Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 22:57:08 (5436)

1996-04-30 22:57:08# 120. lþ. 128.9 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 308. mál: #A réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands# (erlend eignaraðild að skipum) frv. 53/1996, Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[22:57]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nú ein máttlausasta ræða sem ég hef heyrt í þingsölum í vetur. Ég eiginlega vorkenni hv. þm. Kristjáni Pálssyni fyrir þann málflutning sem hann kemur með. Hann er stjórnarþingmaður. Það ber að taka það alvarlega. Hann fer fyrir fjórum þingmönnum um tillögu sem er gjörsamlega hunsuð af hans eigin meiri hluta. Eina breytingartillagan sem er gerð er taka inn reykingu, súrsun, niðursuðu og niðurlagningu. Þetta er gert að almennum iðnaði. Hv. þm. kallar þetta hænufet eða kjúklingafet. Ég veit ekki hvað hann hugsar sér.

Hann talar um galla óbeinnar fjárfestingar, telur upp kosti beinnar eignaraðildar og segir: ,,Það er engin framtíðarsýn í því sem meiri hlutinn leggur til.`` Svo segir hann: ,,Ég ætla að styðja tillögur meiri hlutans.`` Við skulum segja að ég finn til með hv. þm.

Ég vil spyrja hann og hann á að skýra þetta fyrir þingheimi: Af hverju fengu sjónarmið þeirra fjórmenninga ekki meiri hljómgrunn innan hans eigin flokks eða ríkisstjórnar? Og ég spyr hv. þm.: Ætlar hann að styðja tillögu minni hlutans sem leggur til að heimiluð verði bein fjárfesting í fiskvinnslu? Útgerðinni er haldið utan við. Það er farin ákveðin millileið. Væri ekki meiri manndómur í því, herra forseti, að hv. þm. mundi standa við það sem hann lýsti í upphafi umræðunnar, standa við sannfæringu sína og láta þá reyna á varadekkin hjá ríkisstjórninni heldur en að hann komi upp og segist ætla að styðja ríkisstjórn sem er búin að sparka hans tillögugerð og hugmyndum svo gjörsamlega út af borðinu að það hefur sjaldan í þingsölum sést önnur eins meðferð.