Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 23:05:23 (5440)

1996-04-30 23:05:23# 120. lþ. 128.9 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 308. mál: #A réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands# (erlend eignaraðild að skipum) frv. 53/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[23:05]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Nú liggur mikið við. Nú dugir ekki minna en sjálf Hávamál til þess að vera hálmstrá fjórmenninganna frægu, hv. þm. Haltur ríður hrossi og hjörð rekur handarvanur. Spurningin er með þessa líkingu: Hvar er halta hrossið og hver er hinn handarvani sem á að reka hjörðina? Er verið að vísa í hv. formann efh.- og viðskn.? Er verið að vísa í þingflokk Sjálfstfl. sem gerði hina galvösku tillögumenn afturreka með allan tillöguflutning sinn þannig að þeir sættu sig við þá niðurstöðu að tillögurnar yrðu saltaðar og súrsaðar? Þetta minnir á frægustu ummælin fyrir næstsíðustu kosningar af hálfu ungs og efnilegs þingmanns sjálfstæðismanna, hv. þm. Árna Mathiesen, sem aðspurður sem dýralæknir hvort hann teldi að menntun sín mundi koma að góðum notum. Hann var spurður hvaða erindi hann ætti inn í þennan þingflokk og hann taldi að menntun sín kæmi að góðum notum fyrir þingflokkinn. Mér sýnist að það sé niðurstaðan, sérstaklega með þetta halta hross og þessa handarvani sem eiga að reka hjörðina. (Gripið fram í: Það er knapinn sem er haltur.) En spurningin er síðan sú: Ætlar hv. þm., sem segist vera að byrja lestarferðina, handarvanur og haltur, að minnsta kosti að styðja þá tillögu sem þó liggur fyrir að bjarga því sem bjargað verður með því að heimila fyrirtækjum sem stunda fiskvinnslu erlendar fjárfestingar án takmarkana?