Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 23:45:23 (5444)

1996-04-30 23:45:23# 120. lþ. 128.9 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 308. mál: #A réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands# (erlend eignaraðild að skipum) frv. 53/1996, Frsm. meiri hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[23:45]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Varðandi þetta síðara atriði, herra forseti, var ég ekki að gera öllum stuðningsmönnum beinna erlendra fjárfestinga það upp að þeir væru þar með orðnir stuðningsmenn auðlindaskatts. Ég var hins vegar að vekja athygli á því að í máli sumra sem hafa talað í umræðunni kom fram að þetta tvennt færi vel saman og væri jafnvel skynsamlegt, annað væri forsenda hins. Það fékk ég ekki til að ganga upp með þeim einföldu rökum að ég get ekki annað séð en upptaka auðlindaskatts eða umræður um það verki fælandi á erlenda fjárfestingu. Ég held að það hljóti að liggja þannig.

Varðandi síðan ræðuhöldin og reikningsdæmin sem hér hafa verið færð fram sem réttlæting beinnar fjárfestingar með alls konar dóttur- og dótturdótturfyrirtækjum sé hægt að komast upp í svo og svo háa óbeina eignaraðild þá er það að nokkru leyti útúrsnúningur vegna þess að frv. byggir líka á því að um yfirráð íslenskra eignaraðila sé að ræða og menn þurfa að lesa þetta tvennt saman. Það var farið rækilega í gegnum það á fundi efh.- og viðskn. og sjútvn. að þessi skilyrði þurfi öll að vera uppfyllt þannig að ráðherra hefur í höndum sínum viss úrræði ef svo fer í gegnum slíkt að yfirráð fyrirtækisins séu beinlínis orðin erlend þá er líka hægt að grípa í taumana gagnvart því. Það er alveg ljóst. Menn hafa því ekki lesið hlutina nógu vandlega þó að þeir séu góðir að reikna og geti komist niður í tvíliður, þríliður og fjórliður og komist niður í fjórðu kynslóð dótturfyrirtækja mega þeir ekki horfa fram hjá öðrum ákvæðum laganna sem yfirmaður þessara mála getur líka beitt fyrir sér þegar um slíkt er að ræða. Fyrirtækin þurfa ekki eingöngu að vera í eign íslenskra aðila heldur þurfa yfirráðin líka að vera tryggð. Lögin eru ótvíræð hvað það snertir.