Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 23:01:04 (5438)

1996-04-30 23:01:04# 120. lþ. 128.9 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 308. mál: #A réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands# (erlend eignaraðild að skipum) frv. 53/1996, Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[23:01]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er augljóst af þessu að það er ekkert að marka tillögugerð þingmannsins Kristjáns Pálssonar. Þingmaðurinn þarf að átta sig á því að hann er liðsmaður ríkisstjórnarliðs. Þegar flokkur manna úr ríkisstjórnarliðinu flytur fram brtt. við eigið frv. gera menn ráð fyrir því að málið taki breytingum í nefnd í áttina að því sem málsmetandi menn í ríkisstjórnarliðinu leggja til. Það hefur ekkert tillit verið tekið til þessarar hugmyndafræði. Hv. þm. hefði betur ekki flutt sína tillögu heldur reynt að athuga hvort hann hefði getað haft áhrif til breytinga á ríkisstjórnarfrumvarpinu í upphafi eða þá reynt að ná fram breytingum í nefndinni. Tveir tillögumenn hans sátu í nefndinni og þeir töluðu ekki fyrir og gerðu enga tillögu til breytingar í þá átt sem frv. gerði ráð fyrir. Frv. fjórmenninganna var markleysa og eina niðurstaðan úr þeirri umræðu er að það er ekki að marka tillögugerð frá hv. þm. Kristjáni Pálssyni. Mér finnst hins vegar miður að hann skuli ekki hafa staðið við sína meiningu, setið hjá við afgreiðsluna eða stutt tillögu minni hlutans. Í mínum huga hefði hann orðið maður að meiri. Ég afþakka að vera með á tillögu, hvort sem er á næsta hausti eða síðar, frá Kristjáni Pálssyni varðandi þetta efni. Ég tel að enginn árangur sé fólginn í því. Hins vegar geri ég mér fulla grein fyrir því að þingmanninum gekk gott eitt til þegar hann talaði fyrir hugmyndafræði sinni en svona geta menn ekki komið upp þegar hefur síðan komið í ljós að ekkert tillit er tekið til sjónarmiða þeirra. Hv. þm. er stjórnarþingmaður, við tökum mark á honum sem slíkum þegar hann leggur hér fram tillögu. Það er eðlilegt. För hans í upphafi var ekki hugsuð, þetta var sneypuför, því miður vegna þess að ég hef taugar til þingmannsins. Ég harma að þetta skyldi fara á þennan hátt hjá honum en þetta mál er sennilega best gleymt af hálfu þingheims.