Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 22:34:14 (5430)

1996-04-30 22:34:14# 120. lþ. 128.9 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 308. mál: #A réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands# (erlend eignaraðild að skipum) frv. 53/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[22:34]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Að því er varðar það að rýmka um þessar heimildir þá er það ekki nema rétt sem hv. þm. sagði. Yfirgnæfandi meiri hluti á hinu háa Alþingi hefur verið þeirrar skoðunar að við ættum að setja fullkomnar skorður við fjárfestingarrétti útlendinga í sjávarútvegi. Í ljósi þess var fyrirvarinn að því er varðar EES-samningana settur.

Það kom hins vegar á daginn fljótlega út frá okkar eigin bæjardyrum séð að við gátum ekki einu sinni framfylgt þessum fyrirvörum. Í vaxandi mæli hafa menn verið að sjá að það er ekki okkur sjálfum í hag. Umræðan núna hefur síðan leitt í ljós að það er ekkert hald í tillögum stjórnarmeirihlutans vegna þess að í gegnum óbeina aðild er hægt að fara á bak við þessi ákvæði.

Varðandi það hvort veiðileyfagjaldtaka sé forsenda fyrir erlendum fjárfestingum í sjávarútvegi er svarið mjög einfalt. Það er ekki tæknileg forsenda fyrir því. En það er forsenda fyrir því að tryggja og eyða ótta manna við það að þjóðin hafi arð af nýtingu auðlindarinnar hverjir svo sem eiga þá fyrirtækin.

Að því er varðar það hvort upptaka veiðileyfagjalds muni letja áhugasama fjárfesta í fjárfestingu, þá hef ég enga trú á því. Af þeirri einföldu ástæðu að það gera menn ekki nema sjávarútvegurinn sé samkeppnishæfur og við höfum fiskveiðistjórnunarkerfi þar sem framsalið er kjarni málsins og veiðiheimildir ganga kaupum og sölum.