarlega við 1. umr. og fengið ítarlega umfjöllun í efh.- og viðskn. Tilefnið er það að fyrir hinu háa Alþingi hafa legið þrjár tillögur í þessu máli. Í fyrsta lagi var fjallað um mál á þskj. 242. Flutningsmenn voru hv. þm. Ágúst Einarsson og Svanfríður Jónasdóttir, fulltrúar Þjóðvaka. Þar var gert ráð fyrir að heimila erlendum aðilum að eiga allt að 20% hlut í fyrirtækjum sem vinna sjávarafurðir hér á landi og/eða stunda fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Annað málið var stjfrv. um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri þar sem gert er ráð fyrir að heimiluð sé óbein eignaraðild útlendinga í íslenskum sjávarútvegi auk annarra ákvæða. Þriðja stjfrv. og það sem ýmsum virtist við fyrstu sýn að gengi lengst í frjálsræðisátt var frv. um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, flutt af fjórum hv. þm. Sjálfstfl., þeim Kristjáni Pálssyni, Pétri Blöndal, Vilhjálmi Egilssyni og Guðjóni Guðmundssyni. Það frv. fjallaði efnislega um að heimila erlendum aðilum að eiga allt að 49% hlut í fyrirtækjum sem vinna sjávarafurðir hér á landi og/eða stunda fiskveiðar. Það er athyglisvert, herra forseti, að eftir alla þá umræðu sem þessi mál hafa fengið í þingsal og umfjöllun í efh. og viðskn. gerist það að þessir hv. fjórir þingmenn Sjálfstfl. og stjórnarliðar, sem slógu sig nokkuð til riddara í upphafi í umræðunni um frjálsræðisvilja sinn í þessum efnum, létu sér sæma að una því að tillaga þeirra fékk enga umfjöllun. Með öðrum orðum fluttu þeir tillöguna hér í þingsal en síðan er ekki annað vitað en að þeir sætti sig við það að hún falli dauð og ómerk og þeir styðji væntanlega þar af leiðandi hið upphaflega stjfrv. Þetta er einhver háðuglegasta útreið sem ég minnist þegar um er að ræða sjálfstætt þingmannafrumvarp fjögurra hv. þm. í máli sem er jafnstórt og þýðingarmikið og þetta mál vissulega er. Athyglisvert er að það er sjálfur hv. formaður efh.- og viðskn. sem er einn af flutningsmönnunum, situr síðan í forsæti sinnar virðulegu nefndar og verkstýrir því að þetta mál sé einfaldlega látið lognast út af.

[22:00]

Niðurstaðan er því sú af hálfu stjórnarliða að þeir halda fast við upphaflegu tillögu sína um minni háttar breytingu að því er varðar hina óbeinu eignaraðild sem var upphaflega lýst að væri fram sett til þess að gefa lagastoð nánast óbreyttu ástandi. Hins vegar er athyglisvert að umræðan hefur leitt í ljós að sá ótti sem mörgum bjó í brjósti vegna þess að hér væri verið að opna fyrir heimildir erlendra aðila til þess að leggja nánast undir sig fiskimiðin eða kaupa sig inn í fiskveiðar Íslendinga og þar með inn í auðlindina. Það eru rökin sem notuð eru fyrir því að ekki er unnt að ganga lengra en stjórnarfrv. gerir ráð fyrir. Umræðurnar hafa hins vegar leitt í ljós að þetta er afar yfirborðsleg skoðun. Það hefur verið sýnt fram á að útlendingar geta átt allt að 62% í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum með óbeinni eignaraðild. Það gerist þannig að erlendur aðili á 25% hlut í hlutafélagi sem á sjávarútvegsfyrirtæki. Það þýðir þá að íslenskur lögaðili á 75% hlut en það félag gæti verið í eigu erlendra aðila 49%. Ef menn eru að ræða um virka meirihlutaaðild, þ.e. forræði yfir fyrirtæki sem nýtir auðlindina, stundar fiskveiðar, þá fer ekkert milli mála að það meinta hald sem á að vera í 20% ákvæðinu að því er varðar óbeina eignaraðild heldur engan veginn. Það er því svo að ef um væri að ræða verulegan áhuga erlendra fjárfesta á að festa fé væntanlega af hagnaðarástæðum eða öðrum hagkvæmnisástæðum í fyrirtækjum sem nýta auðlindina, þá geta þau gert það löglega ef leið hinnar óbeinu eignaraðildar er farin. Ókostirnir við það eru hins vegar margvíslegir vegna þess að þetta er flóknari leið. Hún er ekki eins sýnileg ef menn vilja hafa eftirlit með og framkvæmd eða einhverja stýringu á því. Þess vegna eru öll rök fyrir því, ef þetta heldur ekki, að fara aðra leið og þá kannski ekki hvað síst þá leið sem boðuð var í frv. þeirra hv. þm. Ágústs Einarssonar og Svanfríðar Jónasdóttur sem fjallaði um beina eignaraðild allt að 20%, sem er sýnilegt, einfalt í framkvæmd, auðvelt að beita eftirliti og mætti gera út af fyrir sig í tilraunaskyni. En hver sem tillagan er þá hlýtur spurningin að vera þessi: Er nauðsynlegt að setja slík takmarkandi ákvæði? Og ef menn eru sammála um það út frá varfærnissjónarmiðum þá eru lagaákvæði um beina eignaraðild skýrari, ótvíræðari og skynsamlegri, heldur en sú leið sem hér er valin.

Reyndar er það afar þversagnarkennt í þessari umræðu um erlendar fjárfestingar að flestir hafa á orði að það sé brýn nauðsyn íslensku atvinnulífi að hvetja til erlendrar fjárfestingar. Menn setja það gjarnan í alþjóðlegt samhengi. Menn líta til þjóðanna í kringum okkur sem allar eru í kapphlaupi um að breyta lögum og reglum og starfsumhverfi fyrirtækja í þá átt að auðvelda innflutning á erlendu áhættufjármagni til að byggja upp nútímalegt atvinnulíf. Auðvitað lýtur það sínum lögmálum. Erlendir fjárfestar eru fyrst og fremst auðvitað að leita að tækifærum til að festa fé í arðvænlegum fjárfestingum. Ef við lítum á okkar tiltölulega einhæfa þjóðfélag þá skyldu menn ætla að það væri kannski ekki hvað síst áhugi á því að beina slíku fjárfestingarfjármagni í íslenskan sjávarútveg, þann atvinnuveg sem er þegar að mörgu leyti hvað mest alþjóðavæddur og framleiðir fyrir erlendan markað. Við stærum okkur af að reka ekki ríkisstyrktan eða niðurgreiddan sjávarútveg, að við séum ein af fáum þjóðum í heimi sem reka samkeppnishæfan sjávarútveg. Við slík skilyrði er væntanlega skynsamlegt út frá bæjardyrum okkar sjálfra að hvetja til þátttöku erlends fjármagns. Kostir þess eru margir og miklir. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru skuldug. Þau þurfa á því að halda að geta fengið beint áhættufjármagn inn í sinn rekstur fremur en vera ævinlega vísað á dýran lánamarkað. Þau hefðu hag af því að fá þátttöku erlendra aðila, ekki bara vegna samstarfs í markaðsmálum eða samstarfs um tækninýjungar, heldur einnig til að draga úr þeirri áhættu sem tengd er þessum rekstri því vissulega er þetta áhættusamur rekstur. Þetta leiðir til þess að menn spyrja: Ja, hvað á þá að gera ef það er ljóst að erlendir fjárfestar út af fyrir sig eiga þessa leið, að þær girðingar sem hér er að nafninu til verið að reisa halda ekki? Hvað heldur þá aftur af þessum aðilum? Auðvitað felst í þessum lagaramma skilaboð um að íslensk stjórnvöld telji þetta varasamt og óæskilegt. Það kann út af fyrir sig að hafa sín áhrif. En aðalspurningin er þó þessi Ef þetta er í raun og veru eins opið og umræðan hefur leitt í ljós, hvað er þá til ráða ef íslensk stjórnvöld vilja gera það sem unnt er til að koma í veg fyrir að erlendir aðilar geti náð forræði á auðlindinni sjálfri? Sannleikurinn er sá að þá beinist umræðan að sjálfsögðu að þeim lögum sem gilda um auðlindina. Um það telst vera nokkur sátt í íslensku þjóðfélagi að menn vilja framfylgja gildandi lögum sem kveða á um sameign þjóðarinnar á auðlindinni sjálfri, á fiskimiðunum í kringum Ísland. Með öðrum orðum, löggjafinn hefur lýst því yfir að auðlindin sé sameign þjóðarinnar. Við viðurkennum ekki einkaeignarréttinn. Og ef við viljum tryggja virkt forræði þjóðarinnar yfir þessari auðlind þá virðist ekki vera annað til ráða en að horfast í augu við þá staðreynd að það beri að gera með því að taka veiðileyfagjald fyrir aðganginn að auðlindinni sjálfri. Ef það er gert þá skiptir út af fyrir sig miklu minna máli hvernig fyrir er komið lagaákvæðum um eignarhald þeirra fyrirtækja sem síðan fá afnotarétt eða ráðstöfunarrétt gegn gjaldi að auðlindinni.

Þessi umræða sýnir að hér er verið að deila um keisarans skegg. Deilan á ekki að snúast um prósentutölur eignaraðildar þessara fyrirtækja eða ímyndaðar girðingar sem við viljum reisa til að hamla gegn innstreymi erlends fjármagns inn í greinina. Spurningin er um það hvernig við ætlum að tryggja með virkum hætti að þjóðin njóti arðs af þeirri auðlind sem lögin kveða á um að sé í hennar eigu. Þá á það við hvort heldur að fyrirtæki telst vera íslenskur lögaðili að öllu leyti, að meiri hluta til, eða hvort það fjármagnar sig að sumu leyti með þátttöku erlends áhættufjármagns eða hvort það leitar á lánamarkað. Það eru aukaatriði málsins. Aðalatriðið er það að arðurinn af auðlindinni renni til réttra eigenda og forræðið, þ.e. valdið til að stýra því sem máli skiptir, sé í höndum þjóðarinnar sjálfrar.

Stundum hafa menn lýst þeim ótta sínum að útlend fyrirtæki sem komist inn í auðlindina geti vegna eðlis hennar þar með einfaldlega farið með óunninn afla úr landi og þar með atvinnuna úr landinu. Sannleikurinn er sá að löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið hafa tök á því að ráða því, þ.e. einfaldlega með lagaákvæðum um skyldu til að öllum afla sem veiðist á Íslandsmiðum sé landað á Íslandi. Ef þessi afli fer í vaxandi mæli um fiskmarkaði þá er það svo að erlendir aðilar geta út af fyrir sig gert viðskipti á fiskmörkuðum eins og hverjir aðrir. Það eru engar lagaskorður við því. En það fer ekki á milli mála að löggjafarvaldið getur tryggt löndunarskylduna og þannig búið í haginn fyrir það að frekari úrvinnsla fari hér fram og þar með komið með ótvíræðum hætti í veg fyrir að óunninn fiskur fari úr landi og þar með að vinnan verði flutt úr landi. Um það snýst þetta mál. Þess vegna er það að við eigum að beina athygli okkar fyrst og fremst að málinu sjálfu. Annars vegar er það jákvætt fyrir íslensk fyrirtæki ef löggjafinn opnar í auknum mæli fyrir heimildir til þátttöku erlends áhættufjármagns. Niðurstaðan í því almennt séð er jákvæð að forræði stjórnvalda yfir ráðstöfun aflans tilskildu og jafnframt með því skilyrði að arðsemin renni til eiganda auðlindarinnar, t.d. í gegnum veiðileyfagjald. Ef þetta hvort tveggja er tryggt þá á umræðan hér fyrst og fremst að snúast um það hvort erlent áhættufjármagn er jákvætt eða neikvætt. Þess vegna er það, virðulegur forseti, að í nál. minni hlutans leggjum við fyrst og fremst áherslu á umræðuna um það hverjir kostirnir eru og hver rökin fyrir fjárfestingum útlendinga í íslenskum sjávarútvegi. Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta, á þessa leið:

,,Fyrirtæki geta sótt sér áhættufé og eru þá ekki eins háð erlendu lánsfé.``

Þegar menn ræða afkomu íslenskra fyrirtækja og batnandi horfur með aukinni hagræðingu, stöðugra gengi, bættri samkeppnisstöðu, þá staldra menn mjög við það hversu sokkinn í skuldir sjávarútvegurinn í heild var og er. Skuldirnar voru komnar vel yfir 100 milljarða kr. Þær hafa eitthvað minnkað á undanförnum missirum en þetta sýnir að sjávarútvegsfyrirtækin hafa í allt of ríkum mæli verið háð dýru erlendu lánsfé sem hefur allt sitt á þurru og tekur engan þátt í þeirri áhættu sem fylgir atvinnugreininni. Í annan stað segir hér, með leyfi forseta:

,,Fjárfestingar milli landa í einstökum atvinnugreinum eru mjög umfangsmiklar og mjög sjaldgæft að settar séu takmarkanir á slíkt.``

Við höfum reynslu af því hvaða hald er í slíkum takmörkunum. Upphaf þessa máls er að sjálfsögðu það að þegar við gerðum samninga við Evrópusambandið um markaðsaðgengi sjávarútvegs í tengslum við EES-samningana, þá var það gert að skilyrði fyrir þeim samningum að hinar almennu reglur EES-samningsins um frjálsan rétt til fjárfestinga án mismununar á grundvelli þjóðernis, giltu ekki að því er varðaði sjávarútveginn. Við settum afdráttarlaus skilyrði um bann við erlendum fjárfestingum í sjávarútvegi og fengum því framgengt. Evrópusambandið féllst á það. Evrópusambandið féllst einnig á þá meginkröfu okkar í þessum samningum að við féllumst ekki á að tengja á neinn hátt kröfu okkar um tollfrjálsan aðgang að mörkuðum Evrópusambandsins, gagnkröfu þeirra um aðgang að auðlindinni. Þeirri kröfu Evrópusambandsins var hafnað. Evrópusambandið féllst á að taka þær kröfur út af borðinu. Í staðinn komu samningar um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum í litlum mæli. Það er reyndar kapítuli út af fyrir sig hvernig gengið hefur að efna þá samninga.

Á það er bent í þessu nál., herra forseti, að Íslendingar hafa fjárfest sjálfir mikið í sjávarútvegsfyrirtækjum erlendis. Því er óeðlilegt að við höfum aðra stefnu þegar við fjárfestum erlendis en við heimilum hérlendis. Það er ástæða til að staldra við þetta atriði af þeirri einföldu ástæðu að þessi sókn íslensks sjávarútvegs út fyrir lögsögu Íslands, út á heimshöfin og í samstarfi við fjölmargar aðrar þjóðir í fjarlægum heimsálfum, hvort heldur er í Suður-Ameríku, Afríku eða Asíu, er til marks um þá byltingu sem átt hefur sér stað í sjávarútvegi á tiltölulega mjög skömmum tíma. Ástæðan er að sjálfsögðu sú að það hefur þrengt að sjávarútveginum innan lögsögunnar. Það hefur verið um að ræða verulegan samdrátt, ef ekki hrun, í nýtingu á helsta nytjastofninum. Á sama tíma þýðir það fiskveiðistjórnunarkerfi sem við styðjumst við að fyrirtækjum er gert kleift með framsalsrétti á veiðiheimildum að hagræða í veiðunum með því að færa veiðiheimildir milli skipa. Það hefur leitt til þess að skip verða í auknum mæli aflögu til að stunda veiðar utan lögsögunnar. Fjöldi þjóða hefur leitað til Íslendinga sem viðurkenndra sérfræðinga í fiskveiðum, þar sem framleiðni í íslensku atvinnulífi er hvað mest, hefur leitað eftir samningum við okkur um samstarf. Sá listi er orðinn langur og er til marks um það að þarna eru fjölmörg ábatasamleg tækifæri á grundvelli verkaskiptingar í heimsviðskiptum sem Íslendingar geta nýtt sér. Það eitt út af fyrir sig bendir til þess að það séu allt önnur viðhorf ríkjandi hjá stjórnvöldum í þessum löndum sem beinlínis sækjast eftir og hvetja þjóð eins og okkur til fjárfestinga en ríkjandi er hér heima fyrir. Og þessi tvíhyggja eða geðklofi sem lýsir sér í afstöðu íslenskra stjórnvalda varðandi annars vegar kröfuna um að loka sjávarútveginn af hér heima en hins vegar þeirrar markvissu viðleitni forstöðumanna fyrirtækja að sækja út fyrir landsteinana að nýjum tækifærum, bendir til þess að við höfum ekki hugsað til enda hvaða stefnu við eigum að fylgja.

[22:15]

Herra forseti. Í þessu nefndaráliti er á það bent að lausn stjórnarflokkanna um óbeina eignaraðild undir takmörkunum feli ekkert annað í sér en staðfestingu á óbreyttu ástandi og því fylgi engin sóknarfæri. Sjávarútvegurinn er vissulega í sókn. Hann hefur fjárhagslega burði til þess að nýta sér tækifæri erlendis. Hann er á þróunarskeiði sem einkennist mjög af alþjóðavæðingu. Það sem hann þyrfti kannski helst á að halda er nánara samstarf með erlendum aðilum, kannski ekki fyrst og fremst að því er varðar tækni veiðanna sem slíkra, heldur við uppbyggingu markaðs- og sölukerfa og til þess að styrkja stöðu okkar á neytendamörkuðum. Spurningin er auðvitað sú hvar arðsemin í greininni er mest. Þótt framleiðni sé tiltölulega mikil á alþjóðlegan mælikvarða í veiðunum sjálfum þá gildir ekki sama sagan um fiskvinnslu hér á landi, þ.e. landvinnsluna. Það sem við þyrftum fyrst og fremst að gera í auknum mæli er að stefna að meiri fullvinnslu, stefna að endanlegri framleiðslu á neytendavörunni sjálfri. Og ekki bara framleiðslu á henni heldur einnig eignaraðild þeirra fyrirtækja sem markaðssetja þessa vöru og ná einnig arðinum á dreifingar- og sölustiginu. Það er sennilega á þessu sviði sem fjárhagsleg og tæknileg erlend aðild að okkar fyrirtækjum og samstarf okkar með erlendum aðilum mundi skila okkur hvað mestum arði. Þess vegna er það að lausn sem byggir á ótta fyrst og fremst og óraunsæju mati á stöðunni og lokar leiðum að því er varðar slík sóknarfæri, ber vott um skammsýni sem er ekki til fyrirmyndar.

Hvers vegna er það að við ættum að setja sjávarútveginn sem menn í öðru orðinu mæra sem burðarstoð íslensks þjóðfélags og uppistöðugrein í íslensku atvinnulífi, hvers vegna ættum að loka hann af og setja hann á sérstakan bás og setja honum harðari kosti varðandi rekstrar- og vaxtarskilyrði en öðrum fyrirtækjum? Það hvarflar ekki að okkur að setja slík skilyrði varðandi önnur fyrirtæki, olíufyrirtæki, dreifingarfyrirtæki, fyrirtæki í verktakaiðnaði, sjónvarpsrekstri, ferðaþjónustu, reyndar fiskeldi, skiparekstri og tölvuþjónustu. Þar þykir okkur ekki aðeins sjálsagt heldur einnig mjög eftirsóknarvert að leita eftir þátttöku erlends fjármagns og kvörtum reyndar hástöfum undan því hvað hún er lítil og í alþjóðlegum samanburði er það staðreynd að við erum að dragast aftur út öðrum þjóðum að þessu leyti. Erlend fjárfesting á Íslandi hefur lítil sem engin verið í mörg ár og er sáralítil í hlutfalli við þjóðarframleiðslu á öllum alþjóðlegum samanburðartöflum.

Það þarf veigamikil rök fyrir því, herra forseti, að mismuna fyrirtækjum í sjávarútvegi eins og hér er lagt til með því að hafa sérstakar reglur fyrir hann og sér í lagi þegar afsökunin fyrir því eða skýringin á því að það sé verið að koma í veg fyrir aðgang að auðlindinni, sannanlega stenst ekki. Þetta er eins konar snuð sem otað er að mönnum í blekkingarskyni og stenst ekki rökrétta skoðun. Þetta gengur þvert á þá alþjóðlegu þróun sem blasir við allt í kringum okkur, að fyrirtæki renna meira og minna saman fjárhagslega, þvert á öll landamæri ríkja og það er einmitt slíkur fjárhagslegur og tæknilegur samruni fyrirtækja og fjölþjóðlegt samstarf sem víðast hvar er helsti vaxtarbroddur þeirra þjóðfélaga sem best spjara sig.

Þá er þess að geta að heimild útlendinga til fjárfestinga í sjávarútvegi getur verið lykill að frekari fjárfestingum í öðrum greinum þar sem okkur er mikið kappsmál að fá erlenda aðila til samstarfs.

Ég hef þegar, herra forseti, fjallað um þau rök sem haldið er fram gegn beinni eignaraðild útlendinga í sjávarútvegi, þ.e. þann fyrirslátt að frv. stjórnarliða dugi til þess að hindra útlendinga í að komast inn í fyrirtæki sem hafa veiðiheimildir eða rétt til fiskveiða innan lögsögunnar. Sú röksemd stenst ekki. En ef menn vilja nú samt sem áður af einhverjum ástæðum skilja eða viðurkenna, sennilega af sálfræðilegum ástæðum frekar en efnislegum eða fjárhagslegum, að þessari málamyndahindrun verði viðhaldið þá er a.m.k. alveg ljóst að það eru engin rök fyrir því að koma í veg fyrir að fyrirtæki í sjávarútvegi sem stunda iðnað, þ.e. matvælaframleiðslu, fiskvinnslu og útflutning á matvælum, verði undir sömu sök seld. Þess vegna gerðum við ítrekaðar tilraunir til þess að fá menn í umræðum í efh.- og viðskn. til þess að skoða rækilega þann kost að gera greinarmun á fiskvinnslu og útgerð í þessu sambandi. Menn bera því við að meiri hluti fyrirtækja í sjávarútvegi stundi hvort tveggja, veiðar og vinnslu, eigi hvort tveggja, veiðiheimildir eða hafi réttindi til fiskveiða og stundi fiskvinnslu. En á hitt er að líta að ef þessi greinarmunur væri gerður í löggjöfinni milli fiskvinnslufyrirtækja annars vegar og þeirra sem stunda fiskveiðar þá er ekkert sem hindrar fyrirtæki í því að stofna þá sérstök fyrirtæki um vinnsluþáttinn og þannig mætti opna þeim nýja möguleika til þess að njóta kostanna við þátttöku erlends áhættufjármagns. Sérstaklega væri slík verkaskipting rökrétt framhald af sterkari stöðu fiskmarkaða sem margir hafa bundið vonir við að muni ryðja sér til rúms í auknum mæli.

Eins og segir í þessu nefndaráliti, fór það svo að meiri hlutinn féllst ekki á þessa á ósk minni hlutans og því mun minni hlutinn flytja brtt. við 2. umr. um frv. um að heimila erlendum aðilum að fjárfesta í fiskvinnslu hér á landi. Það er þó alla vega málamiðlun sem horfir til framfara í greininni.

Herra forseti. Meiri hluti efh.- og viðskn. gerir tillögur um smávægilegar breytingar á frv. sem nánast verða nú að teljast sjálfsagðir hlutir eins og t.d. að reyking, súrsun, niðursuða og niðurlagning teljist ekki til fiskvinnslu. En að öðru leyti er frv. ríkisstjórnarinnar látið standa nær óbreytt. Það verður að segjast eins og er að sú niðurstaða er sérstaklega háðugleg fyrir þá fjóra hv. þm. Sjálfstfl. sem fóru hér fram í upphafi með svo snöfurmannlegri tillögu að fræg er orðin, um 49% eignaraðildarheimild en hafa nú sætt sig við það að fá reykingu og súrsun á sínum tillögum og reyndar niðurlagningu og það undir forustu sjálfs formanns efh.- og viðskn. Það hlýtur að vekja upp spurninguna um það hvort hér var frá upphafi um hreina og beina sýndarmennsku að ræða, alvörulaust gaspur sem engin alvara fylgdi eða hvort að garparnir reyndust ekki öflugri en svo að þeir voru einfaldlega handjárnaðir af stjórnarmeirihlutanum og settir í súrsun og niðurlagningu í framhaldi af því.

Það er ástæða til þess að vekja athygli á því, herra forseti, að þótt hér sé verið að ræða um heimildir til erlendrar fjárfestingar í sjávarútvegi þá er annað mál þessu tengt sem ástæða er til að spyrja hvers vegna stjórnarmeirihlutinn hefur þá ekki sams konar áhyggjur út af. Þá er ég að vísa að sjálfsögðu til þeirrar staðreyndar að tímabundinn fyrirvari sem settur var í EES-samningnum varðandi réttindi erlendra aðila til fjárfestingar í fyrirtækjum sem nýta orkulindirnar og gætu þess vegna keypt virkjunarréttindi eða rekið fyrirtæki í orkuiðnaði. Þessi fyrirvari er nú útrunninn þannig að staðan er nú sú að erlendir aðilar gætu út af fyrir sig, ef þeir telja það ábatasamlegt, haslað sér völl í þessum rekstri og keypt virkjanaréttindi, með öðrum orðum fengið aðgang að hinni meginauðlindinni sem Íslendingar hafa löngum gert sér vonir um að renni frekari stoðum undir efnahagslíf okkar í framtíðinni. Stjórnarmeirihlutinn hefur engar tillögur flutt um að breyta þessu, engar tillögur flutt um það að koma í veg fyrir að erlendir aðilar geti náð tangarhaldi á þessari auðlind. Það stendur einfaldlega opið. Það er ekki vegna þess að skort hafi tillögur. Við vitum af því að í farvatninu hafa verið tillögur mjög lengi til umræðu á hinu háa Alþingi og í ríkisstjórnum um það að fara eins að og við höfum gert að því er varðar sjávarútvegsauðlindina, nefnilega að flytja frv. til laga um það að eignarhald á auðlindinni sjálfri, þ.e. á fallvötnunum og jarðhitanum samkvæmt nánari skilgreiningu, verði lýst þjóðareign. Þá væri auðvitað um að ræða sömu niðurstöðuna, að ef menn vilja tryggja þjóðinni arð af þeirri auðlind, eru ekki til þess önnur ráð en að taka upp auðlindagjald í einhvers konar mynd til þess að tryggja að þjóðin hafi arð af henni. En við höfum hlustað á ítrekaðar yfirlýsingar hæstv. iðnrh. um að hann sé með slíkt frv. á teikniborðinu en það muni ekki sjá dagsins ljós á þessu þingi heldur einhvern tímann síðar. Þess vegna er það að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, fyrrv. iðnrh., hefur tekið af skarið um að flytja hér á þessu þingi tillögur um sameign þjóðarinnar á orkulindunum eins og þær voru til umfjöllunar í tíð fyrri ríkisstjórnar, en ekki náðist þá pólitískt samkomulag um. Það er ástæða til þess að spyrja ef menn meina eitthvað með þessum ótta gagnvart erlendu fjármagni í íslenskan sjávarútveg: Eru menn þá ekki haldnir sams konar ótta að því er varðar ásókn útlendinga í orkulindirnar? Og hvers vegna leyfa menn sér þvílíkt seinlæti gagnvart setningu laga sem lýsa þessar auðlindir þjóðareign? Því taka menn ekki á því máli hvernig það mætti fara saman að slíkt sameiginlegt eignarhald þjóðarinnar tryggði eignarréttinn og forræðið og arðinn í hendur þjóðarinnar ef erlendir aðilar kynnu að notfæra sér tækifærið til fjárfestingar í þeim iðnaði, þ.e. nýtingu orkulindanna sjálfra?

[22:30]

Herra forseti. Það verður ekki annað sagt en þessi atrenna stjórnarmeirihlutans og stjórnarflokkanna að þessu máli hafi verið hálfgerð sneypuför. Þeir hafa gert mikið veður út af litlu. Niðurstaðan er sú að frv. sem stjórnarflokkarnir flytja er haldlaust, það skiptir út af fyrir sig ekki máli. Það eru aðrar leiðir sem þarf að fara til þess að tryggja að þjóðin hafi arðinn af fiskimiðum sínum. Það er seinlæti ríkjandi að því er varðar lagasetningu um eignarhaldið á orkulindunum. En hafi þetta verið hálfgerð sneypuför af hálfu stjórnarliða verður þó að segjast að kórónan á því sköpunarverki hafi verið sneypuför þeirra hv. fjögurra þingmanna sem létu mikinn í upphafi en er nú mjög siginn larður þegar komið er að afgreiðslu málsins.